136. löggjafarþing — 73. fundur,  4. feb. 2009.

kjör nýs forseta þingsins.

[13:52]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Mér kemur ekki til hugar að lasta störf núverandi hæstv. forseta Alþingis. En nú er staðan önnur en hún var fyrir nokkrum dögum. Sjálfstæðisflokkurinn er kominn í stjórnarandstöðu í fyrsta skipti í tæp 18 ár og ekki einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins í þessum sal hefur nokkru sinni verið stjórnarandstöðuþingmaður. Til hamingju, Sjálfstæðisflokkur, að vera kominn í stjórnarandstöðu. Það er holl lýðræðisleg æfing fyrir stjórnmálaflokk.

Það sem er merkilegt í þessari stöðu er að nú virðist það vera orðinn háttur íhaldsmanna að brjóta hefðirnar þegar þeim hentar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei staðið fyrir annað en að þeirra meirihlutamaður gegndi embætti forseta Alþingis. (Gripið fram í.) Nú hefur meiri hluti þingmanna, rétt kjörinna á Alþingi Íslendinga, beðið um að nýr forseti verði kosinn á Alþingi. Í atkvæðagreiðslunni kemur í ljós (Forseti hringir.) hver vilji meiri hluta löggjafarsamkomunnar er. (Gripið fram í.) [Hlátur í þingsal.]