136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

stjórnarskipunarlög.

58. mál
[16:10]
Horfa

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur verið um frumvarpið og þær undirtektir sem það hefur fengið hjá hv. ræðumönnum. Ég tek undir þau sjónarmið sem fram hafa komið að nauðsynlegt sé að fitja meira upp á umræðu um þessi mál, sérstaklega í ljósi þess sem gerst hefur í haust og síðan sem svar við því, að hluta til a.m.k., hvaða breytingar menn telja nauðsynlegt að gera til þess að bæta þá stjórnskipan sem við búum við. Færa má fyrir því nokkur rök að a.m.k. megi velta því fyrir sér hvort fyrirkomulagið eins og það er feli í sér galla sem eru þess eðlis að þeir hafi átt sinn þátt í að leiða til þess sem varð og þá — ef menn telja að svo geti verið — hvernig beri að bæta úr þannig að menn dragi úr líkunum á því að sömu atburðir endurtaki sig.

Ég held reyndar að þessar breytingar sem ég mæli fyrir séu lagðar fram óháð því sem gerðist í haust enda frumvarpið samið löngu fyrir þann tíma, en þar er um að ræða atriði sem greinilega eiga erindi inn í umræðu núna um það hvernig bregðast eigi við því sem orðið er. Ég er sannfærður um að þessi atriði og e.t.v. fleiri sem er rétt að taka til umræðu, eins og þeir hafa bent hér á hv. þingmenn Pétur Blöndal og Lúðvík Bergvinsson, eru þess eðlis að við eigum að íhuga það alvarlega og leitast við að ná samkomulagi um breytingar á stjórnarskránni. Það er alla vega nauðsynlegt, ef menn telja að nauðsynlegt sé að breyta henni til að bæta úr, að menn ræði það á þessu vorþingi og nái pólitísku samkomulagi um það til að geta hrint því í framkvæmd svo fljótt sem verða má á næstunni.

Ég sakna þess — í ljósi þess að í upphafi þingfundar var gerð athugasemd við dagskrá á þann veg að hún svaraði ekki þeirri umræðu sem uppi væri eða ástandi og menn væru ekki að takast á við vandann sem við er að etja og fundið að því að tiltekin mál væru á dagskrá — að þeir sem höfðu þessa skoðun hafi ekki sýnt sig hér í þingsölum og tekið þátt í umræðu um þetta þingmál. Ég spyr sjálfan mig: Finnst þeim hinum sömu sem fannst dagskráin ekki endurspegla viðfangsefni Alþingis að þetta mál sé ekki þess virði að líta á það eða eru menn of uppteknir við aðra þætti í störfum sínum en að líta til þess sem þeir ættu kannski öðru fremur að sinna á þessum degi, að skoða löggjöfina sem undir er? Ég hefði kosið að menn — sérstaklega þeir sem eru gagnrýnir á stöðuna í dag — sýndu þessu meiri áhuga þannig að við vissum meira um hug þeirra til þessara atriða og þeirra breytinga sem menn teldu að þyrfti að gera. Þingmenn ráða því sjálfir hvort þeir taki þátt í umræðu eða sýni sig hér í þingsal á öðrum stundum en þeim sem kastljós fjölmiðlanna er á þingsalnum.

Varðandi þær hugmyndir sem komu fram í máli hv. þingmanna voru þær allar á þá lund að mæta þeim sjónarmiðum sem ég legg fram í frumvarpinu þannig að ég get tekið undir þær að því leyti að þær bæta núverandi ástand ef þeim yrði hrundið í framkvæmd. Varðandi þá tillögu hv. þm. Péturs Blöndals um að hafa áfram heimild til bráðabirgðalagasetningar en setja ákvæði um að kveðja skuli saman Alþingi svo fljótt sem verða má í kjölfarið má segja að það væri framför frá því sem nú er, alveg ótvírætt. Að vísu mundi það svolítið ráðast af því hversu fljótt þingið yrði kallað saman. Hver ætti að meta það? Ég held t.d. að þá mundi ég leggja til, ef sú leið yrði farin, að það væri forseti Alþingis sem kallaði til þingfundar. Hann hefði það mat með höndum, hvenær hann gæti gert það eða hversu skjótt, af því að ég treysti því að hans mat væri frekar á þá lund að gera það fyrr en seinna. Ef það væri hins vegar oddviti ríkisstjórnarinnar sem beitir bráðabirgðalagavaldinu sem ætti að kveðja þingið saman finnst mér líklegra að hann mundi líta á hlutina á hinn veginn, að kveðja það saman síðar en fyrr, þannig að ég mundi leggja til að menn kæmu sér saman um að það yrði forseti Alþingis.

Ég hugsa hins vegar að ef við færum þessa leið yrði niðurstaðan sú að þing yrði kallað saman nánast örugglega innan viku. Ég hugsa að það gætu verið svona að jafnaði tveir, þrír dagar því að það er alltaf í viðbragðsstöðu og það er ekki nema í mestu sumarleyfum á þeim tíma árs sem það gæti kannski verið svifaseinna til fundar. En að öllu jöfnu held ég að hægt væri að kveðja þingfund saman frá útgáfu bráðabirgðalaga á þremur dögum eða jafnvel innan þeirra til þess að leggja löggjöfina þar fyrir og afgreiða hana. Þá erum við eiginlega komin að þeirri niðurstöðu, sem ég hugsa nú að hafi vakað fyrir hv. þingmanni, að þá er ekkert unnið með því að setja bráðaðbirgðalög, þá á bara að leggja frumvarp fyrir þingið. Ef menn geta kallað þingið saman með mjög skömmum fyrirvara til að staðfesta bráðabirgðalög geta menn líka gert það sama til að leggja frumvarpið þar fram upphaflega og sleppa bráðabirgðalagaútgáfunni. Þá hugsa ég, virðulegi forseti, að ef menn vilja halda í möguleikann á útgáfu bráðabirgðalaga verði til viðbótar því sem hér hefur komið fram að þrengja möguleikann á útgáfu bráðabirgðalaga, setja nánari ákvæði í stjórnarskrána um það hvenær heimilt væri að beita þeim ákvæðum og taka það mat úr höndum ráðherranna þannig að þeir hafi ekki frjálst mat um það hvenær heimildin er virt. Það verður ekki gert öðruvísi en að tilgreina í texta afmörkunina á heimildarnotkuninni.

Í öðru lagi varðandi það að ráðherra haldi þingsætinu en komi ekki að þingstörfum að öðru leyti er það líka til bóta frá núverandi ástandi og sérstaklega ef þannig verður um hnútana búið að þingmaðurinn sem er í leyfi vegna þess að hann situr sem ráðherra komi ekki einu sinni inn á þingflokksfundi, það held ég að mundi skipta máli, ég tel það mundi skipta verulegu máli. Hugsanlegt er að menn komist það langt með þessari leið að hægt sé að fallast á að þingmaður haldi sæti sínu þann tíma sem hann er ráðherra. Ég vil alls ekki útiloka að menn geti náð saman um útfærslu á þeirri leið, sem ég dreg þó enga dul á að ég tel lakari og eins og ég sagði í framsöguræðunni hef ég styrkst í þeirri skoðun minni að það verði að vera annaðhvort eða. En ég er alltaf tilbúinn að hlusta á önnur sjónarmið í málinu og leitast við að ná samkomulagi um það.

Varðandi þriðja atriðið, um þjóðaratkvæðagreiðsluna, get ég tekið undir að það er ankannalegt að breytingar á stjórnarskránni yrðu samþykktar með mjög lítilli þátttöku og líka með mjög lágu hlutfalli þeirra sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni eða lágu hlutfalli þeirra sem eru á kjörskrá. Ég er því alls ekki fráhverfur að menn setji sér einhverjar skorður í þeim efnum en samt held ég að þær megi ekki verða svo háar sem hv. þingmaður nefndi. Stjórnarskráin er ekki hið endanlega plagg þannig að mér finnst ekki rétt að gera breytingar á stjórnarskránni erfiðari en að setja hana í upphafi þegar er verið að reyna að verja hana, þannig að gildandi fyrirkomulag er ekki það rétthátt að það hafi meiri rétt til að standa en nýtt ákvæði sem kemur inn. Það gerist ef við setjum skilyrðin svo stíf eins og t.d. fyrir tvo þriðju hluta atkvæða, þá er ákvæði inni í stjórnarskrá sem er samþykkt í upphafi með einföldum meiri hluta, þá heldur það gildi sínu jafnvel þótt allt að tveir þriðju séu á móti. Mér finnst það liggi ekki fyrir nein rök sem staðfesta að það sé svo rétthátt að minni hluti þjóðarinnar geti séð til þess að það breytist ekki og komið í veg fyrir að nýtt ákvæði taki gildi jafnvel þó að það hafi meirihlutastuðning. Ég held að menn verði að miða við meiri hlutann, hvort tölurnar eigi að vera 50% kjörsókn eða að 50% þeirra sem eru á kjörskrá styðji mál til þess að það hljóti gildi og 2/3 þeirra sem kjósa segi já, mér finnst það fullstíft. Ég get fallist á að hafa þátttökulágmark en ég held að ég mundi mæla með því, að því skilyrði uppfylltu, að lágmarkstöku sé náð, að þá gildi meirihlutavilji þeirra sem á annað borð hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslunni, af því að fyrra ákvæðið um lágmarksþátttöku á að duga til þess að tryggja að á bak við breytingar sé þó einhver lágmarksstuðningur.

Fleira vil ég ekki segja um málið eða undirtektir þingmanna að þessu sinni að öðru leyti en því að ég þakka þeim fyrir framlag þeirra til umræðunnar.