136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[13:50]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 418, 258. máli, en um er að ræða frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn og innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 178/2002, frá 28. janúar 2002 auk afleiddra gerða.

Þann 23. október 2007 heimilaði ríkisstjórnin staðfestingu á sex ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem fela í sér breytingar á viðaukum og bókunum við EES-samninginn. Efnislega var um að ræða endurskoðun á undanþágu Íslands frá I. kafla í viðauka I við EES-samninginn og upptöku löggjafar Evrópusambandsins um matvæli og fóður inn í EES-samninginn. Ofangreindar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar voru staðfestar af nefndinni þann 26. október 2007 með fyrirvara um samþykki Alþingis. Lagafrumvarpið kveður á um þær lagabreytingar sem eru nauðsynlegar vegna ofangreindra breytinga á EES-samningnum og innleiðingar ofangreindrar EES-löggjafar um matvæli og fóður.

Frumvarpið var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en þá var það ekki afgreitt. Gerðar hafa verið nokkrar efnislegar breytingar á ákvæðum þess frumvarps. Ég mun á eftir gera grein fyrir helstu breytingum frá fyrra frumvarpi en fyrst vil ég þó gera grein fyrir efni frumvarpsins almennt.

Endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn felur m.a. í sér eftirfarandi:

1. Samkvæmt hinni nýju löggjöf verði Ísland hluti af innri markaði ESB hvað matvæli varðar en ekki þriðja ríki eins og hingað til hefur verið og settar verða upp landamærastöðvar vegna kjötafurða, eggja og mjólkurvara eins og gert hefur verið með fisk. Frelsi til útflutnings búfjárafurða mun aukast. Búfjárafurðir, þ.e. kjöt, mjólk og egg, fá sömu lagalega stöðu hvað heilbrigðisreglur varðar og fiskur og fiskafurðir hafa haft.

2. Hluti þeirra vörutegunda sem áður hefur verið óheimilt að flytja til landsins eða einungis er heimilt að flytja inn með sérstakri heimild mun verða heimilaður á grundvelli heilbrigðiskrafna EES-löggjafar. Ekki er þó vikið frá banni Íslands á innflutningi lifandi dýra þar sem enn eru talin standa sterk rök til slíks banns á grundvelli heilbrigðisástæðna.

3. Á Íslandi verður áfram heimilt að fóðra búfé með fiskimjöli þrátt fyrir gildandi bann þess efnis innan ESB og Ísland getur áfram bannað innflutning á beina- og kjötmjöli.

4. Ekki verður þörf á að fjarlægja svokallað áhættuveð við slátrun þar sem Ísland er laust við kúariðu.

5. Ísland þarf hins vegar að innleiða sérstaka reglu sem varðar líflömb á bæi þar sem skorið hefur verið niður vegna riðu.

6. Ekki er gert ráð fyrir að reglur um dýravernd verði teknar yfir nema hvað varðar aðbúnað og aðferðir við slátrun dýra.

7. Breytingin hefur engin áhrif á tollvernd fyrir landbúnaðarafurðir.

Íslensk yfirvöld hafa 18 mánaða aðlögunartíma til að innleiða þær gerðir ákvörðunarinnar sem gilda um landbúnaðarafurðir, kjöt, mjólk og egg. Aðlögunartíminn byrjar þegar stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt vegna umræddra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þann tíma þarf að nota til að aðlaga ýmis stjórnvaldsfyrirmæli að löggjöf ESB og breyta lagaframkvæmd. Unnið er að því að fá svokallaðar viðbótartryggingar vegna salmonellu sem þýðir að ESB tekur tillit til þess hve salmonellusýkingar eru fátíðar á Íslandi. Slíkar viðbótartryggingar þýða að setja má tiltekin skilyrði fyrir innflutningi á vissum afurðum til að fyrirbyggja útbreiðslu tiltekins sjúkdóms. Jafnframt verða settar reglugerðir til að halda uppi óbreyttum vörnum gegn markaðssetningu á kjöti sem er smitað af kampýlóbakter og verða þær ströngu reglur sem nú gilda um innlenda framleiðslu jafnframt látnar ná til innfluttra afurða.

Upptaka löggjafar Evrópusambandsins um matvæli og fóður inn í EES-samninginn byggir á reglugerð EB nr. 178/2002. Með þeirri reglugerð voru settar heildarreglur um fæðuöryggi frá frumframleiðslu til markaðssetningar matvæla og einnig var kveðið á um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu, EFSA. EFSA er ætlað mjög mikilvægt hlutverk, m.a. að gefa út vísindaleg álit og áhættumat um allt sem varðar matvæli og heilbrigði dýra. Með reglugerðinni er leitast við að gera regluverk um framleiðslu matvæla einfaldara og skilvirkara. Reglugerðin gildir á öllum stigum framleiðslu, vinnslu og dreifingar matvæla og fóðurs. Lögð er áhersla á að samræma löggjöf og eftirlit með matvælum frá hafi og haga til maga. Skulu sömu reglur gilda um hollustuhætti óháð því hvort um er að ræða mat, framleiðslu eða dreifingu á kjöti, fiski, matjurtum eða unnum matvælum. Meginmarkmið reglugerðarinnar er að efla fæðuöryggi og tryggja þannig hnökralaus viðskipti með örugg matvæli á innri markaðnum. Hagsmunir neytenda eru settir í öndvegi og munu reglur um rekjanleika matvæla leika þar stórt hlutverk. Með þeim mun verða mögulegt að rekja feril matvæla á öllum stigum framleiðslu og dreifingar. Ábyrgð framleiðenda og dreifingaraðila gagnvart neytendum matvæla er dregin skýrt fram.

Settar hafa verið ítarlegar reglur um hollustuhætti, fóður og matvælastarfsemi auk eftirlitsreglna sem byggja á ofangreindri reglugerð EB nr. 178/2002. Í meðfylgjandi frumvarpi er óskað eftir heimild handa ráðherra til að innleiða reglugerð nr. 178/2002 auk afleiddra gerða ESB á þessu sviði. Allt matvælaeftirlit mun nú verða á hendi Matvælastofnunar og tíu heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Með einföldun má segja að Matvælastofnun muni sinna eftirliti með frumframleiðslu matvæla en auk þess inn- og útflutningseftirliti með matvælum frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna munu sinna eftirliti með smásölu matvæla eins og verið hefur.

Samkvæmt nýju löggjöfinni verður opinbert fóðureftirlit víðtækara en áður. Nú skal hafa eftirlit með öllum sem framleiða, flytja eða höndla með fóður. Þetta þýðir að allir bændur og öll flutningsfyrirtæki falla undir fóðureftirlit Matvælastofnunar. Það mun þó ekki fela í sér efnislega breytingu gagnvart bændum sem fyrst og fremst stunda heyframleiðslu og kornrækt ef ekki er um að ræða íblöndun svokallaðra aukefna á búinu. Með öðrum orðum á þessi breyting ekki að íþyngja þorra bænda.

Í frumvarpinu eru ítarleg ákvæði um gjaldtöku vegna eftirlitsins. Ákvæðin eru samhljóða reglum ESB um þessi efni. Eftirlitsgjöld verða ákveðin af ráðherra og birt í gjaldskrá en frumvarpið kveður á um að ráðherra skuli afla umsagnar hlutaðeigandi hagsmunasamtaka og kynna þeim efni og forsendu gjaldskrárinnar með a.m.k. mánaðarfyrirvara. Þetta er auðvitað gert til að tryggja hófstillta gjaldtöku. Upptaka matvælalöggjafar ESB leiðir m.a. af sér að héraðsdýralæknar mega einungis sinna opinberu eftirliti en ekki almennri dýralæknisþjónustu eins og verið hefur. Jafnframt mun umdæmum héraðsdýralækna fækka úr 14 í 6 og stækka sem því nemur. Frumvarpið gerir þó ráð fyrir, og ég vil undirstrika það, að eftirlitsdýralæknar sem vinna í umboði héraðsdýralækna geti sinnt almennri dýralæknisþjónustu við bændur og aðra dýraeigendur.

Vaktsvæði dýralækna verða nú 13 í stað 15. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að dýralæknar sinni bakvakt utan venjulegs vinnutíma á landinu öllu í stað 24 tíma vöktunar á tilteknum svæðum. Gert er ráð fyrir því að löggjöf ESB um fóður muni nú gilda um fiskimjöl en lög nr. 55/1998, um framleiðslu, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, hafa gilt um þessa afurð. Matvælastofnun mun nú fá heimild til að fela faggiltum skoðunarstofum tiltekin verkefni framkvæmdaeftirlits. Þetta er breyting frá því sem nú er þar sem núgildandi lög fela í sér samningsgildi framleiðenda sjávarafurða við tilteknar skoðunarstofur um eftirlit.

Samkvæmt frumvarpinu þurfa öll matvælafyrirtæki að sækja um starfsleyfi til eftirlitsaðilans. Matvælafyrirtæki sem annast frumframleiðslu matjurta eða sauðfjár- og hrossarækt þurfa þó einungis að tilkynna starfsemi sína til Matvælastofnunar. Fóðurfyrirtækin þurfa að tilkynna starfsemi sína til Matvælastofnunar en þeir fóðurframleiðendur sem nota aukefni þurfa starfsleyfi frá Matvælastofnun.

Þetta frumvarp tekur jafnframt tillit til reglugerðar EB nr. 1774/2002, vegna aukaafurða úr dýrum, sem eru ekki ætlaðar til manneldis. Í reglugerðinni er að finna ákvæði um söfnun, flutning, meðhöndlun, markaðssetningu, vinnslu og notkun eða förgun á úrgangi frá dýrum sem eru ekki ætlaður til manneldis. Markmið reglugerðarinnar er að koma í veg fyrir smit vegna aukaafurða dýra samkvæmt reglugerð EB nr. 1774/2002, sem áður var nefnd, og verða íslensk yfirvöld skuldbundin að meginstefnu að farga úrgangi með brennslu í stað urðunar. Þannig verður óheimilt að urða riðusmitað fé.

Frumvarp með það sama heiti og hér er verið að ræða um var lagt fram á 135. löggjafarþingi, 524. mál. Gerðar hafa verið nokkrar efnislegar breytingar frá ákvæðum þess frumvarps til að koma til móts við þau sjónarmið sem komu fram í umræðum í vor og einnig í umsögnum sem hafa borist, bæði þá og síðar. Helstu breytingarnar eru eftirfarandi: Kveðið er fastar á um skyldur ráðherra, eftirlitsaðila og stjórnenda matvælafyrirtækja til að koma í veg fyrir að matvæli sem geta valdið matarsýkingum komist á markað. Í því skyni er m.a. sett inn nýtt ákvæði sem leggur þá skyldu á ráðherra að setja reglugerð um ráðstafanir sem gera skal til að fyrirbyggja markaðssetningu slíkra matvæla samanber 5. gr. frumvarpsins og athugasemdir við hana. Þetta varðar ekki síst ráðstafanir til að forða því að matvæli smituð kampýlóbakter verði boðin hér á markaði og því er m.a. gert ráð fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra framfylgi áfram efnislega reglugerð nr. 688/2002, sem fjallar um slátrun og markaðssetningu alifugla. Gert er ráð fyrir að Matvælastofnun hafi eftirlit með kjötvinnslum og kjötpökkunarstöðvum að undanskilinni slíkri starfsemi í smásöluverslun. Jafnframt er gert ráð fyrir því að Matvælastofnun hafi eftirlit með mjólkurstöðvum og eggjavinnslu. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna hafa sinnt eftirliti vegna ofangreindrar starfsemi nema þegar kjötvinnsla er tengd sláturhúsi þá er hún undir eftirliti Matvælastofnunar samkvæmt núgildandi lögum. Stofnunin hefur einnig eftirlit með mjólkurstöðvum vegna útflutnings. Breytingar verða gerðar til að samræma betur eftirlitið, einfalda það og gera valdmörkin skýrari.

Skipan umdæma héraðsdýralækna er óbreytt frá fyrra frumvarpi og er gert ráð fyrir að umdæmum fækki úr 14 í 6. Nú eru sett inn ákvæði til bráðabirgða í 41. gr. sem heimila ráðherra að ákveða skiptingu og fjölda umdæmanna öðruvísi fyrst um sinn og jafnframt fela héraðsdýralækni að sinna almennri dýralæknaþjónustu tímabundið á tilteknu svæði ef nauðsyn ber til. Hvort tveggja er gert til að tryggja nauðsynlega þjónustu um land allt í kjölfar kerfisbreytingarinnar en heimildirnar falla niður og hin almenna regla laganna gildir án undantekninga eigi síðar en frá 1. september 2013. Í fyrra frumvarpi var gert ráð fyrir að leggja niður vaktþjónustu dýralækna í Gullbringu- og Kjósarumdæmi, Skagafirði, Eyjafirði, Rangárvallasýslu og Árnessýslu. Frá þessu er horfið þannig að vaktþjónusta verður veitt á öllu landinu en svæðaskiptingu er breytt og verða vaktsvæðin 13 í stað 15.

Ákvæði um starfsleyfisskyldu sauðfjár- og hrossaræktar eru felld út úr frumvarpinu en þær búgreinar þurfa þess í stað að tilkynna Matvælastofnun um starfsemi sína. Þá er heimilt samkvæmt frumvarpinu í 6. gr. og 68. gr. að gefa út eitt starfsleyfi enda þótt starfsleyfisskyldan byggi á fleiri en einum lögum. Þetta er hvort tveggja gert til einföldunar og til að draga úr skriffinnsku og kostnaði. Skilgreining reglugerða ESB um áhættugreiningu er tekin upp í frumvarpið og áhersla lögð á að matvælaeftirlit skuli byggja á áhættugreiningu og áhættumati. Ráðherra skal skipa ráðgefandi nefnd sem skal vinna að áhættumati á hlutlausan hátt. Sama á við um fóðureftirlit.

Í frumvarpinu eru allmargar aðrar breytingar sem ekki þykir ástæða til að draga sérstaklega fram hér heldur er vísað til athugasemda með frumvarpinu. Gert er ráð fyrir að matvælalöggjöf ESB taki gildi hérlendis 1. mars 2009, enda verði Alþingi búið að samþykkja meðfylgjandi frumvarp fyrir þann tíma. Efnisákvæði sem varða búfjárafurðir taka þó ekki gildi fyrr en 1. nóvember 2010.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg því til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og 2. umr.