136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[15:49]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Meginerindi mitt til andsvara og athugasemda var einföld spurning, hvort hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir túlkaði þá afstöðu Framsóknarflokksins eða væri að lýsa sínum persónulegu og málefnalegu skoðunum á frumvarpinu. (Gripið fram í.) Er það svo að Framsóknarflokkurinn styðji frumvarpið? Auðvitað verða bændur og hagsmunaaðilar og landsbyggðin öll að fá það á hreint.

Ég spyr líka hv. þingmann hvort hún sé tilbúin að taka slaginn með okkur og fara út í viðræður. Jafnvel að fara út til Brussel strax á næstu vikum og taka upp viðræður og lýsa fyrir stjórnvöldum þarna úti kerfinu okkar í þessum efnum. Að við séum til fyrirmyndar í Evrópu og jafnvel í öllum heiminum um matvælaöryggi hvað varðar salmonellu, kampýlóbakter og svo margt fleira. Og lýsa fyrir þeim sérstöðu okkar að öðru leyti hvað varðar þau dýrakyn sem við búum við, bæði kúakyn og sauðfé, og taka það upp. Ég hef enn ekki séð það af gögnum málsins að þessar röksemdir hafi verið settar fram og gerðar kröfur vegna þessarar sérstöðu.

Staðan er einfaldlega þannig hjá Dönum núna — þeir eru með þessa löggjöf — að þeir hafa nánast í nauðvörn bannað innflutning á kjúklingum frá Frakklandi, að ég held, vegna þess að upp komu þvílíkar matarkveisur í Danmörku á síðasta ári að til mikilla vandræða horfði og sjúkdóma sérstaklega fyrir eldra fólk.

En enn og aftur ítreka ég: Túlkar hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir afstöðu Framsóknarflokksins og er hún er tilbúin að taka slaginn og fara út og þrautreyna það hvort við náum hagstæðari samningum því ég heyri að hún er ekki sérstaklega ánægð?