136. löggjafarþing — 72. fundur,  26. jan. 2009.

slit stjórnarsamstarfs.

[15:22]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er dapurlegt að stjórnarsamstarf ríkisstjórnarflokkanna skuli hafa endað eins og það endaði í dag. Það endaði með því að menn standa upp og fara strax að hnýta harkalega hver í annan, flokkar sem mynduðu hina svokölluðu Þingvallastjórn um öflugt efnahagslíf og velferð á Íslandi.

Því miður hefur sú tilraun ekki tekist að vinna þau verk sem við þjóðinni hafa blasað í kjölfar bankahrunsins. Ríkisstjórninni hefur með engum hætti tekist að höndla þau vandamál sem nú blasa við þjóðinni, því miður. Ekki verður undan því vikist að þingheimur allur komi að því að reyna að sigla málum í höfn.

Við lýstum því yfir í Frjálslynda flokknum að við værum tilbúnir að koma í þjóðstjórn þegar síðastliðið haust til þess að leggja okkar af mörkum til þess að málum yrði stýrt með sem bestum hætti til hagsbóta fyrir íslensku þjóðina. Núna stöndum við hins vegar frammi fyrir því við fall ríkisstjórnarinnar að það er engan veginn fyrirséð hvort tekst að koma á þjóðstjórn, sem ég tel enn skásta kostinn. Þá yrði það auðvitað að vera þannig uppsett að verkin sem á að vinna liggi nokkuð klár fyrir. Menn setji það niður fyrir sér hvað þarf að gera næstu 30–40 daga í lagasetningum og reglugerðarverki og þar með endurskipulagningu á ýmsum embættum í stjórnkerfinu.

Við erum enn reiðubúnir til þess að koma að slíku verki. Það mun auðvitað reyna á það á næstu klukkustundum og vonandi ekki allt of mörgum sólarhringum hvort það tekst. En ég tel að það sé ábyrgð okkar allra alþingismanna að takast á við það verkefni sem fram undan er en það er ekki til vinsælda fallið með íslenskri þjóð. Það þarf að takast á við mörg verk á næstu mánuðum sem ekki verða til vinsælda fallin, mjög erfiðar ákvarðanir þarf að taka. En það verður ekki undan því vikist. Það verður ekki undan því vikist hvort sem það er til að stuðla að auknu aðhaldi í þjóðfélaginu eða afla nýrra tekna. Tryggja það að heimilin falli ekki. Tryggja það að atvinnulífið haldi velli. Þetta verðum við að gera sameiginlega.

Ég vonast til þess að okkur takist að mynda starfhæfa þjóðstjórn. Ef það verður ekki niðurstaðan þá þurfum við samt sem áður að koma á stjórn sem getur stýrt þessu landi, annað er útilokað. Slíkt verður að ske sem allra fyrst. Og fyrir fram ætlum við ekki að hafna neinum kosti í því. En við höfum talið að þjóðstjórn í þessu tilviki væri sá sáttagrunnur sem við ættum að leggja upp með, skilgreina verkin sem þarf að vinna og klára þau. Kosningadagur, hvort sem hann er í apríl, endaðan maí eða júní, á ekki að skipta máli í því sambandi. Það eru verkin sem við verðum að klára sem eiga að skipta máli. Það er það sem þjóðin krefst af okkur að við skiljum hana ekki eftir flata meðan við hömumst við að rífast og skammast hvert út í annað í kosningabaráttunni.