136. löggjafarþing — 73. fundur,  4. feb. 2009.

kjör nýs forseta þingsins.

[14:05]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi ræða hæstv. fjármálaráðherra var áhugaverð, einkum í ljósi fyrri ummæla sama þá virðulegs hv. þingmanns um það mál sem hér er rætt. En sérstaklega skiptir máli að komið er fram að þetta hafi ekkert að gera með þá ríkisstjórn sem nú situr, með öðrum orðum þá breytingu sem orðið hefur á framkvæmdarvaldinu. Það þýðir með öðrum orðum að allar hugmyndir framsóknarmanna um að hér sé ekki um að ræða vantraust á sitjandi forseta, ekki sé verið að setja út á verk þess einstaklings — sú kenning fellur um sjálfa sig. Það var stundum sagt á árum áður að Framsóknarflokkurinn væri ekki rismikill og sumir gengu svo langt, sem mér fannst afskaplega ósanngjarnt, að kalla hann hækju íhaldsins. Ég veit ekki hvað á að segja um þennan ágæta flokk sem nú ætlar að láta leiða sig til þessara verka og hefur ekki einu sinni ráðherra í ríkisstjórn. Ég veit ekki hvaða orð á að velja um flokk sem hefur þá virðingu fyrir sjálfum sér eins og mér sýnist þessi flokkur ætla að bera sig hér að.