136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[14:14]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er þá staðfest að hæstv. ráðherra hefur lagt þetta frumvarp hér fram í janúar 2009 með kostnaðarumsögn sem er sennilega frá haustinu 2007. Þetta er ekki boðlegt þó að ég viti að nefndin geti kallað til sín þá sem unnu þessa umsögn og rætt frekar við þá.

Hæstv. forseti. Ég krefst þess að betur sé farið yfir þingskjöl frá hæstv. ráðherra ef þetta gerist með þessum hætti og ef þessi kostnaðaráætlun getur þvælst hér inn í þetta frumvarp. Það er ekki boðlegt að við skulum fá þingskjal með þessum hætti, við sem eigum þó að vera ábyrg fyrir því hvaða lög eru sett og hvað við erum að skuldsetja hið opinbera með þeirri löggjöf sem verið er að innleiða.

Hæstv. forseti. Okkur hefur ekki tekist að innleiða löggjöf Evrópusambandsins um fjármálamarkaðinn. Við vitum alveg um alla þá feila sem við gerðum í innleiðingu. Innleiðing matvælalöggjafar Evrópusambandsins er að mínu mati enn flóknari. Það er enn flóknara að innleiða þessa löggjöf sem hentar okkur engan veginn heldur en löggjöfina um fjármálafyrirtækin sem við vitum öll að við féllum á.

Ég álít því að við séum á verulega hálum ís þegar maður les yfir það sem þetta felur í sér, alla þá auknu vinnu sem við þurfum að leggja á stofnanir okkar, þá auknu vinnu sem þarf að fara á ráðuneytin — bara þessi innleiðing kostar ríkissjóð aukalega um á annan tug milljóna á ári í aukinn kostnað til ráðuneytis hæstv. ráðherra. Og við þurfum ekkert á þessu að halda. Við þurfum ekkert auknar tryggingar varðandi salmonelluna. Við vitum að okkur hefur tekist að ráða niðurlögum salmonellu. Og við þurfum umfram allt að sjá íslenskri þjóð fyrir hollri og heilnæmri matvöru — 300 þús. manna samfélag er ekki að fara að flytja út kjúklingaafurðir í stórum stíl. Og við skulum þá líka segja það og viðurkenna að við þurfum heldur ekki (Forseti hringir.) að flytja þær inn.