136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[14:40]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að karpa um reglugerðirnar, þær koma væntanlega inn á mitt borð þegar nefndin kemur saman næst og það er hið besta mál. Aðalatriðið er að löggjöfin, frumvarpið, er í óþökk hagsmunaaðila, Bændasamtakanna, það er aðalatriði þessa máls. Í því felst valdframsal sem ég hef áður mælt gegn á þingi. Lagasetningin á þessu þingi hefur stöðugt einkennst af því að ráðherra er veitt heimild til að setja reglugerðir og útfæra lög. Það heitir valdframsal, það heitir að framselja löggjafarvald til framkvæmdarvalds. Það er ekki til fyrirmyndar, hæstv. ráðherra, það er vond lagasetningaraðferð. Lagasetningin á að sýna nákvæmlega hvað á að gerast.

Það veldur mér miklum vonbrigðum að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skuli ekki, í ljósi efnahagshrunsins og kringumstæðna og þess að við verðum að styrkja undirstöðugreinar okkar, landbúnað og sjávarútveg, og að við verðum að vinna okkur út úr vandanum fyrst og fremst fyrir tilstyrk þessara greina, íhuga það alvarlega að hækka tollana á þessum landbúnaðarvörum og fara sömu leið og Norðmenn í þeim efnum. Það veldur mér líka miklum vonbrigðum að ekki skuli vera ákvæði í þessu eða látið þrælreyna á undanþágu um eftirlit í tolli, sýnatöku og eftirlit í tolli, ekki hið almenna eftirlit í matvörubúðum.

Ég verð líka að benda hæstv. ráðherra á það, sem hann veit auðvitað fullkomlega, að öll aðföng til bænda hafa stórhækkað. Vextir sem þeir glíma við eru okurvextir, gengistryggð lán þeirra hafa farið í svimandi hæðir og enn kalla ég eftir því hvað hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hyggst gera í þeim efnum til að koma til móts við bændur.