136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[15:47]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má vel vera að andi köldu í garð þessa frumvarps en engu að síður stendur maður frammi fyrir því að það verði að samþykkja það. Það er ekkert framfaraspor að innleiða þetta að mínu mati, þetta er engin óskastaða. En ég bara get ekki, þó að ég sé í stjórnarandstöðu í dag, farið að halda hér fram einhverju sem ég veit að er ekki hægt og sem er bara vitleysa. Mér er það algerlega ómögulegt. Með fullri virðingu fyrir hv. þingmanni þá finnst mér eins og falskur hljómur sé í þessum málflutningi hans vegna þess að ég trúi því ekki, eftir alla þá umfjöllun sem málið hefur fengið, að hann sé ekki orðinn þeirrar skoðunar að þetta sé hluti af því að vera á Evrópska efnahagssvæðinu. Það er ekkert hægt að ganga að einhverju hlaðborði þar og taka bara það sem mann langar í, það er bara ekki þannig.

Ég kannast kannski ekki við að ég hafi verið helsti stuðningsmaður málsins en ég hef reynt að fjalla málefnalega um það og tala um staðreyndir. Þetta er eiginlega ekki spurning um pólitík. Pólitíkin er reyndar sú jú að setja þær varnir sem mögulegt er og ég vil náttúrlega fara betur yfir það í nefndinni. En ég tel að frumvarpið hafi batnað með þeim breytingum sem nú liggja fyrir.

En þetta varðar það að búið er að setja á samræmt kerfi hjá Evrópusambandinu sem snerta matvæli og ekki er gerður greinarmunur á fiski og kjöti. Þetta gæti því bitnað á útvegi okkar og útflutningi á fiskafurðum, sem eru okkur gríðarlega mikilvægar, ef við drögum það mikið lengur að innleiða þessa tilskipun.