136. löggjafarþing — 73. fundur,  4. feb. 2009.

kjör nýs forseta þingsins.

[14:07]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. [Truflun í þingsal.] Ég veit ekki hvort ég fæ aukinn tíma vegna þessa en þessi umræða hefur verið mjög athyglisverð. Undanfarin 18 ár hefur fulltrúi Sjálfstæðisflokksins setið á þessum stóli og fyrsta dag sem breytingar eru fyrirætlaðar verður umræðan af þessum toga meðan samfélagið er í þeirri stöðu sem raun ber vitni — þau verk sem þarf að ráðast í sökum þess að það hefur þurft að skipta um ríkisstjórn.

Það hefur fyrst og fremst verið reynt að draga það fram að breyting sé aðför að persónu Sturlu Böðvarssonar. Það er algerlega fráleitt frekar en þegar Sjálfstæðisflokkurinn skipti Halldóri Blöndal út fyrir Sólveigu Pétursdóttur. Það var aldrei um það talað að það væri aðför að persónu Halldórs Blöndals. Hins vegar eru eðlilegar breytingar og ég er sannfærður um að nýr forseti mun standa sig mjög vel í sínu starfi og halda áfram að byggja upp virðingu þingsins og við munum stíga skref fram á við. (Forseti hringir.) Það er enginn ómissandi í þessu starfi frekar en öðrum.