136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

greiðsluvandi einstaklinga og fyrirtækja.

[14:11]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það mætti hafa langt mál um það sem hefur verið unnið á síðustu vikum og mánuðum í því að mæta því alvarlega ástandi sem núna er og við gætum líka deilt um það lengi hvað veldur því af hverju svo margir húsnæðiskaupendur hafa lent í vanda, ef til vill vegna 90% húsnæðislána sem komið var á fyrir nokkrum árum sem eru ekkert annað en alvarlegur fingurbrjótur í húsnæðiskerfinu öllu eftir á séð og hafa haft mikið að segja um þá fasteignabólu sem hér myndaðist.

Það má nefna margt af því sem hefur verið gert núna um leið og unnið er eftir samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um endurreisn íslensks efnahagslífs. Það má nefna hækkun á persónuafslætti sem gerir það að verkum að þeir sem hafa 500 þús. kr. og minna í tekjur borga lægri tekjuskatt en áður. Við erum stödd á mesta framkvæmdaári Íslandssögunnar í samgönguframkvæmdum og ýmsu öðru þrátt fyrir niðurskurð eða afturköllun á fyrirhuguðum hækkunum á fjárlögum síðasta árs og svo mætti lengi til telja.

Þingmaðurinn nefndi stórt mál sem við höfum unnið að vel og lengi enda er málið komið fram ákaflega vandað. Dómsmálaráðherra kynnti í ríkisstjórn í morgun frumvarp til laga um skuldaaðlögun eða greiðsluaðlögun og það mun væntanlega verða lagt fyrir þingið á allra næstu dögum og skiptir mjög miklu máli. Hvað varðar stöðu bæði einstaklinga og fyrirtækja er það náttúrlega stærsta verkefni bankanna. Ég fundaði með bankastjórum eða stjórn Samtaka fjármálafyrirtækja í gær þar sem við fórum yfir þessi mál. Fjármálafyrirtækin miða allt sitt starf að því að mæta hverjum einstaklingi og hverju fyrirtæki á einstaklingsgrunni út frá því hvernig hver og einn er staddur til að koma í veg fyrir að fyrirtæki og einstaklingar verði gjaldþrota og einnig til að greiðsluaðlaga fólk og fyrirtæki á þeim erfiðu tímum sem fram undan eru. Þar verður mjög margt gert til þess að koma í veg fyrir að gjaldþrotahrina skapist á næstu vikum og mánuðum og bankarnir hafa nú þegar (Forseti hringir.) kynnt grunnaðgerðir eins og að frysta og lengja lán o.s.frv.