136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

vátryggingastarfsemi.

225. mál
[14:27]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um vátryggingastarfsemi. Frumvarpið er á þingskjali 304 og er 225. mál þingsins.

Frumvarp þetta er samið af nefnd sem viðskiptaráðherra skipaði þann 18. september 2007 til þess að semja frumvarp til innleiðingar á tilskipun um endurtryggingar. Þótt skipunarbréf nefndarinnar hafi afmarkað verkefnið við innleiðinguna á sínum tíma varð fljótlega ljóst að innleiðingin kallaði á slíkar breytingar á lögum um vátryggingastarfsemi að ekki yrði hjá því komist að endurskoða þau lög í heild sinni. Meginástæða þess er að frá því núgildandi lög um vátryggingastarfsemi komu til framkvæmda hefur þeim verið breytt fjölmörgum sinnum, en samþykkt þeirra á sínum tíma var hluti af aðlögun innlends réttar að löggjöf Evrópusambandsins. Þá hafa heilu kaflar laganna verið felldir brott — eða breytt að verulegu leyti — bæði vegna sérlaga um vátryggingamiðlun og eins vegna samþykktar á nýjum vátryggingarsamningalögum árið 2004.

Upphaflegu lögin innleiddu þær gerðir ESB á vátryggingasviði sem þá voru í gildi. Frá gildistöku þeirra hafa verið innleiddar þær gerðir á vátryggingasviði sem skylt hefur verið að innleiða samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Í athugasemdum við einstaka greinar frumvarpsins er sérstaklega tilgreint hvort verið sé að innleiða ákvæði endurtryggingatilskipunarinnar, gera tillögur til breytinga á gildandi ákvæðum, án þess að það tengist sérstaklega innleiðingunni, eða hvort viðkomandi grein eigi sér samsvörun í gildandi lögum. Til skýringa skal þess getið að á mörgum sviðum eru ákvæði endurtryggingatilskipunarinnar spegilmynd ákvæða tilskipana um skaða- og líftryggingar. Í þeim tilvikum hafa ákvæðin í allflestum tilvikum þegar verið innleidd og því var eðlilegt að innleiðing endurtryggingatilskipunarinnar yrði gerð samhliða heildarendurskoðun á lögum um vátryggingastarfsemi.

Þar sem tilefni frumvarps þessa er innleiðing endurtryggingatilskipunarinnar er rétt að fara nokkrum orðum um helstu ákvæði hennar og starfsemi innlendra endurtryggingafélaga.

Lög nr. 60/1994 fjalla um vátryggingastarfsemi, bæði um frum- og endurtryggingastarfsemi. Með hugtakinu vátryggingafélag er í lögunum átt við félög sem stunda bæði frum- og endurtryggingastarfsemi. Af vátryggingafélögum með starfsleyfi í dag hefur Íslensk endurtrygging hf. ávallt starfað eingöngu í endurtryggingastarfsemi. Að auki hefur Trygging hf. hin seinni ár eingöngu unnið að uppgjöri eldri endurtryggingaskuldbindinga eftir flutning frumtryggingastofns félagsins til Tryggingamiðstöðvarinnar hf.

Í gildandi lögum er kveðið á um að enginn megi í atvinnuskyni stuðla að því að innlend vátryggingaráhætta sé frumtryggð annars staðar en hjá vátryggingafélögum sem hér hafa starfsleyfi. Hins vegar eru í gildandi lögum engin takmörk á því hvar vátryggingaráhætta er endurtryggð.

Í 1. tilskipun ESB, eins og henni hefur verið breytt, er að finna ákvæði um starfsemi félaga sem sérhæfa sig í frumtryggingum. Á Evrópska efnahagssvæðinu var á sama hátt ekki að finna sameiginleg ákvæði um starfsemi sérhæfðra endurtryggingafélaga fyrr en með tilkomu tilskipunarinnar.

Markmiðið með tilskipun um endurtryggingar er því að samræma eftirlit með endurtryggingastarfsemi og styrkja innri markaðinn hvað varðar vátryggingastarfsemi. Tilskipunin er í samræmi við alþjóðlega staðla um eftirlit með endurtryggingastarfsemi sem unnir hafa verið af alþjóðasamtökum eftirlitsstjórnvalda á vátryggingasviði

Á sama hátt og í frumtryggingastarfsemi veitir starfsleyfi í endurtryggingum í einu aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins möguleika til að starfa á öllu svæðinu. Til að vernda hagsmuni neytenda og vegna ólíkra ákvæða laga um vátryggingarsamninga á Evrópska efnahagssvæðinu þurfa frumtryggingafélög að tilkynna heimaeftirlitsstjórnvöldum sínum um fyrirætlanir um að hefja starfsemi í öðrum ríkjum svæðisins. Eftirlitsstjórnvöld heimaríkis tilkynna eftirlitsstjórnvöldum gistiríkis um starfsemina og votta að vátryggingafélagið uppfylli kröfur um lágmarksgjaldþol. Slík skilyrði eru hins vegar ekki í endurtryggingatilskipuninni.

Flest ákvæði endurtryggingatilskipunarinnar eru þó efnislega samhljóða sambærilegum ákvæðum tilskipana um skaðatryggingar og líftryggingar og felur innleiðing þeirra því í sér takmörkuð áhrif á innleiðingarákvæði gildandi laga um vátryggingastarfsemi. Helstu frávik frá ákvæðum skaða- og líftryggingatilskipana lúta að því að starfsemi með endurtryggingar er í reynd alþjóðleg.

Frumvarpið gerir nokkrar tillögur til breytinga sem hvorki tengjast innleiðingu endurtryggingatilskipunarinnar né eru umritun gildandi ákvæða, þ.e. eru hrein nýmæli. Er rétt að geta helstu nýmælanna og verður grein gerð fyrir þeim í þeirri röð sem þau eru í frumvarpinu.

Frumvarpið leggur til að íslensk vátryggingafélög skuli rekin í hlutafélagaformi. Gildandi lög gera bæði ráð fyrir hlutafélagaformi sem og því að unnt sé að reka vátryggingafélag sem gagnkvæmt félag, en þegar gildandi lög komu til framkvæmda voru starfandi allnokkur slík.

Í dag eru engin gagnkvæm vátryggingafélög með starfsemi. Þetta félagaform er hins vegar þekkt á öðrum Norðurlöndum og munu nokkur gagnkvæm félög enn starfandi þar. Í Danmörku er nokkur fjöldi smárra — á danskan mælikvarða — gagnkvæmra vátryggingafélaga sem veita þjónustu á afmörkuðum sviðum. Í nokkrum EES-ríkjum, m.a. flestum hinna nýrri, er hins vegar ekki heimilt að stofna vátryggingafélög með öðru formi en sem hlutafélög.

Svo virðist sem gagnkvæma formið dugi vart á markaði þar sem virk samkeppni er. Gagnkvæm félög eiga oft í erfiðleikum ef þau þurfa að bæta fjárhagsstöðu sína. Þau geta ekki líkt og hlutafélög aukið eigið fé félagsins með útgáfu nýrra hlutabréfa. Gagnkvæma formið virðist einkum henta þegar um sérhæfðar vátryggingar er að ræða í takmörkuðum rekstri. Þá erfiðleika sem gagnkvæmu vátryggingafélögin lentu í hér á landi má fyrst og fremst rekja til vandræða þeirra við að hlúa að fjárhagslegum styrk sínum á markaði.

Lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi voru samþykkt eftir gildistöku gildandi laga og lagabreytingar sem urðu á ákvæðum um réttarsamband vátryggingartaka og vátryggingafélags við gildistöku nýrra laga um vátryggingarsamninga gera það nauðsynlegt að afmarka betur en gildandi lög hvenær Fjármálaeftirlitið getur gripið til aðgerða og viðurlaga séu hagsmunir neytenda ekki hafðir til hliðsjónar.

Í samræmi við þetta leggur frumvarpið til að Fjármálaeftirlitið hafi heimild til að grípa til ráðstafana ef það telur að starfsemi vátryggingafélags sé ekki í samræmi við góða viðskiptahætti eða venjur. Fjármálaeftirlitinu ber að meta það hverju sinni hvort tilefni er til ráðstafana á grundvelli þeirra heimilda sem eftirlitið hefur.

Hefur Fjármálaeftirlitið um árabil starfrækt upplýsinga- og leiðbeiningaþjónustu fyrir viðskiptavini eftirlitsskyldra aðila. Þeir geta beint fyrirspurnum til eftirlitsins, ýmist almenns eðlis varðandi starfshætti eftirlitsskyldra aðila eða í tengslum við tiltekin mál. Fjármálaeftirlitið hefur hins vegar ekki úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum eða sker úr um réttindi og skyldur aðila að einkarétti eða ágreiningi um sönnun málsatvika. Þau úrræði sem einstaklingum og lögaðilum standa til boða til að leita réttar síns vegna einstakra viðskipta við vátryggingafélög eru úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, eftir atvikum gerðardómar, og almennir dómstólar.

Frumvarpið leggur til töluverðar breytingar á ákvæðum um stofnun og starfsleyfi vátryggingafélags. Taka þær mið af lögum um fjármálafyrirtæki eftir því sem unnt þykir og lögum um hlutafélög. Er lagt til að Fjármálaeftirlitið veiti starfsleyfi vátryggingafélags en samkvæmt gildandi lögum er það viðskiptaráðherra sem veitir starfsleyfið. Er breyting þessi lögð til til samræmis við það sem gildir um önnur fjármálafyrirtæki. Af þessu leiðir að komi til starfsleyfissviptingar er það Fjármálaeftirlitið en ekki ráðherra sem tekur ákvörðun um leyfissviptingu.

Frumvarpið leggur til breytingar á ákvæðum um meðferð virks eignarhlutar. Leggur það til að atkvæðisréttur aðila sem eignast eða eykur við virkan eignarhlut þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi komist að þeirri niðurstöðu að hann sé ekki bær til þess að fara með hlutinn fari niður fyrir lágmark virks eignarhlutar og takmarkist við 9,99%. Í ljósi alvarleika þess að aðili brýtur af ásetningi gegn rökstuddri niðurstöðu eftirlitsaðila þykir rétt að takmarka enn frekar athafnir slíkra aðila með tilliti til fjármálamarkaðarins og trúverðugleika hans. Fjármálaeftirlitið fer gaumgæfilega yfir tilkynningar aðila um að þeir hyggist eignast eða auka við virkan eignarhlut. Við þá yfirferð leitar eftirlitið staðfestingar á hæfi aðila til að fara með hlutinn og rökstyður niðurstöðu sína, komist það að þeirri niðurstöðu að aðilinn sé ekki hæfur til að fara með hann.

Frumvarpið leggur til þrengingu á heimildum til setu í stjórn vátryggingafélags. Bæði er fjölgað upptalningu þeirra laga sem væntanlegir stjórnarmenn mega ekki hafa gerst brotlegir við og eins eru þrengd skilyrði fyrir því að aðilar í hagsmunasambandi eða aðilar í hagsmunasambandi við samkeppnisaðila viðkomandi félags geti tekið sæti í stjórn. Ástæða þess að frumvarpið leggur til þessa þrengingu er gagnrýni á þröngt eignarhald á innlendum fjármálamarkaði. Er talin full ástæða til þess að stjórnvöld bregðist við slíkri gagnrýni enda skiptir trúverðugleiki fjármálamarkaðarins verulegu máli um framgang og möguleika aðila á markaði til að þróast frekar.

Með frumvarpinu eru lögð til ný ákvæði um gagnsæi í störfum Fjármálaeftirlitsins. Til þess að taka af allan vafa um að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að birta opinberlega niðurstöður í málum eða athugunum er talið nauðsynlegt að jákvætt ákvæði í þá veru sé að finna í þessum lögum.

Eins og áður segir var upphaflegi tilgangurinn með frumvarpinu að innleiða þessa tilteknu tilskipun. Við nánari skoðun á lögunum þótti rétt að fara mjög vandlega yfir gildandi lög með tilliti til breytinga sem gerðar höfðu verið á þeim í gegnum tíðina. Jafnframt þessu hafði Eftirlitsstofnun EFTA bent á nokkur ákvæði eldri tilskipana sem stofnunin taldi að ekki hefðu verið innleidd með fullnægjandi hætti. Þá var tilefnið einnig nýtt til þess að aðlaga ákvæði um virkan eignarhlut ákvæðum tilskipunarinnar.

Eins og ég gerði grein fyrir í upphafinu er í athugasemdum um einstaka greinar skilmerkilega fjallað um það hvort viðkomandi grein sé til innleiðingar á endurtryggingatilskipuninni, öðrum tilskipunum eða hvort um sé að ræða séríslensk ákvæði.

Að lokinni þessari umræðu er lagt til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.