136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[15:31]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Mig langar til þess að segja nokkur orð í umræðunni um þetta mál sem við þekkjum reyndar allvel frá síðasta þingi en þá var því frestað, eins og komið hefur fram. Ég verð að hryggja hv. þingheim með því að ég mun ekki halda hér hefðbundna stjórnarandstöðuræðu vegna þess að mér finnst í rauninni ekki hægt að halda því fram sem ýmsir hafa gert að þetta mál sé flutt af einhverri illkvittni. Ég er ekki heldur neinn sérstakur stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar þegar ég segi þetta en það er bara einfaldlega þannig að við áttum engan annan kost en að innleiða þessa tilskipun og þessa löggjöf. Ég er ekki að tala um að það sé eitthvert sérstakt framfaraspor að gera það, eins og einhver nefndi áðan.

Við eigum náttúrlega þann kost að segja okkur úr EES og það getur vel verið að einhverjir mundu vilja það en meðan við erum þar eru hlutirnir einfaldlega svona og það er ekkert broslegt við það, ég veit þetta alveg. Fyrirgefið, hæstv. forseti, að ég segi svona, en ég er eldri en tvævetur og veit alveg að það er ekkert grín að innleiða ekki þær tilskipanir sem koma frá Evrópusambandinu.

Ég vil líka taka það fram að undanþágan sem við fengum með EES í sambandi við hráa kjötið var alltaf tímabundin og það kom að því að þurfti að taka það mál upp til umfjöllunar og það var gert. ESB fór að banka og vildi fá að ræða við Ísland um þessa tímabundnu undanþágu fyrir mörgum árum. Síðan kom kúariðan og það varð til þess að allt málið frestaðist og Evrópusambandið fór út í að semja heildstæða matvælalöggjöf sem nær yfir bæði fisk og kjöt og matvæli almennt. Við gátum því ekkert annað en farið í þessar viðræður og þeim lyktaði eins og hér liggur fyrir. Það hefur verið talað um að embættismenn hafi samið þetta og ekki haft pólitískan stuðning eða pólitískt bakland, sem er náttúrlega ekki rétt því að auðvitað eru hlutir bornir undir ráðherra þegar verið er að ljúka samningum.

Ýmislegt náðist fram og m.a. eitt mikilvægt atriði sem varðar innflutning á lifandi dýrum sem við höfum enn þá undanþágu gagnvart. Hvort mikið hafi verið gefið eftir, eins og hefur verið haldið fram, það er eitthvað sem hv. þingmenn geta slegið fram án þess að þekkja málið en þetta eru hlutir sem við stöndum frammi fyrir.

Ég vil halda því fram og trúi því að ef við frestum þessu öllu lengur getum við lent í erfiðleikum í sambandi við sjávarútveginn og það er reyndar þegar farið að bera á því, a.m.k. hafa komið fram vísbendingar um að svo sé. Þetta segi ég, hæstv. forseti, hér í upphafi án þess að ég haldi því fram að um eitthvert sérstakt framfaraspor sé að ræða að innleiða þetta en tel að ekki sé um annað að ræða.

Ég vil halda því fram að frumvarpið hafi tekið framförum og að tillit hafi verið tekið til ýmissa athugasemda og ábendinga sem komu fram og ég vil þakka það. Það varðar t.d. dýralæknana sem var mjög umdeilt atriði í gamla frumvarpinu. Af því að hér var nefnt að það væri einkennilegt að þetta dýralæknamál skyldi koma inn í frumvarpið er það að hluta til vegna þess að það þarf að vera aðskilnaður á milli opinbers eftirlits og svo faglegrar þjónustu og síðan er tekið á dýralæknamálunum á breiðari grundvelli, sem ég ætla svo sem ekkert að segja að ég sé að öllu leyti ánægð með, en þetta mál hefur þó engu að síður tekið breytingum til batnaðar frá því sem upphaflega var lagt upp með. Eins og ég skil þetta, samkvæmt breytingunni, er heimild til þess að fela héraðsdýralækni að sinna tímabundið almennri þjónustu á svæðum ef ekki fást dýralæknar, og það tel ég að sé til bóta.

Það er gert ráð fyrir því að krafist sé viðbótartrygginga vegna salmonellusmits í innfluttum dýraafurðum og þá getur verið bæði um kjöt og egg að ræða, þegar Ísland getur sýnt fram á að það hafi aðgerðaáætlun þar að lútandi, eins og stendur í greinargerð. Nú óttast maður náttúrlega alltaf að þessu máli verði ekki fylgt nægilega vel eftir og sérstaklega hvað varðar þetta atriði. Mér finnst því mjög mikilvægt að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti fullvissað okkur um að þeim heimildum sem hafa náðst eða sem eru settar fram í frumvarpinu verði fylgt eftir og að þetta séu ekki bara orð á blaði, því þarna eru náttúrlega gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir íslenskan landbúnað og íslenskt þjóðfélag. Það sýnir sig í þeim hörmungum sem þjóðin er að ganga í gegnum hvað það er gríðarlegt hagsmunamál og gríðarlegur kostur fyrir Ísland að hafa öflugan landbúnað og maður þakkar fyrir að stjórnmálaöfl sem hafa verið landbúnaðinum andsnúin hafa ekki verið hér við völd til þess að eyðileggja hann. Ég legg mikla áherslu á það að stjórnvöld standi vel að málum hvað varðar þær tryggingar sem lagt er upp með í frumvarpinu, að þeim verði fylgt vel eftir og þær gerðar virkar.

Þetta snýst náttúrlega allt saman mikið um eftirlit eins og komið hefur fram. Auðvitað hefur maður áhyggjur af því líka að eftirlitið verði dýrt og þegar málið var til umfjöllunar hjá nefndinni í fyrra komu fram athugasemdir frá gestum okkar um að eftirlitið yrði flókið og það yrði dýrt og það yrði kannski að einhverju leyti óþarft. Það er svo sem ekki ný umræða á Íslandi, það hefur mikið verið gagnrýnt að við séum með margslungið eftirlit og mjög dýrt eftirlit og þetta er eitt af því sem við munum skoða vel í nefndinni aftur núna.

Svo er það Matvælastofnunin sem við munum með þessari samþykkt tilheyra. Hún hefur vissulega miklu hlutverki að gegna, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra. Eins og ég skil þetta er það gert að algjöru skilyrði til þess að við getum tekið þátt í því starfi sem þar fer fram, verði þetta frumvarp að lögum. Ég þekki ekki mjög vel til Matvælastofnunar, hún hefur það hlutverk að gefa út vísindaleg álit og áhættumat o.fl., en samkvæmt upplýsingum mínum skiptir það miklu máli fyrir Ísland að við séum þar innan dyra.

Hæstv. forseti. Við höfum frekar stuttan tíma til þess að ljúka vinnu við þetta frumvarp miðað við að það eigi að taka gildi eftir rúman mánuð og það þarf að halda vel á málum í hv. nefnd til þess að sú geti orðið raunin, en samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir þessu. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort umrædd gildistökudagsetning sé eitthvert heilagt mál eða hvort við getum fengið að hafa frumvarpið aðeins lengur til umfjöllunar vegna þess að þetta er mjög flókið mál og getur verið afdrifaríkt ef þar verða einhver mistök, þó að vissulega sé það rétt að gildistaka landbúnaðarþáttarins eða þess sem er viðkvæmastur er ekki fyrr en 1. nóvember 2010.

Auðvitað er ekki hægt að neita því, hæstv. forseti, að það er rennt dálítið blint í sjóinn með þetta mál allt saman því við vitum ekkert hversu mikill innflutningurinn verður en einhver kemur hann örugglega til með að verða. Miðað við það gengi sem við búum við í dag þá hjálpar það að sjálfsögðu í sambandi við að bæta samkeppnisstöðu Íslands en það er náttúrlega enginn sem óskar sér þess að við sitjum uppi með krónuna eins og hún er í dag til frambúðar.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um eitt sem hefur komið fram opinberlega, hvort það sé tilfellið að smásalan sé tilbúin að aflétta því fyrirkomulagi sem hefur verið við lýði og snýst um skilaskyldu. Bændur hafa kvartað mjög mikið yfir því og þeir óttast, sem skiljanlegt er, að matvöru verði raðað þannig upp í verslunum að innflutta kjötið verði framan við og séð verði til þess að það seljist því það er væntanlega flutt inn af eigendum viðkomandi verslunar en íslenska kjötið verði haft bak við vegna þess að verslunin hefur hingað til getað skilað því. Ef hægt er að ná fram breytingum hvað þetta varðar finnst mér það skipta máli. Þetta hef ég heyrt að geti komið til greina og vil spyrja frekar út í það.

Eins og ég nefndi áðan hefur viðhorf til landbúnaðar breyst mjög mikið nú í kreppunni og það er ekki nokkur vafi á því að landbúnaðarframleiðsla á Íslandi er til fyrirmyndar. Við erum með gríðarlega góða vöru og þess vegna stöndum við kannski betur að vígi en ella því okkar vara er mjög samkeppnishæf. Og maður hefur heyrt frá öðrum þjóðum að það er ekki endilega þannig alls staðar. Þegar Finnar gengu í Evrópusambandið kom í ljós að þeir vildu áfram halda sig við finnska vöru frekar en innflutta vegna þess að hún var einfaldlega betri. Ég trúi því að eitthvað svipað gæti verið uppi á teningnum hér.

Að lokum vil ég segja við hæstv. ráðherra, af því að ég hef ekki staðist þá freistingu að stríða honum svolítið á ræðunni sem hann hélt í Valhöll eftir að hann hafði mælt fyrir gamla frumvarpinu á hv. Alþingi og var alveg gríðarlega stoltur yfir því frumvarpi, þessari nýju matvælalöggjöf sem væri bara stórkostlegt hagsmunamál fyrir neytendur og mikil tækifæri, það væri svo mikil fjölbreytni í kjötborðunum og barði sér mjög á brjóst þarna í Valhöll á sínum tíma út af þessu frumvarpi. Nú hefur hann ekki haldið þá ræðu hér, a.m.k. ekki enn þá, og ég spyr hvort hann vilji ekki koma hérna í stólinn og viðurkenna að ræðan sem hann hélt í Valhöll á dögunum hafi ekkert verið honum til sérstaklega mikils sóma.