136. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2009.

stefna ríkisstjórnarinnar, skýrsla forsrh.

[19:54]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Það gengur þess enginn dulinn að þjóð okkar er að ganga í gegnum djúpan efnahagslegan öldudal. Ríkisstjórnin þarf á skömmum tíma að bregðast við af ábyrgð til að halda atvinnulífinu gangandi og þétta öryggisnetið um heimilin og fjölskyldurnar í landinu. Þjóðum í okkar heimshluta hefur vegnað best þegar saman fer samfélagsleg ábyrgð og nýting kosta markaðarins í þágu almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna. Við skulum læra af þeim mistökum sem við erum nú að súpa seyðið af.

Hrun fjármálakerfisins hér á landi leiddi til umróts meðal almennings, mótmæla sem byggðust á réttlátri reiði og ekki síður ríkri þörf til afskipta og aðgerða. Það er von mín að sú upplausn sem verið hefur í samfélaginu sé nú að baki og við séum nú á sáttaleið. Sá jarðvegur sem varð til í þessu erfiða efnahagsástandi hefur leitt til frjórrar þjóðfélagsumræðu. Sú umræða hefur verið öflug, margvíslegar hugmyndir og kröfur um breytta skipan samfélags okkar hafa komið fram. Almenn þátttaka hefur verið víðtækari en við höfum áður þekkt hér á landi.

Við höfum heyrt sjónarmið frá fjölda fólks. Ég tel að það sé mikilvægt fyrir okkur sem störfum í stjórnmálum að finna leiðir til þess að raddir sem flestra fái að heyrast. Við megum ekki binda okkur svo í viðjum flokkakerfis að fólkið fjarlægist okkur. Enginn sem starfar í stjórnmálum vill fjarlægjast þá sem þeir eru að þjóna. Okkar starf byggist á því að vera í góðum tengslum við almenning, þá sem hafa kosið okkur til verka. Ég er sannfærð um að umrótið undanfarið hefur snert okkur öll og haft áhrif á okkur til frambúðar.

Sú ríkisstjórn sem nú hefur tekið til starfa varð til við afar sérstakar aðstæður. Ákall fólks um breytingar hefur haft áhrif og mun ríkisstjórnin kappkosta að finna þessum röddum og þeim kröfum sem komið hefur verið á framfæri farveg í verkum sínum og vinnubrögðum. Ný ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggur sérstaka áherslu á eftirfarandi breytingar í þágu lýðræðis og aukins réttlætis í samfélaginu: Breytingar á stjórnarskránni er kveði á um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum, þjóðaratkvæðagreiðslur og stjórnlagaþing, sem mun marka tímamót með þátttöku almennings við mótun stjórnskipunar í landinu. Sömuleiðis verður hafinn undirbúningur að gerð siðareglna í Stjórnarráðinu, lagaákvæða um ráðherraábyrgð, þannig að þau verði sambærileg og meðal nágrannaþjóða, og nýrra reglna um skipan hæstaréttar- og héraðsdómara.

Þá verður kosningalögum breytt með þeim hætti að opnað verður á möguleika þess að taka upp persónukjör í kosningum til Alþingis, helst þannig að það komist til framkvæmda í komandi kosningum. Allar þessar breytingar stuðla að því að efla lýðræðið og aðkomu almennings og afnema hvers kyns mismunun sem hefur verið gagnrýnd. Þær eru merki um að kröfur almennings í umræðu undanfarinna vikna, hafi náð eyrum stjórnvalda og finni sér nú farveg í verkefnum ríkisstjórnarinnar.

Ágætu Íslendingar. Undanfarnir mánuðir hafa verið okkur öllum erfiðir. Fjöldi fólks hefur tapað eignum sínum og atvinnu, fyrirtæki eru sum hver komin í þrot og önnur eru í hægagangi. Við þurfum öll að hjálpast að við að koma atvinnulífinu af stað aftur, að fá gangverk efnahagslífsins til að virka svo fyrirtækin og ekki síður heimilin fái betur þrifist.

Óhjákvæmilegt er að líta til þeirra tenginga sem eru á milli atvinnu-, efnahags- og stjórnmálalífs í landinu þegar við ráðumst gegn spillingu í okkar samfélagi. Við skulum hefja þá göngu núna og við skulum hefja hana saman. Um leið skulum við halda okkur við siðlegar aðferðir við uppgjörið. Við skulum halda í heiðri þá grundvallarréttarreglu að enginn er sekur fyrr en það hefur verið leitt í ljós lögum og reglum samkvæmt. Höldum í heiðri mannréttindi allra og gætum þess að uppgjör okkar snúist ekki upp í „nornaveiðar“ af neinu tagi. Við búum í réttarríki og það er hvorki vilji ríkisstjórnar né alþingismanna að ganga á svig við meginreglur réttarríkisins. Það vil ég undirstrika hér í kvöld.

Miklu skiptir hins vegar að okkur takist að endurvekja traust fólks í landinu á stjórnvöld og gangvirki efnahagslífsins. Við þurfum jafnframt að endurreisa virðingu og bæta orðspor Íslendinga á erlendum vettvangi. Engin þjóð fær vel þrifist án heilbrigðra samskipta við erlendar þjóðir. Það er beint samhengi á milli ímyndar okkar og orðspors á erlendum vettvangi og endurreisnar efnahagslífsins hér á landi. Við þurfum að stokka upp í fjármála- og eftirlitskerfi okkar. Það hefur brugðist þannig að þessar stofnanir hafa því miður glatað trúverðugleika sínum bæði gagnvart umheiminum og okkar eigin samfélagi.

Við það verður ekki unað því að aðilar sem ekki njóta trausts geta ekki gegnt lykilhlutverki við endurreisn samfélagsins. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd. Við stjórnmálamenn erum hér ekki undanskildir. Þess vegna er mikilvægt að boðað verði til kosninga í vor þar sem stjórnmálamenn munu leggja verk sín í dóm kjósenda.

Ný ríkisstjórn hefur þegar hafist handa og hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands. Nú þegar hefur yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins vikið og brýnt er að skipa nýja stjórn yfir eftirlitið hið fyrsta. Ríkisstjórnin hefur nú farið þess á leit við yfirstjórn Seðlabankans að hún stígi líka til hliðar. Bankarnir hafa gengið í gegnum viðamiklar breytingar og enn er því ferli ekki lokið. Eitt af mikilvægustu forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar er að tryggja að fjármálastofnanir öðlist þann styrk sem þarf til að þær geti stutt vel við uppbyggingu atvinnulífsins. Í samræmi við samkomulag Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda vinnum við nú ötullega að þessu verkefni, að endurreisa fjármálakerfið. Efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gengur samkvæmt áætlun og stjórnvöld munu sjá til þess að samstarfið við sjóðinn verði skilvirkt og traust.

Lögð er áhersla á það af hálfu ríkisstjórnarinnar að markvisst og hratt verði unnið að því að ljúka mati á eignum gömlu og nýju bankana. Það hefur gengið hægar en reiknað var með í upphafi. Þegar því verki er lokið verður hægt að ljúka við endurfjármögnun bankanna. Kappkosta verður að koma hjólum atvinnulífsins af stað sem fyrst, fyrirtækin glíma við örðugri aðstæður en nokkur dæmi eru til um, gríðarlega skuldsetningu, samdrátt í eftirspurn og tekjum, ótryggan gjaldmiðil og hátt vaxtastig.

Við þessar aðstæður þurfa bankarnir vitanlega að gæta varúðar. Þeir þurfa um leið að axla þá ábyrgð að veita fyrirtækjunum aðhald og taka þátt í endurreisnarstarfinu. Með hratt lækkandi verðbólgu sem virðist blasa við skapast forsendur fyrir lækkun stýrivaxta og hagfelldara umhverfi fyrir atvinnulífið. Í gjaldeyris- og peningamálum þarf að skapa skilyrði fyrir því að hægt verði að draga úr gjaldeyrishöftum og lækka vexti sem fyrst.

Ég vænti þess að ríkisstjórnin muni þegar í næstu viku gera nánari grein fyrir fyrirætlunum sínum um endurreisn fjármálakerfisins og ýmsum mikilvægum ráðstöfunum sem því tengjast. Nefnd á vegum forsætisráðuneytisins sem starfar undir forustu Svíans Mats Josefssons mun gera ríkisstjórninni grein fyrir fyrstu tillögum sínum í lok þessarar viku. Markmiðið er að hér dafni heilbrigð fjármálastarfsemi sem fyrst og fremst tekur mið af þörfum viðskiptavina bankanna. Þannig verði lagður grunnur að því að bæta hag fyrirtækja og almennings. Grundvallaratriði í starfi nýrrar ríkisstjórnar er ábyrg stjórn efnahags- og peningamála. Í ríkisfjármálum þarf að leggja drög að áætlun til næstu missira og hefja undirbúning fjárlagavinnunnar fyrir næstu ár. Í frumvarpi til laga um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands, sem lagt hefur verið fram á Alþingi er mælt fyrir um sérstaka peningastefnunefnd.

Nefndin fari með ákvörðunarvald um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum. Slík peningastefnunefnd gæti leikið lykilhlutverk við mótun stefnu í gjaldeyris- og peningamálum hér á landi á næstu missirum. Í nefndinni er gert ráð fyrir að sæti eigi sérfræðingar utan bankans, innlendir sem erlendir. Slíkt getur verið til þess fallið að auka á trúverðugleika þeirrar peningastefnu sem rekin er.

Góðir landsmenn. Atvinnuleysistölur hér á landi eru allt of háar um þessar mundir og því miður gætu þær átt eftir að hækka. Að baki þessum tölum eru einstaklingar, feður, mæður og börn. Heilu fjölskyldurnar verða fyrir áhrifum þess samdráttar sem við göngum nú í gegnum. Það er sárt til þess að vita að glæfraleg viðskipti fárra hafi leitt til atvinnuleysis rúmlega 13.000 manna.

Við þessu verðum við að bregðast með aðgerðum sem fjölga störfum og verja þau störf sem fyrir eru. Við munum leita markvisst leiða til þess að örva fjárfestingu innlendra og erlendra aðila og skapa ný störf á almennum vinnumarkaði. Ríkisstjórnin mun fljótlega kynna áætlun um opinberar framkvæmdir og útboð. Þegar hafa verið efld úrræði á sviði vinnumarkaðsmála og nýsköpunar. Heimildir Íbúðalánasjóðs til lánveitinga vegna viðhaldsverkefna á íbúðarhúsnæði verða rýmkaðar og tekin verður upp full endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna vinnu manna á byggingarstað við slík viðhaldsverkefni. Við vitum að stórir framkvæmdaaðilar bíða hreinlega eftir því að hefjast handa. Okkur ber að stuðla að því að það geti gerst sem allra fyrst. Í sama tilgangi höfum við jafnframt einsett okkur að efla útlánagetu Byggðastofnunar.

Við munum efla samráð við aðila vinnumarkaðarins í öllum þessum mikilvægu verkefnum. Við munum grípa til markvissra aðgerða til að bregðast við fjárhagsvanda heimila í landinu í virku samráði við hagsmunaaðila. Sett verður á fót velferðarvakt margra aðila sem mun fylgjast með afleiðingum bankahrunsins og gera tillögur um aðgerðir. Hér verðum við að draga lærdóm af biturri reynslu Finna. Ríkisstjórnin hefur þegar afgreitt frumvarp til laga um greiðsluaðlögun, sem er nýmæli hér á landi sem ég hef lengi barist fyrir. Á næstunni verða lögð fram fleiri frumvörp sem bæta réttarstöðu einstaklinga sem eiga í tímabundnum greiðsluerfiðleikum. Gjaldþrotalögum verður breytt með þeim hætti að réttarstaða skuldara verði bætt. Fram til þessa hefur um of verið einblínt á réttarstöðu lánveitenda þegar um gjaldþrotaskipti er að ræða.

Sett verða lög um séreignarsparnað sem veita sjóðfélögum tímabundna heimild til fyrirframgreiðslu úr séreignarsjóðum til að mæta brýnum fjárhagsvanda.

Góðir landsmenn. Hér hef ég rakið efnislega meginatriði í sáttmála þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr við stjórnvölinn. Þessi ríkisstjórn er minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem situr með stuðningi Framsóknarflokksins. Hún er um margt einstök, þótt skammtímastjórn sé. Í fyrsta sinn sitja jafnmargar konur og karlar í ríkisstjórn hér á landi og er það í þriðja sinn sem slíkt gerist á heimsvísu. Þá voru kallaðir til þjónustu tveir nýir ráðherrar á „faglegum“ grunni, þ.e. ráðherrar sem ekki hafa tekið þátt í stjórnmálum til þessa. Þessir tveir ráðherrar taka að sér afar mikilvæg ráðuneyti í þeirri endurreisn sem á sér stað og gegna lykilhlutverki í því að endurvekja traust almennings. Ég tel að þetta hafi verið rétt ákvörðun við þessar aðstæður. Ég bið alla að hafa í huga að hér er aðeins um skammtímastjórn að ræða, stjórn sem fær aðeins 82 daga til að vinna nauðsynleg verk, þjóðþrifaverk.

Ég er ánægð með þá ábyrgð sem þingmenn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Samfylkingar hafa sýnt með því að gera stjórnarsamstarfið mögulegt og leysa þannig þá stjórnarkreppu sem upp var komin. Það þarf vissulega kjark og áræðni til að takast á við þau miklu verkefni sem fram undan eru. Ég fagna því að flokkarnir sem standa að stjórninni treysti sér í þau verkefni þótt skammt sé til kosninga. Ég vil einnig þakka þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fyrir samstarfið í síðustu ríkisstjórn og sérstaklega fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde. Ég veit að ég mæli fyrir þjóðina alla þegar ég óska honum góðs bata.

Ég vil jafnframt nota þetta tækifæri til að vekja athygli á ábyrgð okkar alþingismanna við þær aðstæður sem nú eru uppi. Það er ástæða til að óska sérstaklega eftir því að allur þingheimur starfi nú saman og greiði fyrir framgangi mála sem miða að því að draga úr áhrifum bankahrunsins á atvinnulífið, heimili og fjölskyldur. Ég heiti á þingheim að sýna ríkisstjórninni skilning við þessar aðstæður. Ég heiti jafnframt þingheimi öflugu samstarfi og samráði á komandi tímum. Þjóðin þarfnast samvinnu okkar — því megum við ekki bregðast.

En ég beini líka máli mínu til þjóðarinnar. Oft var þörf en nú er nauðsyn að Íslendingar sýni samstöðu og samhug. Við þurfum að þétta öryggisnet samfélagsins. Við þurfum öll að vera vakandi, verkalýðssamtök og ríkisvald, sveitarfélög, kirkja, Rauði krossinn og aðrar samfélagsstofnanir og mannúðarsamtök sem oft vinna kraftaverk í þessu tilliti.

En við þurfum líka að bretta upp ermarnar og hefja uppbyggingu nýs velferðarsamfélags. Við þurfum að gefa nýjum atvinnutækifærum gaum, skapa jarðveg fyrir sprotafyrirtæki og gefa starfandi fyrirtækjum olnbogarými til að auka hraðann og vinnuaflsþörfina. Ég bið fyrirtækin og atvinnulífið allt að leggjast á árarnar með okkur — og sýna því skilning að við þurfum að byrja margt upp á nýtt.

Góðir landsmenn. Við þurfum áræðni í stað ótta. Við verðum að ráðast í verkefni og framkvæmdir sem hafa beðið á meðan góðærið stóð sem hæst. Allir sem geta eiga að leggja sitt af mörkum því að aðeins þannig vinnum við okkur hratt út úr vandanum.

Segja má að ríkisstjórnin byggi á samkomulagi um nýja byrjun, nýtt gildismat. Það hefur orðið viðhorfsbreyting meðal almennings í landinu. Það hefur myndast samstaða um önnur gildi en þau sem mest hafa verið í hávegum höfð á undanförnum árum. Það hefur myndast samstaða um samábyrgð fólks, við erum öll á sama báti.

Sú ríkisstjórn sem nú er að hefja sína fyrstu vinnuviku er frjálslynd velferðarstjórn sem starfar á grundvelli víðtæks samráðs, stjórn sem ætlar að endurreisa, stjórn sem ætlar að koma á stöðugleika, stjórn sem ætlar að verja grunnþjónustu velferðarkerfis okkar.

Ég þakka fyrir fjölmargar kveðjur frá einstaklingum og samtökum hér á landi og erlendum þjóðarleiðtogum sem mér og ríkisstjórninni hafa borist undanfarna daga. Ég hef átt samtöl við erlenda samráðherra sem sýna aðstæðum okkar mikinn skilning. Það er okkur mikilvæg hvatning.

Vonandi verður arfleifð þessarar ríkisstjórnar sú að hún verði talin hafa verið undanfari nýrra tíma í íslensku samfélagi þar sem lýðræði og áhrif einstaklinga á umhverfi sitt fær innihald. Þetta er og á að verða ríkisstjórn fólksins í landinu. — Góðar stundir.