136. löggjafarþing — 73. fundur,  4. feb. 2009.

kjör nýs forseta þingsins.

[14:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Þau voru mjög athyglisverð fyrstu orð varaformanns Sjálfstæðisflokksins, starfandi formanns væntanlega, hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, í upphafi þessa fundar. Það var ekki eitt einasta hlýlegt orð, það voru engar árnaðaróskir til þeirrar ríkisstjórnar sem glímir núna við að bjarga þjóðfélaginu frá efnahagslegu og pólitísku þrotabúi Sjálfstæðisflokksins, ekki eitt einasta hlýlegt orð til þeirra sem eru að reyna að ganga í verkin sem Sjálfstæðisflokkurinn skilur eftir. (Gripið fram í.) Það eru mistök að blanda stöðu ríkisstjórnar inn í það mál sem hér er á dagskrá. (Gripið fram í: Nú?) Meiri hluti þingmanna hefur óskað eftir því að kjósa á nýjan leik til trúnaðarstarfa í þingi. Það liggur fyrir samkvæmt skýrum ákvæðum þingskapa. Þar af leiðandi er allt tal um minnihlutastjórn og stöðu hennar misskilningur.

Það er vissulega svo að tæpur 18 ára valdatími Sjálfstæðisflokksins markar djúp spor. Þau eru þungbær úti í þjóðfélaginu en ég fer að halda að þau séu ekki síður þungbær hér inni. Ég held að þetta séu einhver heiftarlegustu fráhvarfseinkenni sem ég hef lengi séð (Gripið fram í.) og það er víst hægt að fara og fá sér hjálp við svona löguðu.