136. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2009.

stefna ríkisstjórnarinnar, skýrsla forsrh.

[21:02]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Útlitið er dökkt fram undan í atvinnumálum. Við verðum að finna lausnir á þeim vanda sem þar blasir við, taka höndum saman og vinna gegn ört vaxandi atvinnuleysi og afleiðingum þess. Samvinna stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins skiptir gríðarlega miklu máli. Allir verða að leggjast á eitt. Verkefnið fram undan er ærið, að reisa nýtt og betra samfélag. Stokka þarf spilin, gefa upp á nýtt og gera það rétt. Við þurfum siðbót í stjórnmálum, fjármálalífi og viðskiptalífi til að hægt sé að byggja upp traust og trú á íslenskt samfélag, jafnt innan lands sem utan. Við þurfum að halda í heiðri félagslegt gildi, réttlæti og jöfnuð og byggja á þeim til framtíðar. Endurreisn samfélagsins er langtímaverkefni en fram undan eru aðkallandi verk sem þola enga bið.

Í gær heimsótti ég þjónustuskrifstofur Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu og fann þá örvæntingu og vanlíðan sem þar ríkir. Þar var fjöldi fólks að stíga þau erfiðu spor að skrá sig án atvinnu eftir að hafa misst það haldreipi í lífinu sem trygg atvinna er.

Í dag voru nálægt 14.000 manns skráðir án atvinnu, tæplega 8.800 karlar og rúmlega 5.100 konur. Ég tek þó fram að í þeim hópi er allstór hópur fólks sem hefur enn atvinnu að hluta og nýtur hluta bóta í samræmi við lagabreytingu sem samþykkt var á Alþingi fyrir áramót.

Góðir landsmenn. Ýmislegt hefur þegar verið gert til að bregðast við ástandinu og hafa aðgerðirnar þegar á heildina er litið sannað gildi sitt og verið sú hvatning til atvinnulífsins sem ætlast var til. Hlutabæturnar sem ég nefndi áðan voru nauðsynlegt úrræði og jafnframt rýmkun á rétti sjálfstætt starfandi einstaklinga til atvinnuleysisbóta. Í báðum tilvikum var áhersla lögð á að halda fólki virku á vinnumarkaði eins lengi og kostur er. Þetta eru tímabundin úrræði samkvæmt lögunum en ég mun bráðlega leggja fram frumvarp um framhald þessara aðgerða. Eins er í athugun hvort ástæða sé til að leggja til frekari breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar í ljósi reynslu síðustu mánaða.

Á vegum Vinnumálastofnunar eru í boði ýmsar tegundir vinnumarkaðsaðgerða. Þeir sem eru án vinnu eiga kost á að taka þátt í ýmsum verkefnum samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Ég nefni heimildir til að ráða fólk tímabundið til reynslu, í starfsþjálfun, til sérstakra átaksverkefna og einnig til frumkvöðlastarfa. Við verðum að beita bæði hefðbundnum og óhefðbundnum lausnum. Mennt er máttur og mikilvægt að fólki án atvinnu gefist kostur á að mennta sig og efla starfshæfni sína.

Í félags- og tryggingamálaráðuneyti er áhersla lögð á að fjölga námsmöguleikum fyrir fólk án atvinnu. Vinnumálastofnun er nú heimilt að gera námssamninga við fólk án atvinnu til að stunda samtengt nám samhliða atvinnuleysisbótum, til að bæta stöðu þess á vinnumarkaði.

Til að bæta möguleika fólks til náms meðan það er án atvinnu er nauðsynlegt að breyta lögum og reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna þannig að fólk sem misst hefur atvinnu geti farið í hefðbundið nám ef það kýs svo. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir slíkum breytingum. Við erum rétt að hefja baráttuna gegn atvinnuleysi. Fulltrúar stjórnvalda, sveitarfélaga, stærstu framkvæmdaraðila hins opinbera og aðila vinnumarkaðarins munu vinna tillögur um hvernig megi auka mannhaldsfrekar framkvæmdir. Ég nefni einnig áform um útlán Íbúðalánasjóðs til viðhaldsverkefna og endurgreiðslu virðisaukaskatts að fullu vegna vinnu manna á byggingarstað. Hvoru tveggja er ætlað að hvetja til framkvæmda og draga úr atvinnuleysi.

Góðir Íslendingar. Fátt er fólki dýrmætara en heimilið og fjölskyldan. Á þessu byggist samfélagsgerð okkar. Það er skylda okkar að gera allt sem hægt er til að verja heimilin og koma í veg fyrir gjaldþrot. Frá því að bankarnir féllu hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða í því skyni. Íbúðalánasjóður getur nú komið betur til móts við fólk í greiðsluerfiðleikum. Fyrir áramót var komið á greiðslujöfnun fasteignaveðlána til að létta tímabundið greiðslubyrði af verðtryggðum lánum einstaklinga. Ég ætla ekki að rekja frekar hvað hefur þegar verið gert. Þær aðgerðir eru góðar eins langt og þær ná en augljóslega þarf að ganga lengra.

Eitt þeirra mála sem Samfylkingin hefur lagt ríka áherslu á er að koma á greiðsluaðlögun. Það er úrræði fyrir fólk í miklum greiðsluerfiðleikum. Ísland er eina norræna ríkið sem hefur ekki greiðsluaðlögun meðal leiða til að koma heimilum til bjargar í fjárhagserfiðleikum en reynsla hinna Norðurlandaþjóðanna af henni hefur gefið mjög góða raun. Ríkisstjórnin mun nú koma henni á.

Frumvarp um greiðslujöfnun gengistryggðra lána er einnig væntanlegt til að létta greiðslubyrði. Þá eru áformaðar breytingar sem gera kleift að fresta nauðungaruppboðum vegna íbúðarhúsnæðis í allt að sex mánuði meðan reynt er að tryggja búsetuöryggi fólks til frambúðar. Við ætlum að tryggja að allir geti notið þeirra úrræða sem Íbúðalánasjóður hefur upp á að bjóða vegna greiðsluerfiðleika.

Góðir landsmenn. Hagur og velferð heimila og fjölskyldna í landinu er í húfi. Samstaða og samstarf er nauðsynlegt. Ég bind vonir við að góð samstaða náist um þessi brýnu mál hér á Alþingi meðal allra þingmanna. Samfélagið þarf á því að halda.