136. löggjafarþing — 70. fundur,  22. jan. 2009.

staða efnahagsmála og horfur á vinnumarkaði, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:27]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er mjög sérkennilegt að ræða hér um efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar í fortíð og framtíð þegar okkur er öllum ljóst að ríkisstjórnin á sér ekki viðreisnar von. Það sjá allir. Það sjá fulltrúar ríkisstjórnarinnar á Alþingi kannski allir nema hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn Íslands.

Ekki jókst bjartsýnin, hæstv. forseti, við að hlusta á hæstv. forsætisráðherra. (Gripið fram í.) Hans ræða var máttlítil. Það var enginn kraftur í þeirri ræðu. Engin sannfæring einkenndi málflutning leiðtoga ríkisstjórnarinnar. Það má þó segja um ræðu hæstv. iðnaðarráðherra að einhver framsýni og bjartsýni og kraftur bjó í hans málflutningi. (Gripið fram í.) En það verður að segjast eins og er, hæstv. forseti, að málflutningur forsætisráðherra hér var heldur máttlítill og það er áhyggjuefni því sú umræða um efnahags- og atvinnumál sem við tökum nú fer fram í skugga mestu mótmæla lýðveldissögunnar. Við Íslendingar sem fyrir rúmum hundrað dögum vorum talin fimmta ríkasta þjóð veraldar erum nú ein sú skuldugasta. Eftir situr hnípin þjóð í vanda, þjóð sem heimtar svör við ákveðnum spurningum. Hví fór sem fór?

Þessi þjóð gerir kröfur til ríkisstjórnarinnar um aðgerðir og svör. Almenningi finnst að valdhafarnir hlusti ekki á raddir þeirra og vantraustið og reiðin eykst í samfélaginu dag frá degi. Í 20% verðbólgu og 18% stýrivöxtum og með lækkandi verði á fasteignum brenna eignir landsmanna upp rétt eins og bálkestirnir sem kveiktir hafa verið víða um Reykjavíkurborg að undanförnu. Fólk horfir á eftir ævisparnaði sínum og gott betur en það, horfir á skuldir heimilanna vaxa dag frá degi og margir horfa því miður nú þegar fram á gjaldþrot.

Ég tilheyri skuldugustu kynslóð Íslandssögunnar, þeirri kynslóð sem mun þurfa að greiða þann stærsta víxil sem nokkur kynslóð hefur þurft að greiða í lýðveldissögunni. Ég tilheyri þeirri kynslóð sem keypti sér húsnæði, tók námslán, jafnvel bílalán, og sumt í erlendri mynt að áeggjan bankanna, þeirra sömu banka og margir telja að hafi síðar tekið stöðu á móti krónunni með þeim afleiðingum að lán þeirra sem skulda í erlendri mynt hafa margfaldast. Það er því eðlilegt, hæstv. forseti, að fólk sé reitt.

Á sama tíma vex atvinnuleysið gríðarlega. Á milli 11 og 12 þúsund einstaklingar eru nú atvinnulausir og það er margt sem bendir til þess að sú tala muni tvöfaldast á næstu vikum og mánuðum. Þegar 20 þúsund einstaklingar ganga atvinnulausir um götur bæjanna segir sig sjálft að það snertir hverja einustu fjölskyldu í landinu með einum eða öðrum hætti. Við þessu þarf að bregðast. Við framsóknarmenn teljum það forgangsverkefni við þessar aðstæður að mæta þörfum heimila og fyrirtækja þannig að það verði fyrir flest heimili hægt að komast í gegnum þá miklu erfiðleika sem að okkur steðja.

Er það nema von, hæstv. forseti, að fólki sé ofboðið? Við horfum á atvinnurekendur í raun axla sína ábyrgð á ástandinu, fólki er sagt upp, dregið er úr yfirvinnu og gripið er til allra þeirra hagræðingaraðgerða sem völ er á. Á meðan sitja ráðherrarnir í stólum sínum. Yfirmenn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins gera það líka. Þeir aðilar sem áttu að standa vaktina starfa áfram á meðan þúsundir Íslendinga hafa misst vinnuna. Er nema von að þessi staðreynd komi við réttlætiskennd almennings?

Ég spyr: Koma þessar staðreyndir ekkert við réttlætiskennd þeirra stjórnarþingmanna sem hér sitja og bera ábyrgð á því að þessir aðilar sitja enn óáreittir? Erlendis furða menn sig á því að enginn aðili í þessum stofnunum skuli hafa axlað ábyrgð. Þess vegna er traust alþjóðasamfélagsins á íslensku efnahagslífi eins lítið og raun ber vitni. Ef traustið er lítið sem ekkert á stjórn íslenskra efnahagsmála, jafnt hér innan lands sem erlendis þá er alveg ljóst að það verður ómögulegt að byggja upp hið nýja Ísland. Hæstv. forseti. Breytinga er þörf.

Það kom fram í fréttum í morgun að á formannafundi Alþýðusambands Íslands á morgun á að taka fyrir tillögu þar sem gerð allra kjarasamninga verði frestað fram á mitt ár eða þangað til ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum, ríkisstjórn sem hafi þá skýrt umboð kjósenda til að leiða okkur út úr þeim erfiðleikum sem við okkur blasa. Í þessu felst vantraust Alþýðusambands Íslands á ríkisstjórnina. Reyndar held ég að það vantraust sé ekkert nýtt af nálinni því að þegar haftastefnan var innleidd hér á landi gagnvart gjaldeyrisviðskiptum rauf ríkisstjórnin frið við aðila vinnumarkaðarins. Ekkert samráð var haft við aðila vinnumarkaðarins við þann gerning.

Hann er eftirminnilegur sá fundur, kvöldfundur í viðskiptanefnd Alþingis, þegar aðilar vinnumarkaðarins fordæmdu ríkisstjórnina fyrir þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í því máli. Þegar ríkisstjórnin leyfir sér að fara fram með slíkum hætti, sérstaklega á þeim tímum þegar nauðsynlegt er að ná fram þjóðarsátt um aðgerðir til að sporna við kreppunni þá er henni einfaldlega ekki sætt lengur.

Það er ekkert óeðlilegt við að aðilar vinnumarkaðarins skuli bera jafntakmarkað traust til ríkisstjórnarinnar og raun ber vitni. Þegar um 70% íslenskra fyrirtækja eru tæknilega gjaldþrota er eðlilegt að spurt sé: Af hverju þurfa þau að búa við 18% stýrivexti? Af hverju? Þegar búið er að setja höft á fjármagnsflutninga þjóna svo háir stýrivextir nær engum tilgangi nema þeim einum að þjarma að fyrirtækjunum sem þurfa í framhaldinu að fækka starfsfólki og hækka verð á afurðum sínum til þess að standa undir sínum rekstri.

Hæstv. forseti. Við hljótum einnig að velta því fyrir okkur af hverju heimilin í landinu þurfi líka að búa við 18% stýrivexti. Ég spyr: Eru Seðlabankinn og ríkisstjórnin að koma í veg fyrir þenslu í rekstri heimilanna í dag, eitthvert óþarfa bruðl? Eru stjórnvöld ekki lengur með á nótunum hér í dag? Flest íslensk heimili berjast í bökkum við að standa undir sínum skuldbindingum í dag vegna þess að afborganir af lánum heimilanna hafa hækkað gríðarlega á undanförnum mánuðum. Þessi ríkisstjórn er ekkert jarðtengd, hæstv. forseti. Þessu er fólk meðal annars að mótmæla hér á Austurvelli og víðar um land, hæstv. forseti.

Við framsóknarmenn lögðum fram hér á þingi í fyrri hluta septembermánaðar undir forustu þáverandi formanns, Guðna Ágústssonar, þingsályktunartillögu um stofnun efnahags- og samvinnuráðs Íslands. Sú tillaga felur í sér að ráðinu verði falið að samræma leiðir út úr efnahagsvandanum, leggja grunn að styrku íslensku efnahagslífi til frambúðar með það að leiðarljósi að styrkja útflutning og framleiðslu atvinnulífsins og þjóðarsparnað. Þessi tillaga var lögð fram undir forustu þáverandi formanns, Guðna Ágústssonar, og það var enginn stjórnarliði hér í þessum sal sem tók þátt í þeirri umræðu. Ég spyr, hæstv. forseti: Gæti ekki verið að staðan væri með öðrum hætti ef ríkisstjórnin hefði sýnt þann manndóm að kalla saman helstu hagsmunaaðila í íslensku samfélagi að samningaborði til þess að ná saman þjóðarsátt um aðgerðir til þess að mæta þeim mikla efnahagsvanda sem blasir við íslenskri þjóð? Þvert á móti höfum við horft á einleik ríkisstjórnarinnar sem hefur án samráðs við marga af helstu efnahagsráðgjöfum þjóðarinnar gert hver mistökin á fætur öðrum. Því miður, hæstv. forseti, verð ég að segja þetta. Þetta er napurleg staðreynd sem við stöndum frammi fyrir og það verður erfitt fyrir okkur að sigla út úr þeim vanda sem meðal annars núverandi ríkisstjórn á sök á að hafa leitt þjóðina í.

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um vanda heimilanna og vanda fyrirtækjanna. Þingflokkur framsóknarmanna undir forustu nýs formanns, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hefur núna að loknu kröftugu flokksþingi unnið að tillögugerð um hvernig við megum mæta vanda fólks og fyrirtækja í dag. Það er ljóst að mörg fyrirtæki búa við lausafjárskort, mörg fyrirtæki verða í vandræðum strax um næstu mánaðamót við að greiða starfsfólki sínu laun. Stjórnvöld verða að búa svo um hnútana að ódýrt fjármagn verði veitt til íslenskra fyrirtækja þannig að þau geti haldið áfram verðmætasköpun í okkar samfélagi. Við þurfum líka að koma hjólum atvinnulífsins í gang á nýjan leik. Ef við gerum þetta ekki mun það leiða til enn meira atvinnuleysis en við ella mundum horfa fram á. Við þurfum líka að koma til móts við vanda skuldugra heimila, heimila sem skulda í erlendri mynt eða vísitölutryggðum lánum sem hækka og hækka eftir því sem vikur og mánuðir líða.

Um leið og ég segi að þessi ríkisstjórn beri feigðina í augunum er það jafnframt ljóst að sú ríkisstjórn sem mun taka við að loknu starfi þessarar ríkisstjórnar verður að tala með öðrum hætti en hæstv. forsætisráðherra gerði hér áðan. Ný ríkisstjórn verður að sýna Íslendingum fram á þau tækifæri sem blasa við íslenskri þjóð. Við búum að gríðarlegum náttúruauðlindum, miklum mannauði og tækifærin blasa við okkur hvert sem litið er. En til þess að það megi auðnast að við komum okkur út úr þeim erfiðleikum sem við okkur blasa verður íslensk þjóð líka að búa að því að eiga öfluga foringja í ríkisstjórn Íslands sem tala af sannfæringu og krafti og tala kjark í fólkið í landinu. Það er nauðsynlegt. Það er þess vegna sem við framsóknarmenn viljum að þessi ríkisstjórn fari frá.

Ég spyr, hæstv. forseti, í ljósi þess að þjóðin hefur svo bersýnilega gefist upp á þessari ríkisstjórn: Hver ætlar að bera ábyrgð á því, ef fram heldur sem horfir, hvað gerist í íslensku samfélagi ef þessi ríkisstjórn ætlar að sitja áfram? Hver ætlar að axla þá ábyrgð? Ætla þingmenn stjórnarflokkanna og ráðherrar að axla ábyrgð á því að hér muni allt sjóða upp úr eða vilja stjórnarliðar rétta fram sáttarhönd til þjóðarinnar til þess að við getum í sameiningu komið okkur út úr þeim erfiðleikum sem við okkur blasa?

Við þurfum að koma á fót sérstöku stjórnlagaþingi. Við framsóknarmenn samþykktum það á flokksþingi okkar um síðustu helgi að það þarf að kalla almenning að borðinu. Við þurfum að móta okkur nýtt samfélag. Við þurfum að móta okkur nýja stjórnarskrá þannig að við getum gengið í takt á nýjum tímum í hinu nýja Íslandi.

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan þá sjá það hér allir sem á annað borð vilja sjá að ríkisstjórnin er með feigðarglampa í augum. Það er átakanlegt að sjá forustumenn stjórnarinnar ríghalda í stólana og endurtaka sömu loforðin aftur og aftur. Hann er með ólíkindum þessi seinagangur. Hvernig var það með greiðsluaðlögun fyrir skuldugu íslensku heimilin? Það átti að koma fram á haustþingi. Síðan var það komið fram í desember og nú sýnist mér að það verði ekki að lögum fyrr en í febrúarmánuði. Á meðan blæðir íslenskum heimilum. Af hverju þessi seinagangur hjá þessari ríkisstjórn? Á meðan neyðarástand ríkir á íslenskum heimilum endurnýja ráðherrarnir í ríkisstjórninni sömu loforðin aftur og aftur. Þeir byrjuðu að lofa lögum um greiðsluaðlögun í haust og síðast í Kastljósinu í gærkvöldi lofaði forsætisráðherra þessum lögum aftur. Þetta gengur ekki svona, hæstv. forseti.

Í ljósi þess sem ég hef sagt var það ákvörðun þingflokks framsóknarmanna í gær að bjóða Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði upp á það að verja þá flokka vantrausti gegn því að kosningar verði eigi haldnar síðar en 25. apríl næstkomandi. Fram að þeim tíma mundi sú stjórn einbeita sér að því að leysa bráðavanda heimila og atvinnulífs jafnframt því sem sérstakt stjórnlagaþing yrði kallað saman til að semja íslenska lýðveldinu nýja stjórnarskrá.

Hæstv. forseti. Krafa fólksins er einföld. Það er krafa um breytingar, breytingar í ríkisstjórn Íslands, breytingar í Seðlabanka, breytingar í Fjármálaeftirliti, breytingar á viðskiptasiðferði og krafa um lýðræðisleg og opin vinnubrögð og síðast en ekki síst krafa um kosningar. Það er óvinnandi vegur fyrir núverandi ríkisstjórn að öðlast tiltrú almennings á nýjan leik. Aðgerða- og stefnuleysi lýsa þessari áhöfn hvað best. Við þurfum að skipta um áhöfn og sigla íslenskri þjóð út úr þeim brimskafli sem hún er nú í.

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnina frá. Ekki meir, Geir.