136. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2009.

stefna ríkisstjórnarinnar, skýrsla forsrh.

[21:50]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við Íslendingar stöndum á tímamótum og við þurfum að sýna kjark og áræði til að komast út úr þeirri kreppu sem við erum í núna. Við höfum upplifað geysilega miklar hræringar í samfélaginu og í stjórnmálunum á síðustu mánuðum, og ég er sammála því sem hæstv. forsætisráðherra sagði áðan, þessar hræringar munu hafa áhrif á okkur öll og áhrifin verða til frambúðar.

Þjóðin ákvað að mótmæla síðustu ríkisstjórn. Þjóðin tók sig meira eða minna saman, mætti á Austurvöll og mótmælti. Mótmælin voru bæði friðsamleg og uppbyggileg en þau voru líka ofbeldisfull og ég vil taka það fram að lögreglan stóð sig mjög vel í vandasömu verki.

Ríkisstjórnin las stöðuna ekki rétt. Ríkisstjórnin brást ekki við, hér var orðin stjórnarkreppa. Við urðum að komast út úr þeirri stjórnarkreppu. Þess vegna buðumst við framsóknarmenn til þess að styðja minnihlutastjórn og verja hana vantrausti. Þetta tilboð okkar var sett fram af mikilli hógværð og í anda samvinnunnar. Það varð að brjótast út úr stöðunni.

Fólk vill nýtt Ísland. Við eigum að mæta þeirri kröfu. Þess vegna höfum við framsóknarmenn lagt fram frumvarp um stjórnlagaþing. Stjórnmálamenn hafa verið ófærir um að breyta stjórnarskránni. Þeir hafa ekki komið með nægjanlegar tillögur í þeim efnum sem samstaða hefur skapast um. Það hef ég fundið á eigin skinni, ég hef margoft flutt tillögur, t.d. um að ráðherrar eigi ekki að sitja jafnhliða sem þingmenn. Ekki var hægt að skapa samstöðu um það og mörg önnur dæmi um slíkt er hægt að nefna. Það þarf að aðgreina valdið, það þarf að breyta stjórnarskránni með því að taka verkefni úr höndum stjórnmálamannanna og setja í hendur fólksins í landinu.

Virðulegur forseti. Framsóknarflokkurinn hefur mjög skýra sýn í jafnréttismálum. Við vorum fyrstir flokka með jafnt hlutfall kvenna og karla í ríkisstjórn og fyrsti utanríkisráðherrann var úr okkar röðum, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir. Það varð bakslag í síðustu alþingiskosningum, konum fækkaði á þingi, það er áhyggjuefni.

Hins vegar samgleðst ég nýju ríkisstjórninni og ég samgleðst konum sem hafa barist fyrir jafnrétti í stjórnmálum og í landinu öllu. Ég samgleðst sérstaklega nýjum forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, með að ríkisstjórnin skuli vera skipuð til jafns körlum og konum og að í fyrsta skipti sé kona í sæti forsætisráðherra.

Ég gladdist þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörinn forseti á sínum tíma. Hún sat í 16 ár. Þegar hún fór frá og þjóðin kaus karlmann sögðu sumir krakkarnir við sjónvarpsskjáinn: Mamma, getur karlmaður verið forseti Íslands? Kannski munum við upplifa sams konar viðhorf gagnvart forsætisráðherraembættinu. Það er mikilvægt að við höfum góðar fyrirmyndir og ég tel að nýr forsætisráðherra, hæstv. Jóhanna Sigurðardóttir, sé slík fyrirmynd og óska henni velfarnaðar í vandasömum störfum sínum.

Virðulegur forseti. Sjálfstæðisflokknum er vorkunn. Við hlustuðum áðan á hv. þm. Björn Bjarnason gráta hástöfum. Hann skammaði Framsóknarflokkinn fyrir svokallaða aðför að fyrrverandi forseta Alþingis. Ég vil sérstaklega mótmæla þessu. Hér sat ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar með ofurmeirihluta, 43 þingmenn af 63, meira en tvo þriðju hluta þingmanna, ofurmeirihluta, ofurvald. Sjálfstæðisflokkurinn bauðst aldrei til þess að losa stóla fyrir stjórnarandstöðuna í formennsku í þinginu, né heldur bauð hann stjórnarandstöðunni upp á forsetastólinn og ég vísa því þessum gráti til föðurhúsanna.

Virðulegur forseti. Fólk vill lausnir. Það vill ekki hefðbundið karp og skylmingar og það vill ekki tuggur. Það er því mjög sérstakt að hlusta á varaformann Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, og fleiri sjálfstæðismenn í dag koma með, ja, ég vil kalla það taktísk mistök, tugguna: Þetta er allt í boði Framsóknar. Hér er skammast í ríkisstjórninni og svo er sagt: Þetta er allt í boði Framsóknar. Þetta á að vera tuggan, þetta er tuggan úr Valhöll. Ég vænti þess að nýja ríkisstjórnin, þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna, hljóti að þakka Sjálfstæðisflokknum fyrir þetta af því að þetta mun bara auka líkurnar á því að Framsóknarflokkurinn leggist þétt upp að nýju ríkisstjórninni. Við getum því væntanlega þakkað Sjálfstæðisflokknum fyrir það og ég segi þá á móti: Það hagsældarskeið sem var hér í tólf ár þegar við vorum í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, var þá væntanlega líka í boði Framsóknar. — Góðar stundir.