136. löggjafarþing — 73. fundur,  4. feb. 2009.

kjör nýs forseta þingsins.

[14:11]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það sem þessi umræða gefur til kynna, og sá tónn sem hún slær fyrir næstu vikur, sem að sínu leyti verða úrslitavikur í íslenskum þjóðmálum, efnahagslífi og stjórnmálum, er það að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sér — þessir 24 sem aldrei hafa setið í stjórnarandstöðu og þekkja ekkert annað en sætleika valdsins og hiklausa beitingu meirihlutavalds á þingi, eins og minni hlutinn sé ekki til — að taka upp stjórnarandstöðu af því tagi sem við munum eftir sem höfum náð miðjum aldri og vel það, sem hann stundaði hér árin 1988–1991 þegar hann reyndi að koma í veg fyrir þá björgunarstarfsemi sem þá var hafin eftir efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins, reyndi að hindra það samkomulag til þjóðarsáttar sem þá tókst og þau gæfuskref sem þá voru stigin. Eftir allan þennan tíma (Forseti hringir.) hefur hann ekki lært meira, 18 ár til einskis, virðulegi forseti.