136. löggjafarþing — 70. fundur,  22. jan. 2009.

staða efnahagsmála og horfur á vinnumarkaði, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:06]
Horfa

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Eins og glöggt hefur komið í ljós í þessari umræðu og við þekkjum öll þá eru staðan og horfurnar í íslensku efnahagslífi mjög dökkar. Þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins, sem var kynnt í þingnefndum í morgun, staðfestir það.

Eitt af því sem gerir okkur erfitt fyrir núna er bankakerfið. Ég óttast að ríkisbankarnir þrír sem urðu til við fall bankanna í október eigi erfitt uppdráttar og mikil óvissa sé um hvernig þeim reiðir af. Bankarnir virðast ekki hafa burði til að fjármagna atvinnulífið með eðlilegum hætti og einnig hefur komið í ljós ákveðin ákvarðanafælni í bönkunum. Það er einfaldlega þannig, virðulegi forseti, að bankakerfið verður að hafa burði til að fjármagna atvinnulífið. Þannig að allt þarf að gera til þess að tryggja grundvöll bankanna.

Ég vil leyfa mér að beina einni lítilli spurningu til hæstv. forsætisráðherra vegna þess að ég hef orðið var við óöryggi hjá fólki og stjórnendum fyrirtækja vegna bankanna og hvernig útlitið er þar. Ég held að mikilvægt sé að yfirlýsing komi frá stjórnvöldum um hvort ríkið tryggir innstæður almennings og fyrirtækja í nýju ríkisbönkunum. Ég leyfi mér að beina þessu til hæstv. forsætisráðherra og vænti þess að hann svari mér hér á eftir.

Eitt af stóru vandamálunum okkar núna er gjaldeyriskreppan. Flestum ætti að vera ljóst að íslenska krónan gerir okkur erfitt fyrir. Hún er veik og lítil og í raun og veru er það skoðun mín að það gangi ekki til framtíðar að halda krónunni við. Það gerir atvinnulífinu og efnahagskerfinu í heild erfitt fyrir.

Mikið hefur verið rætt um að við þurfum að taka upp nýjan gjaldmiðil. Ég held hins vegar að ef ekkert verður gert og engin stefna mótuð í þeim málum þá muni, ef ég má orða það svo, náttúran taka völdin, þ.e. að hér verði sjálfkrafa innleiðing evru án þess að nokkur stýring sé á því. Ég bendi á að mörg útflutningsfyrirtæki fá að sjálfsögðu — af því þau eru útflutningsfyrirtæki — tekjur sínar í evrum. Ég held að sú þróun geti orðið og reyndar held ég að hún sé hafin að útflutningsfyrirtæki noti evrur í viðskiptum sínum. Greiði fólki sínu hluta af launum í evrum, geri upp reikninga í evrum o.s.frv. Þetta getur leitt til þess að hér verði tvöfalt hagkerfi. Annars vegar þeir sem notast við evru — tökum dæmi af launafólki sem fær hluta af launum sínum greitt í evrum og getur þar af leiðandi tekið lán sín í evrum með mun hagstæðari kjörum og er þar með laust við verðtrygginguna. Hins vegar þeir sem lifa í íslenska krónuhagkerfinu við þær aðstæður sem við þekkjum öll. Ef þessi þróun verður og heldur áfram og mun verða þá held ég að hún sé mjög óheppileg. Virðulegi forseti. Það sem blasir við í þessu er að skýra stefnu í gjaldmiðlamálum vantar.

Fyrir jólin þegar fjárlög voru afgreidd frá Alþingi ræddum við mikið um ríkissjóð, stöðu hans og horfur varðandi hann. Ég vísa til ræðnanna sem ég flutti af því tilefni.

Ljóst er að staða ríkissjóðs er gríðarlega erfið og mjög dökkt er fram undan til næstu ára varðandi ríkissjóð. Við horfum fram á botnlausa skuldsetningu hans og merkilegt er að heyra, t.d. í umræðunni í dag, að menn tala út og suður um hversu mikil þessi skuldsetning er. Með öðrum orðum er algerlega óljóst í hvaða stöðu við erum og munum verða í því sambandi. Ef ég hef tekið rétt eftir bar hæstv. ráðherrum ekki einu sinni saman um hvert útlitið væri í því. Þannig að þetta eru auðvitað hlutir sem við þurfum að fá á hreint og þessu fylgja mikil vaxtagjöld. Þannig að erfiðleikarnir fram undan eru miklir.

Ég spái því að fjárlagagerð fyrir árið 2010 verði mjög erfið og taka þurfi á þáttum sem verða mjög sársaukafullir og auðvitað sér maður þá fram á að velferðarkerfið er í ákveðinni hættu. Mikilvægt er að standa vörð um það.

Margt er hægt að segja um þessi mál en tíminn er stuttur. En ég vil segja að lokum virðulegi forseti að þó að staðan sé erfið og útlitið dökkt þá eigum við alla möguleika á að vinna okkur vel út úr þessu. Við eigum hér miklar og mikilvægar auðlindir. Við stundum öfluga útflutningsatvinnustarfsemi og Íslendingar eru seigir og vinnusamir. Auðvitað er mjög mikilvægt og hlutverk okkar stjórnmálamanna við þessar aðstæður sem nú eru að tala kjark í þjóðina. Það þarf að gera á heiðarlegan hátt og með ákveðinni auðmýkt, ekki síst vegna þess ástands sem nú ríkir. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að bæta upplýsingamiðlun til almennings. Gera almenningi betur grein fyrir því hver staðan er og hvað fram undan er. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt ekki síst við þær aðstæður sem nú eru.