136. löggjafarþing — 70. fundur,  22. jan. 2009.

staða efnahagsmála og horfur á vinnumarkaði, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[10:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þó að yfirskrift þessarar umræðu sé efnahagsvandinn og horfur í atvinnumálum hlýtur umræðan eðli málsins samkvæmt að vera um þjóðarbúskapinn í heild og ástandið í samfélaginu, þetta er allt samofið. Verkefnið er ekki bara efnahagslegt í einhverjum þröngum skilningi. Það er það vissulega að hluta til, snýr að endurreisn hrunins bankakerfis, það snýr að atvinnulífinu, það snýr að heimilunum og fjölskyldunum, það snýr að sveitarfélögunum sem fá nú í sínar hendur gríðarlega aukin og erfið verkefni, ekki síst á sviði félagsþjónustu og nærþjónustu. Það snýr að heilbrigðiskerfinu þar sem starfsfólk finnur nú þegar fyrir auknu álagi, ekki síst í þeim hlutum þjónustunnar á heilsugæslustöðvum t.d. sem snúa að fjölskylduráðgjöf, sálfræðiþjónustu og öðru slíku. Þetta snýr sem sagt að því og viðfangsefni þessarar umræðu hlýtur að vera: Hvernig ætlum við í heild sinni að halda utan um íslenskt samfélag á næstu mánuðum og árum, koma okkur í gegnum þessa erfiðleika og vinna okkur upp úr þeim?

Vandinn er vissulega efnahagslegur en hann er líka félagslegur, hann er mannlegur og hann er pólitískur. Það birtist okkur með æpandi hætti þessa dagana að vandinn er ekki síst pólitískur. Við höfum ríkisstjórn sem hefur misst tökin á ástandinu í samfélaginu. Með því er ekki verið að segja að hún hafi ekkert verið að gera, ég held að enginn hafi haldið því fram. Staðreyndirnar tala engu að síður sínu máli, ríkisstjórnin hefur haft yfir hundrað daga til að reyna að vinna úr þessum málum og hún hefur gert það á þann hátt að þjóðin er ákaflega ósátt og ríkisstjórnin hefur ekki traust. Það er óumflýjanlegt að horfast í augu við ástandið í samfélaginu sem hluta af viðfangsefninu.

Við höfum öll áhyggjur, miklar áhyggjur, ekki síst eftir gærdaginn, nóttina og það sem gerðist í fyrradag. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að héðan úr þessu húsi sendum við þá áskorun til allra að gæta stillingar og halda sig við friðsamlegar og lögmætar aðgerðir og hvetja bæði mótmælendur og lögreglu til þess að reyna að halda ró sinni eins og tókst afar vel framan af og alveg fram undir hið síðasta í þessum sögulegu fjöldaaðgerðum þar sem tugir þúsunda Íslendinga hafa notað rétt sinn til þess að koma skoðunum sínum og óánægju á framfæri og setja fram réttmætar og eðlilegar kröfur.

Það er þar sem ríkisstjórnin hefur að mínu mati brugðist mest. Henni hefur algerlega mistekist að mæta óskum samfélagsins um upplýsingar, um að breytt verði um vinnubrögð, að hlutirnir verði opnir, gagnsæir, lýðræðislegir, heiðarlegir, að við skiljum gömlu aðferðirnar eftir. Ríkisstjórninni hefur algerlega brugðist að mæta kröfunum um ábyrgð og það vekur æ meiri undrun, bæði innan lands og utan, að allir skuli sitja þar sem þeir sitja, ráðherrar, forustumenn eftirlitsstofnana og ábyrgðaraðilar í fjármálaheiminum og víðar.

Loksins er heildarmyndin að birtast okkur hvað varðar skuldastöðu þjóðarbúsins og ekki síst ríkisins. Þegar við ræddum þessi mál hér fyrir jól þegar til umræðu voru fjárlög, fjáraukalög, heimildir ríkisstjórnarinnar til að gefast upp í Icesave-deilunni og heimildir ríkisstjórnarinnar til að ganga til samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn marglýstum við eftir því hver væri heildarmyndin og hvort ekki væri nauðsynlegt að átta sig á því í hvað stefndi með heildarskuldsetningu ríkissjóðs og þjóðarbúsins og hverjar líkurnar væru á að við gætum ráðið við þetta. Nú hafa tölurnar verið að skýrast og birtast og þær eru ískyggilegar. Það eru ekki bara horfurnar í þjóðarspánni sem slíkri, horfur um næstum 10% fall þjóðartekna, 13% verðbólgu á þessu ári, 10% atvinnuleysi í lok ársins sem eru ískyggilegar. Það ískyggilegasta eru auðvitað skuldirnar, það ískyggilegasta er að íslenska ríkið og íslenska þjóðarbúið verða, ef allt þetta gengur eftir, svo þunglestuð skuldum að hagfræðingar glíma nú helst við það að reyna að átta sig á því hvort þetta sé yfir höfuð hægt, eins og við sjáum t.d. á blaðagreinum í morgun og undanfarna daga.

Það þarf í raun og veru ekki að flækja þetta mikið. Það er nokkuð ljóst að skuldastabbi, innlendur og erlendur, er að bætast á ríkið sem verður á næstu árum af stærðargráðunni 2.000–2.500 milljarðar. Það er vissulega rétt að þetta eru eðlisólíkir hlutir, sumt lántaka innan lands hjá okkur sjálfum, sumt lán sem við getum vonandi geymt í varasjóði og sem gjaldeyrisforða en sumt eru líka lán sem eru tapaðir peningar í hafi og koma ekki að einu einasta gagni til að byggja upp nokkurn skapaðan hlut á Íslandi og þar er Icesave-reikningurinn verstur. Það er alveg ljóst að vaxtakostnaður af þessum rosalega skuldastabba verður svo geigvænlegur, vaxtakostnaðurinn einn, á næstu tveimur, þremur árum að hann mun taka drjúgan hluta tekna ríkisins á hverju ári, 85 milljarða eða þar um bil í ár, stóraukinn á næsta ári, kannski 150 milljarðar, tiltölulega fljótreiknað ef 35–50 milljarðar vegna Icesave bætast ofan á það sem við erum að borga á þessu ári og fleira til. Þá fer að verða mikil spurning um það hvort við getum yfir höfuð borgað vextina, hvort þjóðarbúið yfir höfuð ræður við vextina. Þá erum við ekkert farin að tala um afborganir, ekki neitt. Jú, eignir koma þarna vonandi einhverjar á móti en þá eiga líka afborganirnar eftir að koma inn í myndina frá og með árunum kannski 2011, 2012, 2013.

Ég ætla, herra forseti, fyrst og fremst að ræða hér að öðru leyti um atvinnuhorfurnar og atvinnuleysið, vegna þess að að okkur steðjar, fyrir utan hinn þröngt skilgreinda efnahagslega vanda, kannski sérstaklega tvíþætt hætta, tvenns konar samtengt böl. Það er hættan á stórfelldu atvinnuleysi og það er hættan á landflótta. Atvinnuhorfurnar eru þannig að þær versna hraðar en þær hafa eiginlega nokkru sinni gert á Íslandi, atvinnuleysið tvöfaldast á skrám sumra skráningaraðila næstum því að segja milli mánaða og er að breiðast út um allt land. Það er ekki bara hér á höfuðborgarsvæðinu þó að hér sé það sannarlega mikið og ört vaxandi, það er líka mikið atvinnuleysi á Suðurnesjum og það er mikið atvinnuleysi t.d. á Akureyri og á Norðausturlandi. Þar eru nú þúsund manns án atvinnu, þar af um 80% á Akureyri og þar af er atvinnuleysið langmest meðal yngsta hópsins, 18–24 ára.

Atvinnuleysi er mikið böl. Það er efnahagsleg sóun, það er félagslegt og mannlegt böl eða nær væri kannski að segja harmleikur, og það er skemmandi. Það rýrir starfsgetu, dregur úr sjálfsvirðingu og sjálfsáliti þeirra sem í því lenda. Það á ekki að þurfa að dæma nokkurn mann til þess að geta ekki nýtt starfskrafta sína sé annarra kosta völ. Íslendingar eru vinnusöm þjóð og við skulum hafa það í huga að atvinnuleysið kemur öðruvísi við á Íslandi en kannski í flestum öðrum löndum. Vegna hvers? Vegna þess að Íslendingar hafa byggt upp afkomu sína á því að ekki bara vinna með mikilli atvinnuþátttöku beggja kynja heldur vinna mjög mikið. Hér er vinnuvikan að meðaltali 10 klst. lengri en í nálægum löndum, þannig hafa menn byggt upp lífsafkomu sína, með óheyrilega langri vinnuviku, sem er auðvitað böl í sjálfu sér, en þannig hefur það verið. Þess vegna er það rosaleg breyting fyrir fólk sem hefur náð að skapa sér sæmilega lífsafkomu með gríðarmikilli vinnu að missa hana og hverfa niður á atvinnuleysisbæturnar sem ná ekki einu sinni 150 þús. kr. þegar tekjutengda tímabilið er runnið út og þó að menn fái 270 kr. á dag vegna hvers barns. Það er ekki ofgert.

Staðan er þannig að atvinnuleysið var tæp 5% um áramótin, það gera tæplega átta þúsund heilsársstörf en á skránni eru um tólf þúsund manns vegna hlutastarfa. Því er spáð að það endi í um 10% í lok þessa árs, sem mun gera atvinnuleysi upp á tæp 8% að meðaltali yfir árið. Það mun þýða, þar sem kostnaður við hvert prósentustig atvinnuleysis er yfir 10 milljarðar kr., að útgjöld vegna atvinnuleysisbóta verða sennilega 24–25 milljarðar kr. á árinu. Atvinnuleysistryggingasjóður hafði 15 milljarða í sjóði nú í byrjun janúarmánaðar og getur vænst tekna upp á um það bil 6 milljarða af tekjustofni sínum og vaxtatekjum, það gera 21 milljarð til að moða úr, Atvinnuleysistryggingasjóður verður með öðrum orðum tómur á haustmánuðum og eftir það þarf að leggja honum til eitthvað á þriðja milljarð kr. á hverjum mánuði miðað við atvinnuleysisstig af því tagi sem við erum hér að ræða um.

Það er þess vegna þeim mun undarlegra sem maður jafnvel les um í blöðum að ríkið er að segja upp fólki. Landhelgisgæslan ætlar t.d. að segja um 20–30 manns — (Gripið fram í: Hún dró það til baka.) nú, það er gott og vonandi verður það víðar. Enda spyr maður sig: Hvaða tilgangi þjónar það að segja upp fremur illa launuðum ríkisstarfsmönnum til þess að færa þá yfir á 150 þús. kr. atvinnuleysisbætur sem koma frá ríkinu eða úr opinberum sjóði?

Maður er undrandi að frétta af hlutum eins og þeim að það stefni í að allt að einni milljón plantna sem eru í framleiðslu í landinu verði hent af því að búið er að skerða svo fjárveitingar til þeirra sem í hlut eiga að þeir ráða ekki við kaupa þær eða greiða vinnulaun við að koma þeim niður í jörðina. Er nú ekki hægt að standa öðruvísi að málum? Er það virkilega ekki skynsamlegt að stuðla að því að t.d. á þessu sviði, landgræðslu, skógræktar, landbótarverkefna, verði ráðist í viðmikið átaksverkefni þannig að ungt fólk geti frá og með vorinu haft launaða vinnu og verið úti í náttúrunni við slík þjóðnýt og uppbyggileg störf og við komum þessum plöntum ofan í jörðina? Það kostar ekki stóra fjármuni en það gæti þýtt að 1.000, 1.500 eða 2.000 ungmenni í landinu eða atvinnulaust fólk á hvaða aldri sem er yrði við störf í sumar í staðinn fyrir að mæla göturnar. Ég held að við verðum að takast á við þessa hluti af miklu meiri metnaði en hæstv. ríkisstjórn er enn að gera.

Þjóðhagsspáin er kannski ekki síst svakaleg vegna þess að þar er spáð áframhaldandi óðaverðbólgu, áframhaldandi okurvöxtum langt fram á þetta ár. Því er spáð að verðbólgan verði 13% á árinu 2009. Við vitum hvað það þýðir í verðtryggðum lánum. Því er spáð að stýrivextir verði 13% og fari ekki að lækka fyrr en eftir fyrsta ársfjórðung úr því sem þeir eru núna. Þetta eru ekki gæfulegar horfur. Það hefði verið fróðlegt að hæstv. forsætisráðherra hefði farið yfir það í máli sínu: Er það svo að við getum ekki lækkað vexti í landinu þrátt fyrir það að þeir séu að kyrkja allt atvinnulíf? Eru það fyrirmælin frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem ráða því?

Nei, herra forseti, ég held að við höfum ekki þá tilfinningu, því miður, nema þá örfáir einstaklingar hér í þessum sal að þetta sé að ganga þannig að við getum verið bjartsýn á framhaldið. Þetta verður ekki gert í andstöðu við þjóðina og án þess að hafa hana með í hinu risavaxna verkefni sem fram undan blasir við okkur. Hvaða leiðir eru færar til þess að endurheimta það traust og þann stuðning? Ég held að það sé aðeins ein leið og blessunarlega er sífellt fleirum að verða það ljóst: Við verðum að efna til alþingiskosninga sem allra fyrst þannig að ný ríkisstjórn með nýtt umboð og þjóðina á bak við sig geti ráðist í það risavaxna verkefni að endurreisa Ísland.