136. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2009.

stefna ríkisstjórnarinnar, skýrsla forsrh.

[20:24]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Virðulegur þingheimur. Góðir landsmenn. Það var gríðarlega dýrmætt og mikilvægt innlegg í vanda okkar Íslendinga og verkefni sem við höfum með höndum að hlusta á varaformann Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, eyða drjúgum hluta ræðutíma síns í að tala út og suður um meintan ágreining í ríkisstjórn sem hefur setið í þrjá sólarhringa eða milli flokka sem að henni standa. Ég vil líka segja að það megi teljast nokkuð fullkomið gullfiskaminni að bera þær ávirðingar fyrir fram á ríkisstjórn að hún kunni hugsanlega að hækka skatta þannig að það komi verst við meðaljón og -gunnu en sleppa algerlega að nefna það að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er að koma úr ríkisstjórn sem hækkaði skatta flatt, núna rétt fyrir áramótin og það svo sannarlega á Jón og Gunnu og það er sami flokkurinn sem barði í gegn skattastefnu sem létti sérstaklega skatti af hátekjufólki og auðmönnum. Væri ekki gott að hafa þær krónur nú í handraðanum sem ofurlaunaliðið hefði borgað í skatta á undanförnum árum ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki sérstaklega pakkað því inn í bómull? Og til þess að reyna að auka líkurnar á því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sofi vel í nótt þá vil ég upplýsa að í dag átti ég ágætt samtal við þann yfirmann Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem fer með málefni Íslands. Það fór hið besta á með okkur og hann taldi það sjálfsagt mál að við ræddum framvindu þessarar áætlunar og hvernig hana mætti aðlaga sem best að aðstæðum á Íslandi í dag. En það kemur í ljós að það má bara tala við þessa menn (Gripið fram í: Nú?) [Hlátrasköll í þingsal.] og það gerir ekkert til. Ég held að Sjálfstæðisflokknum hljóti að vera létt.

Við lifum mikil tímamót. Þau eru mörgum erfið. Þau eru greinilega erfið þingmönnum Sjálfstæðisflokksins en ég hef minnstar áhyggjur af því. Ég hef af því miklar áhyggjur hvernig hið efnahagslega og pólitíska hrun sem við stöndum nú frammi fyrir eftir tæpan 18 ára valdatíma Sjálfstæðisflokksins hefur leikið íslenska þjóð. Tvö síðustu skipti sem ríkisstjórnir hafa gefist upp vegna vandræða í efnahagsmálum hafa það í bæði skiptin verið ríkisstjórnir undir forustu Sjálfstæðisflokksins og í bæði skiptin hafa vinstri stjórnir komið að verki til að bjarga málum. Það er sjálfsagt staðreynd sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki rifja mikið upp en hún er rétt, þ.e. að Sjálfstæðisflokkurinn fór fyrir ríkisstjórn sem sigldi öllu í strand haustið 1988 og Sjálfstæðisflokkurinn leiddi ríkisstjórn og ríkisstjórnir sem skilja við Ísland eins og raun ber vitni. Og byrjar svo ekki söngurinn enn á ný, hinn innstæðulausi og tómi söngur um að vinstri sinnuðum stjórnmálamönnum eða félagslega þenkjandi fólki sé ekki trúandi fyrir fjármálum, þeir komi öllu í kaldakol.

Hvert fellur dómur reynslunnar í þeim efnum á Íslandi? Hann talar skýru máli. Árið 1991 tók ríkisstjórn í morgungjöf við þjóðarsáttinni og verðbólgu sem búið var að ná niður í lága eins stafs tölu með miklum fórnum. Þá hófst söngur um fortíðarvandann. Hafi verið hægt að kalla þau skilyrði sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar fékk vorið 1991 í hendur með lágri verðbólgu og miklum fórnum launamanna sem höfðu leitt af verkum fortíðarvanda, hvað má þá kalla núverandi viðskilnað? Það hefur engin ríkisstjórn í sögu íslenska lýðveldisins tekið við öðru eins þrotabúi og það hefur engin ríkisstjórn tekið við framtíðarhorfum sem eru jafndökkar fyrir samfélag okkar. Það er því miður hinn beiski veruleiki fyrir utan mikla innri erfiðleika í samfélaginu, skuldir heimila, fyrirtækja og sveitarfélaga. Nú bætast þar við ört vaxandi og miklar skuldir íslenska ríkisins. Þær aukast um á fimmta hundrað milljarða kr. á þessu ári, fara hátt í 1.100 milljarða. Þar til viðbótar mun ríkið í árslok, ef svo heldur sem horfir, hafa bætt ofan á um 1.300 milljörðum í ábyrgðir. Þetta eru staðreyndir. Þetta talar sínu máli. Þetta sýnir hversu erfitt verkefnið fram undan er.

Hæstv. forsætisráðherra fór yfir í ítarlegri framsöguræðu þær aðgerðir sem þessi ríkisstjórn ætlar að gera sitt besta til að koma fram og beita sér fyrir í þágu fjölskyldna, heimila og atvinnulífs og ekki síður í þágu lýðræðisumbóta og réttlátara og opnara samfélags. Í minn hlut í þessari ríkisstjórn kemur m.a. að ráðast í ákaflega brýnt verkefni sem er að ljúka þeirri endurreisn í fjármálakerfinu og koma á fót starfhæfum bönkum sem við verðum að fá til að hjól atvinnulífs og mannlífs í landinu geti gengið. Það er líka verkefni að standa vörð um þó þær fjármálastofnanir sem enn hafa ekki hrunið og ekki er nú á bætandi að geri það, minni fjármálafyrirtæki og sparisjóði. Því miður er staðan þannig að í þeim atvinnugreinum og því hefðbundna atvinnulífi sem er starfandi í landinu eru miklir uppsafnaðir erfiðleikar og ofan á þá bætast núna utanaðkomandi áföll eins og lækkandi fiskverð. Sjávarútvegurinn er skuldugur, landbúnaðurinn hefur mætt miklum erfiðleikum og kostnaðarhækkunum en þarna liggja engu að síður þau tækifæri og þeir möguleikar sem okkur er nú lífsnauðsynlegt að virkja; í ferðaþjónustu, í útflutnings- og samkeppnisiðnfyrirtækjum, í hvers kyns nýsköpun. Nú þurfa allir að leggja sitt af mörkum. Auðlindir lands og sjávar, landið sjálft, náttúran, menningin og tungan og mannauðurinn, við sjálf, er það sem við verðum að byggja á.

Við erum vinnusöm og vel menntuð þjóð. Við erum heiðarlegt og gott fólk. Við erum friðsöm. Við viljum lýðræðislegt, réttlátt og opið samfélag og nú verðum við að taka á saman. Þess vegna tek ég undir áskorun hæstv. forsætisráðherra til forsvarsmanna fyrirtækja að þeir geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að halda fólki í störfum, að jafna frekar út vinnu en segja fólki upp og þreyja með okkur þorrann og góuna þannig að við komumst öll fram á græn grös. Sveitarfélögin gegna hér líka lykilhlutverki. Þau verða að halda utan um nærsamfélagið. Þau eru veitendur mikilvægrar þjónustu og þau eru stórir vinnuveitendur. Stofnanir og samtök, það geta allir lagt sitt af mörkum.

Nú er tíminn til að ráðast í viðhald á íbúðarhúsnæði. Eigi menn fasteignir, skuldlitlar, sem þeir vilja ráðast í framkvæmd við er tíminn núna. Nú eru iðnaðarmenn á lausu, nú vantar störf og með hvetjandi aðgerðum ríkisstjórnar má taka þetta sem dæmi um það hvernig á uppbyggilegan hátt margir geta lagt sitt af mörkum. Og er eitthvað að því, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, að beina slíkri áskorun út í samfélagið að allir hugsi svona, hvað get ég gert? Er ég á einhvern hátt í aðstöðu til að láta gott af mér leiða og leggja mitt af mörkum til þess að hlutirnir gangi betur? Við þurfum áræði, við þurfum kjark og við þurfum samstöðu og auðvitað skiptir eitt miklu máli: Nú þarf lukkuhjólið endilega að fara að snúast með okkur Íslendingum. Það hefur fátt ef nokkuð lagt með okkur undanfarin missiri. Það er því miður dapurleg staðreynd að það hefur verið leitun að góðum fréttum sem við höfum getað glaðst yfir að undanförnu.

Í upphafi síldarvertíðar sem menn bundu vonir við, að þá færi í hönd gjöful tíð fyrir þau fyrirtæki sem mikið byggja á, urðum við fyrir áfalli. Það er ótrúlegt að slíkt ólán skuli á köflum hafa elt okkur, að ofan í þá miklu erfiðleika sem hrun í efnahagslífi og alþjóðleg fjármálakreppa og óvinveittar aðgerðir nágrannaríkja, sumra ónefndra, leggist slíkir hlutir á móti okkur. Nú verður því að linna. Við skulum vona að nú snúist lukkuhjólið rétt með okkur. (Gripið fram í: Við förum að veiða hval.) Við skulum t.d. vona að það finnist veiðanleg loðna. Hvað er að því að óska sér þess að einhverjir slíkir hlutir leggist með okkur? Nú þurfum við að vinna allan þann afla sem við getum gert úr aukin verðmæti hér heima. Nú þurfum við að koma með hráefni að landi, t.d. í þurrkun, þannig að það standi auknum útflutningi ekki fyrir þrifum. Og þá kalla áhugamenn í salnum: Eigum við þá ekki að fara að veiða hval? Hvert er svarið? Jú, það stendur ekki á mér ef hægt er að nýta þá tegund í lífríkinu með sjálfbærum hætti og í samræmi við alþjóðalög og viðurkenndar reglur. En við skulum líka skoða það og við skulum líka virða þá staðreynd að íslensk ferðaþjónusta er mesta vaxtargrein íslensks atvinnulífs um áratugaskeið og að fjármálageiranum hrundum saman eins og raun ber vitni stendur vöxturinn í íslenskri ferðaþjónustu upp úr þegar skoðaðar eru aðrar sambærilegar atvinnugreinar. Við skulum því líka meta af yfirvegun heildarhagsmuni okkar og láta ekki tilfinningar bera okkur ofurliði. Tökum kalda raunsæja afstöðu til þess í hverju heildarhagsmunir okkar eru best fólgnir. Við skulum ekki hrapa að ákvörðun. Við skulum ekki taka stórar umdeildar erfiðar pólitískar ákvarðanir á meðan við erum hlaupandi út úr dyrunum til að skella á okkur hurðinni af því að við höfum misst völdin í landinu.

Iðnfyrirtækin þurfa að huga að því að flytja starfsemi heim sem þau hafa úthýst á undanförnum árum. Við eigum að skapa þeim skilyrði til þess. Bændur eiga að sá korni og reyna að draga úr innfluttum aðföngum o.s.frv. Með öðrum orðum, margt smátt gerir eitt stórt. Við Íslendingar erum í þeirri aðstöðu að við eigum að fara með stækkunarglerið á alla möguleika alls staðar til aukinnar verðmætasköpunar og til þess að leggja okkar af mörkum, til að skapa verðmæti, tryggja störf og reyna að fara saman í gegnum þessa miklu erfiðleika.

Hvernig viljum við að verði talað um okkur sem kynslóð, segjum árið 2030 þegar Alþingi fagnar 1100 ára afmæli sínu eða árið 2044 þegar lýðveldið verður 100 ára? Ætlum við þá að láta segja að við höfum gefist upp? Nei. Þá viljum við að verði sagt: Já, íslenska þjóðin lenti í miklum erfiðleikum upp úr aldamótunum 2000. Hún lenti í klónum á forustumönnum sem eltu villuljós á rangri braut, villuljós nýfrjálshyggju markaðsdýrkunar og græðgi og það lék samfélag okkar grátt. En íslenska þjóðin sigraðist á erfiðleikunum. Hún barðist, hún vann sig í gegnum þá og þess vegna viljum við að börnin okkar og barnabörn segi árið 2030 eða 2044. Þess vegna búum við áfram í þessu góða, fallega landi og gæfuríka samfélagi.