136. löggjafarþing — 72. fundur,  26. jan. 2009.

slit stjórnarsamstarfs.

[15:17]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Þingheimur. Góðir Íslendingar. Það eru stór tíðindi sem gerst hafa hér í dag en við framsóknarmenn fögnum því að ríkisstjórnin hafi loksins axlað ábyrgð. Um leið segjum við: Þótt fyrr hefði verið. Í hugum okkar framsóknarmanna hefur það blasað við að hér væri ekki bara bankakreppa og efnahagskreppa heldur einnig stjórnarkreppa. Ríkisstjórnin hefur í rauninni aldrei verið í stakk búin til þess að taka á þeim vanda sem blasir við íslensku þjóðinni.

Þjóðin hefur þegar kveðið upp sinn dóm. Við heyrum það á mótmælum úti um allt land að það er samhljómur um að ríkisstjórnin var vanhæf. Kannski má orða það þannig að þegar uppsagnarbréfið kom þá hafi menn sagt: Nei við tökum ekki uppsögninni. Við ætlum sjálfir að segja upp.

Nú verður að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Þeirrar ríkisstjórnar bíða risavaxin verkefni. Það verður að taka stórar ákvarðanir. Hér duga engin vettlingatök . Þjóðin getur ekki beðið lengur.

Það versta sem þessi ríkisstjórn boðaði var óvissa. Óvissa handa heimilunum. Óvissa fyrir fyrirtækin og í rauninni standa landsmenn uppi með það í dag að enginn veit hvert framhaldið er. Það verður að ráðast strax í að vinna bug á atvinnuleysinu. Þjóðin þolir ekki 15% atvinnuleysi. Það verður að vinna bug á vanda heimilanna. Það að 50% heimila landsins séu tæknilega gjaldþrota er algjörlega óviðunandi niðurstaða. Og atvinnulífið, það þarf að koma því í gang. Atvinnulíf með 20% stýrivexti nær ekki að þróa sig áfram.

Við framsóknarmenn höfum lýst því yfir, og það tilboð stendur enn, að við erum til í að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna falli. Við teljum okkur ekki í stakk búna til þess að taka sjálfir sæti í ríkisstjórn. Okkur skortir til þess umboð kjósenda. En ef það verður raunin þá munum við framsóknarmenn að sjálfsögðu axla ábyrgð í þeim efnum. Tilboð okkar í stjórnarandstöðunni um þjóðstjórn stendur að sjálfsögðu einnig en við viljum samt taka fram að okkur finnst ansi rýrt að það skuli koma upp aftur núna. Við töldum að það þyrfti að liggja fyrir fyrir jól, það hefði þurft að gerast þá.

Við framsóknarmenn munum setja það á oddinn að hér verði samþykkt frumvarp sem við leggjum fram um stjórnlagaþing. Það verður að ráðast í það verkefni strax að endurvekja traust almennings á störfum þingsins. Það verður að skilja á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Það verður að auka eftirlitshlutverk nefnda þingsins þannig að boðvald þeirra yfir framkvæmdarvaldinu sé skýrt og ótvírætt.

Það eru stór tíðindi sem blasa við íslensku þjóðinni. Við fögnum því að ríkisstjórnin hefur loksins axlað ábyrgð og ég vil sérstaklega fagna orðum hæstv. utanríkisráðherra um að forustumenn flokkanna sem glíma við erfið veikindi taki sér frí og nái að endurnýja starfskraft sinn. Þjóðin þarfnast þess og við framsóknarmenn munum leggja okkar af mörkum til þess að endurreisa þetta þjóðfélag.