136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

stjórnarskipunarlög.

58. mál
[16:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi bráðabirgðalagaheimildina vildi ég hafa hana mjög þrönga — ef hv. frummælandi gæti hlýtt á mál mitt — og ég nefndi jarðskjálfta, eldgos, eitthvert hrun eða skæruliðaárásir eða stríð. Ég vildi hafa hana svo þrönga að ég er ekki að tala um vikur, ég er að tala um daga eða klukkutíma, þ.e. eins og ég gat um: „Ætíð skulu þau lögð fyrir Alþingi, sem koma skal saman svo fljótt sem auðið er.“ Það er að mínu mati innan einhverra klukkutíma, innan sólarhrings alla vega, og það er þá hægt að boða varamenn ef mikið er um sumarleyfi, ég sé enga ástæðu til annars. Fyrir mér er þetta eitthvað sem yrðu eiginlega aldrei notað því að sjálfsögðu ef hægt er að kalla Alþingi saman með þessum fyrirvara og ekki liggur meira á málinu þá verður það bara lagt fyrir Alþingi þannig að þá þarf ekki bráðabirgðaákvæði til. Það er eingöngu ef menn lenda í þeirri stöðu að þeir neyðast til að setja einhver lög og ekki er af einhverjum ástæðum hægt að kalla Alþingi saman þá verður að vera heimild til bráðabirgðalaga.

Þegar stjórnarskráin var sett í upphafi var mikill áhugi á málinu og vitað að það yrði mikil kjörsókn. Menn hefðu örugglega hugsað sig um ef þeir hefðu þurft að óttast að ekki yrði nema 20% kjörsókn og 11% mundu samþykkja.