136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[15:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nú einhver ömurlegasti málflutningur sem ég hef lengi heyrt hjá hv. þingmanni vegna þess að í fyrsta lagi þá lýgur hann. Það er alltaf leiðinlegt að hlusta á þingmenn gera það. Ég trúi því ekki að hv. þingmaður sé svo illa upplýstur að hann viti ekki rétt í þessu rotmassamáli sem er 20 ára gamalt og er nú stórbrotið að taka hér inn í þessa umræðu. Veruleikinn er sá að slíkur rotmassainnflutningur var í gangi þegar ég kom í ráðuneytið og hann var stoppaður í minni tíð. Við það fóru reyndar nokkrir svepparæktendur á hausinn og kunnu mér litlar þakkir fyrir. Það var einfaldlega vegna þess að þeir sem ekki framleiddu sinn rotmassa sjálfir lentu í vandræðum. Það var sárt. En það var ekkert um annað að ræða. Þegar það kom í ljós og ég var búinn að láta skoða hvað þarna var að gerast þá var það stoppað. Þetta er nú staðreyndin í málinu. Svo kemur hv. þm. Kjartan Ólafsson hér upp og snýr þessu á haus og lýgur hinu gagnstæða. (Gripið fram í.) Þetta er svona, hv. þingmaður, og reyndu ekki að halda öðru fram. Reyndu ekki að halda öðru fram. Ég skal þá bara koma með skrifleg gögn handa þér ef þú ekki trúir þessu.

Ég stóð í ýmsu öðru slíku sem sýndi nú enga sérstaka linkind af minni hálfu þegar ég til dæmis lét henda hér tveimur fullum gámum af kartöflum sem áttu að vera frá Hollandi og vottaðar í bak og fyrir en mönnum leist tortryggilega á þær og fóru að skoða þær. Það kom í ljós að pappírarnir frá Hollandi voru einskis virði. Þetta voru í raun suðurítalskar kartöflur. Enda þótti mönnum voruppskeran í Hollandi fullsnemma á ferðinni. Ég held að það hafi verið í mars. Og það kom í ljós að þetta var þrælmengað og ekki rétt vottað og ég fyrirskipaði auðvitað að þessu yrði hent. Þá komu grátandi innflytjendur til mín og sögðust fara á hausinn. Ég sagði að það væri leiðinlegt en því miður yrði þetta svona að vera. Við teflum ekki í hættu heilbrigði íslenskra dýra og plantna og manna.

Ef hv. þm. Kjartan Ólafsson var að gefa hér í skyn í sínum upphafsorðum, það eina sem hann sagði um þetta mál áður en hann fór út í þennan leiðangur sinn að reyna að klína einhverju á mig, að málsins kunni að bíða sömu örlög aftur og þess biðu síðasta vetur, að það sé sem sagt komið hér í þinglega meðferð og kannski verði það bara látið nægja (Forseti hringir.) þá fagna ég því ef hv. þingmaður var að gefa það í skyn.