136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

stjórnarskipunarlög.

58. mál
[16:24]
Horfa

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég segi nú eftir þessar útskýringar hv. þingmanns á hugmynd sinni um útgáfu bráðabirgðalaga að það er styttra á milli hugmynda okkar en ég hélt því að þær leiða raunverulega til þess að tekið er fyrir útgáfu bráðabirgðalaga og þá er ekki mikið bil á milli sjónarmiða okkar og ég fagna því. Það má alveg hugsa sér að hafa opna heimild sem er einhvers konar viðurlagaheimild ef á þarf að halda. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að þess þurfi ekki en ég get alveg hugsað mér að ræða það við aðra þingmenn og sjá hvort menn nái saman um útfærslu á því. Ef menn telja nauðsynlegt að hafa viðurlagaákvæði er sjálfsagt að skoða það, en þá yrði það að vera ákvæði sem takmarkaði innihald laganna við einhverjar aðgerðir sem nauðsynlegt væri talið að grípa til með svo skjótum hætti. Ég tel t.d. að útgáfa bráðabirgðalaganna síðasta sumar, í kjölfar jarðskjálftans á Suðurlandi, hafi alls ekki fullnægt neinum mælikvörðum um nauðsyn fyrir útgáfu bráðabirgðalaga vegna þess að það fjallaði ekkert um að bregðast við vanda fólks í sárri nauð eða öðru slíku heldur að lækka sjálfsábyrgð fólks í innbústjóni um nokkra tugi þúsunda króna. Það mál, þó að það geti verið eðlilegt að ræða það á Alþingi og breyta löggjöf, átti ekkert erindi inn í bráðabirgðalög.