136. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2009.

stefna ríkisstjórnarinnar, skýrsla forsrh.

[21:46]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það eru sannarlega miklir umbrotatímar í íslensku samfélagi um þessar mundir. Hrunið efnahags- og fjármálakerfi og hraðvaxandi atvinnuleysi kippa stoðum undan lífsafkomu fjölmargra fjölskyldna í landinu. Staða þjóðarbúsins er ein sú alvarlegasta sem við höfum þurft að takast á við sem fullvalda þjóð. Það er skiljanlegt að reiði og vonleysi brjótist út í brjóstum þúsunda og tugþúsunda Íslendinga sem hafa mótmælt dáðleysi stjórnvalda. Reiði yfir því ranglæti að tiltölulega fámennur hópur fólks hafi getað valsað um og skuldbundið þjóðina að henni forspurðri, reiði út í stjórnvöld sem brugðust þeirri frumskyldu sinni að tryggja öryggi og afkomu þjóðarinnar.

Við þurfum að rýna inn í okkar eigið sjálf og spyrja okkur fjölmargra grundvallarspurninga. Hvar brást okkur bogalistin? Í nýárspredikun sinni gerði biskup Íslands græðgina og hrokann að umtalsefni og sagði að öllu virtist vikið til hliðar nema nauðsynjum fjármagnsins, fátt virtist álitið heilagt nema rétturinn til að græða. Slíkur hugsunarháttur gegnsýrði því miður svo ótal marga þætti í samfélaginu. Það er hárrétt sem hæstv. viðskiptaráðherra sagði í sjónvarpsviðtali nýlega að hugmyndafræðin sem eftirlitsstofnanir okkar störfuðu samkvæmt var í grundvallaratriðum röng. Eftirlitsaðilar, sem áttu að starfa í þágu almennings í landinu, voru í vitlausu liði.

Hin fyrirhyggjulausa einkavæðing, þar sem samfélagslegar eigur voru teknar traustataki og látnar lúta taumlausum lögmálum samkeppnis- og markaðshyggju, hefur leikið okkur grátt. Í nafni frjálshyggjunnar voru miklar skuldbindingar kirfilega reyrðar á bak almennings í landinu. En ábyrgðin á óráðsíunni og drambinu — hún var ekki einkavædd. Hana berum við sameiginlega og undan henni verður ekki vikist.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með forustu í landstjórninni undanfarin 18 ár. Hugmyndafræðin sem stefna hans byggir á skilur heimilin og atvinnulífið í landinu eftir í miklum kröggum. Stoðir þeirrar stefnu, sem svo mjög hefur verið mærð og talin ábyrg efnahagsstjórn, reyndust fúnar og feysknar. Nú þegar Sjálfstæðisflokkinn hefur þrotið örendið við stjórnvölinn þarf að tryggja að uppbygging samfélagsins helgist af öðrum gildum og annarri lífssýn.

Kosningar til Alþingis fara fram innan fárra vikna. Ríkisstjórnin hefur því ekki langan tíma til að hrinda í framkvæmd þeim fjölþættu ráðstöfunum sem eru svo brýnar til að koma atvinnulífinu í gang á nýjan leik og forða heimilum og fjölskyldum frá efnahagslegri ánauð. Vitaskuld verðum við að vera raunsæ og horfast í augu við þá erfiðleika sem við blasa og að ekki verður allt gert á vikunum fram til kosninga.

Við skulum samt vera bjartsýn. Það býr mikil elja í íslenskri þjóð og við eigum dýrmætt land sem okkur þykir öllum vænt um. Við erum rík að auðlindum til sjós og lands, og ekki síst er mikill auður í náttúrunni sem slíkri og fólkinu sjálfu.

Vinstri græn hafa á undanförnum mánuðum og missirum talað fyrir breyttri stjórnarstefnu og bent á hætturnar sem fólust í gegndarlausri neyslu, sem mestmegnis var tekin að láni, og þeirri ofþenslu sem efnahagslífið var keyrt í undir gunnfána græðgisvæðingar frjálshyggjunnar. Ný ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs mun einhenda sér í það verk að reisa landið úr pólitískum rústum frjálshyggjunnar. Við vitum að það er ekki létt verk og engar töfralausnir eru til. En með samhentu átaki og með þjóðina að baki okkur, erum við sannfærð um að það mun takast að reisa Ísland við, að endurheimta traust og trúnað inn á við og út á við.

Góðir Íslendingar. Vonina og bjartsýnina eigum við saman. Við viljum geta sagt stolt við börnin okkar og barnabörn: Þetta samfélag höfum við mótað, sjálfbært samfélag réttlætis, jöfnuðar og samvinnu. Þeirri ábyrgð og því trausti skulum við ekki bregðast. — Góðar stundir.