136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

greiðsluvandi einstaklinga og fyrirtækja.

[14:15]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Burt séð frá öllum skætingi um hvað sé hvers í þessu þá er unnið að mjög umfangsmiklum aðgerðum. Kynntar hafa verið aðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja. Á þeim atriðalistum mun fjölga allverulega og unnið er að mörgum úrræðum, en stærsta úrræðið snýr að tímabundnum vanda húsnæðiskaupenda, sérstaklega þeirra sem keyptu á háþenslutímanum. Á meðan gengi krónunnar er lágt og liggur niðri þá er þessi vandi viðvarandi og við þurfum að leita allra leiða til að fleyta fyrirtækjum og fólki í gegnum hann, en 80% af skuldum fyrirtækja eru í erlendum gjaldmiðlum. Það skapar vandann sem við stöndum frammi fyrir núna. Um leið og krónan styrkist dregur sjálfkrafa úr vandanum.

Í bönkunum og öllum fjármálafyrirtækjum okkar, þeim sem ríkið á, sparisjóðum og öðrum er unnið hörðum höndum að því dag og nótt að mæta þeim vanda og honum verður mætt, það er engin spurning. Til þess eru margar leiðir og það er best gert á einstaklingsgrunni. Svo er gripið til almennra aðgerða eins og frumvarps og laga félagsmálaráðherra um sérstaka greiðslujöfnun verðtryggðra lána.