136. löggjafarþing — 73. fundur,  4. feb. 2009.

kjör nýs forseta þingsins.

[13:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Augljóst er að minnihlutastjórnin fellur á fyrsta prófinu. Eftir (Gripið fram í.) allar ræðurnar um að styrkja sjálfstæði þingsins o.s.frv., þá er þetta hennar fyrsta verk. Það er mjög spaugilegt í raun að hlusta á hv. þm. Birki Jón Jónsson tala um að þetta sé ekki persónulegt gagnvart forseta þingsins. Þetta er þá væntanlega meira svona almennt um alla þá sem heita Sturla Böðvarsson og eru forsetar Alþingis.

Hér var kosinn forseti þingsins og allir eru sammála um að hann hafi staðið sig einstaklega vel. Það að fara fram með þessum hætti segir okkur að allur orðaflaumur þessa fólks — sem var ekki lítill — um sjálfstæði þingsins, að styrkja þingið og hugmyndir hv. þm. hæstv. fjármálaráðherra og formanns vinstri grænna um að (Forseti hringir.) hleypa stjórnarandstöðunni í auknum mæli að störfum þingsins var tal. Ekkert annað.