136. löggjafarþing — 70. fundur,  22. jan. 2009.

staða efnahagsmála og horfur á vinnumarkaði, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er mikill samhljómur á Alþingi Íslendinga, samhljómur um að efna skuli til kosninga. Áherslumunurinn er hvort það eigi að gera snemma eða seint á þessu ári. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að það eigi að gera snemma og lagðist gegn því í haust að nokkrum ráðherrum yrði fórnað í því skyni að við hin gætum haldið áfram að stjórna landinu. Ég sagði að mér þætti það hugleysi vegna þess að það sem gerðist hér í október er á ábyrgð okkar allra hér á Alþingi og þó fyrst og fremst okkar stjórnarliðanna bæði fyrir það sem samþykkt var hér fyrr á árum og eins fyrir það sem ógert er. Skylda okkar sem þjóðkjörinna fulltrúa er að biðja kjósendur okkar velvirðingar á því sem við gerðum og axla ábyrgð okkar og gangast undir dóm þeirra. Þeim mun fyrr þeim mun betra vegna þess að fram undan er langt erfiðleikatímabil, um það er engum blöðum að fletta. Það er ekki eitt ár eða tvö ár. Það lætur nærri að þau verði fimm eða tíu. Það þarf að taka margar erfiðar ákvarðanir og þau stjórnvöld sem þær þurfa að taka síðar á þessu ári þurfa að hafa skýrt og ótvírætt umboð frá þjóðinni, ferskt umboð og samstöðu um þær erfiðu aðgerðir sem þarf að grípa til. Öðruvísi munum við aldrei komast í gegnum þetta.

Við þurfum líka á kosningum að halda vegna þess að í kosningum fáum við endurnýjun hugmynda. Við fáum nýtt fólk. Við fáum nýja framtíðarsýn og umræðu í samfélaginu um það hvert við skulum stefna og á þessum tímamótum þurfum við hennar sannarlega með sem aldrei fyrr því að erfiðleikar okkar eru slíkir að við þurfum á öllum hugmyndum og öllu fólki í þessu landi að halda.

Við sjáum vel fyrir vestan haf, í Bandaríkjunum, hvað kosningar geta gert fyrir þjóð í vanda, hvað það getur gert fyrir þjóð í vanda að endurnýja í forustusveitinni, að endurnýja hugmyndir til þess að skapa bjartsýni og trú.

En við þurfum ekki að fara alla leið til Bandaríkjanna til að sjá menn takast á við erfiðleika. Þótt erfiðleikar okkar séu miklir og erfiðleikatímabilið fram undan langt eru þeir ekki meiri en frændur okkar Færeyingar tókust á við fyrir nokkrum árum. Og frændur okkar Færeyingar sigruðust með samheldni og vinnusemi sinni á þeim miklu erfiðleikum á nokkrum árum. Fyrst Færeyingar gátu það getum við líka gert það.

En um leið og við efnum til almennra kosninga þurfum við að gera það með ábyrgum hætti. Við þurfum að taka um það sameiginlega ákvörðun en ekki hlaupast frá ábyrgð okkar og skilja allt eftir í upplausn því að fram að kosningum þarf sannarlega að grípa til margvíslegra aðgerða. Við getum ekki frestað aðgerðunum fram yfir kosningar. Þær aðgerðir snúa ekki bara að bönkum og fjármálakerfi og öðru slíku. Þær aðgerðir snúa fyrst og fremst að heimilunum í landinu. Við þurfum að koma til móts við ótta almennings sem hefur verðtryggð lán og gengistryggð lán, um að reikningarnir fyrir stjórnlausri verðbólgu og vöxtunum í landinu verði takmarkalaust sendir á fólkið í landinu og það verði borið út af heimilum sínum fyrir þá. Ég held að ríkisstjórnin hafi gert talsvert til að koma til móts við fólkið með yfirlýsingum og aðgerðum en ég held að enn þurfum við að gera betur. Ég held að við þurfum að kynna sterkar aðgerðir til þess að skapa störf fyrir þær hendur sem hafa misst vinnuna og tek í því efni undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, ég held að við höfum mörg tækifæri til þess.

En athafnagleði okkar og aðgerðir munu alltaf takmarkast af því að við erum trausti rúin. Það er enginn í heiminum sem ætlar að lána okkur peninga endalaust til hallarekstrar eða allra þeirra hluta sem við þurfum að gera. Þess vegna þurfum við að endurreisa traust okkar erlendis og það þurfum við m.a. að gera með því að láta seðlabankastjórnina víkja því að Icesave er ekki stærsta tjónið eitt og sér í þessu hruni. Seðlabankinn er ekki síður stórt tjón í því. Við þurfum að reyna að brjótast út úr gjaldeyriskreppu okkar því að við lifum ekki við 18% vexti íslensku krónunnar. (Forseti hringir.) Við þurfum að sækja um aðild að Evrópusambandinu því að sem okkur, forustumönnum íslensku þjóðarinnar, finnst um Evrópusambandið skiptir engu máli. Það er skylda (Forseti hringir.) okkar að kanna til fullnustu (Forseti hringir.) þá kosti sem þessi þjóð á.