136. löggjafarþing — 70. fundur,  22. jan. 2009.

staða efnahagsmála og horfur á vinnumarkaði, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:29]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég held að okkur ætti öllum að vera ljós hver krafa þjóðarinnar er, krafan um heiðarleika, krafan um traust, krafan um jafnrétti fólks óháð því hvaða aðstæður það býr við eða hver þjóðfélagsleg staða þess er annars. Þessi grunngildi eru forsenda fyrir því að þjóðin geti saman tekið á þeim vanda sem hún og við öll stöndum frammi fyrir. Það er einmitt heiðarleiki og traust á stjórnvöldum sem hefur skort á undanförnum árum, þeim sem hafa verið við stjórnvölinn í landinu og stýrt atburðarásinni. Þjóðin kallar á þetta.

Það er líka forgangsröðunin, hvernig við forgangsröðum nú og í hverra þágu. Hæstv. fjármálaráðherra vildi forgangsraða í þágu fjármálageirans, alþjóðlegra fjármálaviðskipta. Ég geri ekki lítið úr þeim, en ég vil forgangsraða fyrir fólkið, fyrir heimilin, fyrir atvinnulífið í landinu, fyrir atvinnuvegina, grunnvelferðarþjónustuna, heilbrigðismálin. Ég vil forgangsraða fyrir þetta.

Hæstv. forsætisráðherra minntist ekki á landbúnaðinn eða matvælaframleiðsluna eða fæðuöryggið í upptalningu sinni. Ég tel að matvælavinnslan og fæðuöryggið, landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn hvað það varðar sé einn af hornsteinum íslensks samfélags sem við eigum að horfa mjög til núna og hlúa að, byggja upp og standa á bak við. Matvælavinnslan ein og fæðuöryggið eru eitt af öryggismálum allra þjóða. Þess vegna hef ég áhyggjur af því að stór hluti bænda á nú í miklum greiðsluerfiðleikum. Það er ekkert verið að gera til að taka á málum í matvælavinnslunni og þróunarmöguleikum í landbúnaði. Það eina sem verið er að leggja til er að opna fyrir innflutning á hráu kjöti sem ræða á hér síðar í dag. Er þetta það sem íslenskur landbúnaður og íslenska þjóðin þarf núna? Nei, þetta er veruleikafirring.

Ég ætla líka að minnast á heilbrigðisþjónustuna. Er þetta rétti tíminn til að gefa hæstv. heilbrigðisráðherra lausan tauminn við að einkavæða heilbrigðisþjónustuna í stórum stíl, gangast fyrir skipulagsbreytingum á heilbrigðisþjónustu í heilum landshlutum, loka og breyta einu stærsta sjúkrahúsi landsins, St. Jósefsspítala, setja störf hjúkrunarfólks og starfsfólks á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum í uppnám, setja öryggi og heilbrigðismál heilla héraða í uppnám? Er þetta rétti tíminn til þess? Nei, ég tel að eitt brýnasta málið núna sé að kippa heilbrigðisráðherra úr umferð með þessi einkavæðingaráform sín og skipulagsbreytingar í heilbrigðismálum og hvernig á að rústa þeim í heilum héruðum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill leggja þessar áherslur fram.

Ég hef ekki séð neinn rökstuðning fyrir því að rústa heilbrigðiskerfinu í landinu, stokka upp og leggja heilu heilbrigðisstofnanirnar niður og færa þær undir miðstýringu í fjarlægum landshlutum. Það liggur ekki fyrir nein kostnaðargreining eða nein nein úttekt á því hvort þetta skili einhverju fjárhagslega eða hvort bara sé verið að færa fjárhagslegar byrðar yfir á fólkið sem þarf að leita þjónustunnar. Þetta liggur ekki fyrir. Nei, það þarf bara að einkavæða og hræra í þessu. Lágmark er að fyrir liggi að það sé einhver fjárhagslegur þjóðhagslegur ábati af þessu, sem ég dreg stórlega í efa og tel reyndar alls ekki. Ekkert af þessu liggur fyrir. Það er bara ráðist í að leggja heilbrigðisstofnunina á Patreksfirði undir sjúkrahúsið á Ísafirði og samtímis er ákveðið að hætta mokstri á Dynjandisheiði og yfir Hrafnseyrarheiði á milli þessara staða. Sjá menn ekki veruleikafirringuna? Eða að leggja sjúkrahúsið á Blönduósi og sjúkrahúsið á Sauðárkróki niður í sinni mynd og færa þau undir yfirstjórn sjúkrahússins á Akureyri, sem kannski vill ekkert með þetta hafa. Allt er þetta gert án þess að nokkrar forsendur liggi fyrir. (Forseti hringir.) Nei, herra forseti, það sem skortir er heiðarleiki, traust, samstaða og (Forseti hringir.) að við stöndum saman um grunnstoðir okkar, sem er velferðarkerfið.