136. löggjafarþing — 70. fundur,  22. jan. 2009.

staða efnahagsmála og horfur á vinnumarkaði, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:56]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Skömm rökkum. Skitu refar í brunn karls. Já. Skömm rökkum. Skitu refar í brunn karls. Þennan gamla málshátt er að finna í einu handriti Ólafs sögu helga og hann er ekki auðskilinn. Það sagði mér málfræðingur sem er mikill áhugamaður og kunnáttumaður um málshætti og þá djúpu speki sem í þeim felst alla jafnan að það hafi þurft kreppuna til að hann skildi þennan til hlítar. Skömm rökkum. Skitu refar í brunn karls. Ef við hugsum aftur í aldir um gamla búskaparhætti þá er merkingin eitthvað á þessa leið: Skömm sé þeim varðhundum sem brugðust og ekki gættu þess sem dýrmætast var, vatnsins í brunni karls. Þeir sváfu á verðinum svo refirnir komust í brunninn. Þeir skitu í hann og eyðilögðu. Skömm rökkum. Skitu refar í brunn karls.

En hvaða erindi á þessi gamli málsháttur við okkur á ögurstund uppi á Íslandi á árinu 2009 og hvað segir hann okkur um okkur og ástandið? Varðhundarnir eru eftirlitsaðilarnir, Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið, ríkisstjórnin, allir þeir sem áttu að gæta efnahagslegs stöðugleika, velferðar heimilanna í landinu, þess sem er nauðsynlegt fyrir fjölskyldur, heimili og fyrirtæki til að treysta sína eigin stöðu og framtíð. Þeir brugðust. Skömm rökkum. Þeir stóðu ekki vaktina fyrir fólkið í landinu heldur létu þeir gróðavon og græðgi refanna sem eru útrásarvíkingarnir og boðberar nýfrjálshyggjunnar, létu þá taka völdin í samfélaginu. Skitu refar í brunn karls. Brunnurinn eru heimilin í landinu sem refarnir og andvaraleysi rakkanna hafa eyðilagt, hin sönnu verðmæti, fjölskyldurnar í landinu, þeir sem nú hafa misst vinnuna og húsnæði, þeir sem eiga ekki fyrir mat. Þeim hefur verið fórnað. Skömm rökkum. Skitu refar í brunn karls. Já, í ljósi kreppunnar lifnar þessi aldagamli málsháttur við og skýrir fyrir okkur nútímamönnum samhengi hlutanna og það hvað gerist ef sofið er á verðinum.

Herra forseti. Krafan endurómar um samfélagið allt: Kosningar strax. Vanhæf ríkisstjórn. Kosningar strax. Á móti heyrum við að ríkisstjórnin þurfi vinnufrið, vinnufrið til að gera ekki neitt, segir fólkið úti á götu. Hér var talið upp í 40 liðum það sem ríkisstjórnin telur sig hafa verið að gera. Við heyrum að það megi ekki kjósa vegna þess að það þurfi að halda áfram á sömu braut. Það var haft eftir stjórnarliðum í Ríkisútvarpinu á dögunum að ekki sé hægt að kjósa fyrr en búið sé að tryggja að bankarnir geti starfað eðlilega áfram og við höfum heyrt þetta enduróma í orðum stjórnarliða í morgun. Þetta endurspeglar enn og aftur þá trú sem þetta fólk hefur á kennisetningu nýfrjálshyggjunnar um að markaðurinn og þá sérstaklega fjármálamarkaðurinn sé forsenda hagsældar og allrar farsældar og þess að unnt sé að byggja upp samfélagið. Þannig ætlar þessi ríkisstjórn sér áfram að slá skjaldborg um bankana en ekki um fjölskyldurnar í landinu, ekki um heimilin, ekki um velferðarkerfið, ekki um heilbrigðisþjónustuna, ekki um sveitarfélögin, ekki um öryrkja, ekki um gamla fólkið. Þetta má bíða. Aðalatriðið er að bankarnir geti starfað eðlilega áfram. Meira að segja var gamla fólkið flutt nauðungarflutningum tíu kílómetra út fyrir bæjarmörkin á Akureyri og sumir komnir á níræðisaldur. Maður spyr sig: Hafa menn tapað allri velsæmistilfinningu? Eru menn undrandi á reiði fólks?

Það er staðreynd að það er ekki aðeins aðgerðaleysi heldur röng forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar, það er atlaga hennar að langveikum, að öryrkjum og að sjúklingum sem við blasir og menn óttast fái þessi ríkisstjórn að starfa óáreitt áfram. Þetta er vanhæf ríkisstjórn. Hún er trausti rúin og hún er komin að fótum fram. Menn vita að ef hún fær að halda áfram óáreitt þá verður áfram byggt á sama grunni, á grunni markaðshyggju og misskiptingar, á grunni græðgi og spillingar. En íslensk (Forseti hringir.) þjóð á skilið aðra framtíð. Lýðræðislega leið til uppgjörs (Forseti hringir.) við þetta lið eru kosningar. Þessi ríkisstjórn (Forseti hringir.) á að fara frá og það á að kjósa strax.