136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

álit umboðsmanns um skipan dómara.

[14:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra segir að hér sé um álitamál að ræða en ég segi: Nei, hér er ekki um neitt álitamál að ræða. Hér er alveg augljóst að ráðherrann hefur farið á svig við stjórnsýslulög og þetta er ekki fyrsta og áreiðanlega ekki síðasta ofanígjöf sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fá frá umboðsmanni Alþingis ef þeir eiga eftir að sitja lengur við völd, sem vonandi verður ekki. Hæstv. forsætisráðherra fékk ofanígjöf frá sama umboðsmanni Alþingis fyrir stuttu vegna skorts á auglýsingu starfa.

Ég tel að það sé ótrúleg ósvífni hjá hæstv. fjármálaráðherra að svara með þeim hætti sem hann gerir. Hann skeytir hvorki um skömm né heiður en langlundargeð þjóðarinnar er hins vegar algerlega þrotið. Það hefur kannski farið fram hjá ráðamönnum þjóðarinnar. Ég tel að þetta sé enn eitt dæmið um að Sjálfstæðisflokkurinn umgengst umboð sitt og vald og stjórnsýsluna eins og hann eigi hana sjálfur en það er misskilningur og ráðherrann á að sjá sóma sinn í því að axla pólitíska ábyrgð á þessum embættisafglöpum. Það lá ljóst fyrir alveg frá upphafi hvernig hann hugðist haga stjórnsýslunni, (Forseti hringir.) embættisskipun í þessu máli, og það var ljóst af þeim svörum sem hann gaf skriflega á Alþingi þegar um þetta var spurt en þá kom í ljós að hann hafði engan tíma tekið til þess að skoða gögn málsins og skipaði (Forseti hringir.) fyrrverandi aðstoðarmann dómsmálaráðherra í embættið.