136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[14:06]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál er með þeim hætti að ég held að við höfum engan sóma af því að fara að gera þetta að lögum núna. Þess vegna skora ég á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að draga þetta frumvarp til baka og fresta því að minnsta kosti um eitt ár að gera þetta að lögum út af stöðunni í samfélaginu núna eftir þetta bankahrun og eftir þær gengisbreytingar sem hafa nánast rústað bændastéttinni í heilu lagi. Sárafáir bændur standa uppréttir eftir þessar hörmungar sem yfir þjóðfélagið hafa gengið.

Ég hvet ríkisstjórnina, bæði samfylkingarfólk og sjálfstæðisfólk, til þess að hugsa þetta upp á nýtt og fresta því alla vega um eitt ár að gera þetta að lögum. Það er mjög alvarlegt mál að ætla að leiða svona yfir heila stétt og mun ekki gera annað en að gera þeim lífið erfiðara og vandasamara að komast í gegnum þessi miklu vandræði sem þeir og öll þjóðin stendur frammi fyrir.

Ég segi að hæstv. sjávarútvegsráðherra væri maður að meiri ef hann drægi frumvarpið til baka og frestaði því um eitt ár að ræða þetta. Þá gætum við aftur komið eftir eitt ár og farið yfir málin og athugað hvort forsendur væru fyrir hendi. Mér finnst líka sorglegt, og ég vitna í marga menn í íslenskum sjávarútvegi sem hafa sagt að verið sé að beita sjávarútveginn þrýstingi út af þessu. Ég segi því: Sýnið okkur þau gögn sem hafa komið frá Evrópusambandinu um að þetta muni bitna á íslenskum sjávarútvegi.