136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[15:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Reglugerð um förgun rotmassa sannar ekki mikið hjá hv. þingmanni því að það þurfti væntanlega reglur um hvernig farga átti rotmassanum sem framleiddur var innan lands. (KÓ: Nei, …) Eftir stendur náttúrlega sá stóri sveppaframleiðandi sem frá byrjun var svo forsjáll að útbúa sig til að geta framleitt sinn rotmassa sjálfur. En hv. þingmaður reyndi ekki að standa frekar á þessari þvælu sinni þannig að það mál er afgreitt.

Varðandi upprunavottorðin þá þekki ég það og hv. þingmaður tók undir það, að þar er ein hættan í þessum efnum sú að ekki er alltaf að treysta þeim pappírum og þeim vottorðum sem á að heita að fylgi svona vörum. Það er stórkostlega hættulegt. Ef á að heita svo að þetta sé vottorð og skoðað af okkar nágrannalöndum, sem við teljum trúverðug og ábyrg í þessum efnum, og svo reynist vera maðkur í mysunni, þ.e. að þetta sé vara sem hefur komið annars staðar að, komið þar við og fengið pappíra, þá hefur reynslan sýnt að slíkt getur verið stórkostlega varasamt. Það er bara til marks um hversu varlega menn verða að fara í þessum efnum og hversu glórulaust það er að hafa reglurnar þannig að þetta sé sjálfvirkur réttur, þetta sé opið þegar svona viðkvæmir hlutir eiga í hlut.

Varðandi GATT/Úrúgvæ-viðræður eða Alþjóðaviðskiptastofnunina þá er vissulega rétt að þar hafa lengi staðið yfir viðræður eða viðræðuþóf með árahléum um að auka viðskipti eða gera viðskipti frjálslegri með matvörur og búvörur en þar hafa Íslendingar reynt að standa í lappirnar eða gerðu a.m.k. á sinni tíð. Það vill svo til að ég tók þátt í slíku líka, Úrúgvæ-lotunni sem strandaði seint á þeim tíma sem ég var í landbúnaðarráðuneytinu. Þá stóðum við mjög fast á því að halda öllum okkar undanþágum og öllu okkar regluverki varðandi heilbrigðismál. Þáverandi yfirdýralæknir, Brynjólfur Sandholt, vann þar mjög gott verk við að rökstyðja og flytja málstað Íslands og (Forseti hringir.) honum tókst það vel og það var yfirleitt tekið gilt sem við sögðum í þessum efnum þegar búið var að útskýra hvers vegna Ísland hefði þessa miklu sérstöðu.