136. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2009.

stefna ríkisstjórnarinnar, skýrsla forsrh.

[21:56]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Við í Frjálslynda flokknum viljum bregðast við þeirri hroðalegu stöðu sem þjóðin er í með því að gjörbreyta fiskveiðikerfinu. Margir mætir sérfræðingar telja að upphaf hörmunga okkar sé gjafakvótakerfinu að kenna. Við í Frjálslynda flokknum viljum innkalla allar veiðiheimildir á Íslandsmiðum og leigja út á sanngjarnan hátt og tryggja nýliðun í sjávarútvegi.

Við viljum frjálsar handfæraveiðar og smærri báta yfir sumartímann. Við viljum að allur fiskur verði seldur á innlendum fiskmörkuðum. Við viljum aðskilja veiðar og vinnslu — það þarf að tryggja að allur afli komi að landi, þar á meðal hryggir og hausar af frystitogurum.

Það þarf að auka veiðiheimildir af þorski, síld og flestum öðrum bolfiskstegundum. Við getum auðveldlega aukið gjaldeyristekjur þjóðarinnar um 80 milljarða með því að veiða meira og nýta betur það sem veitt er úr hafinu. Leiguverð á aflaheimildum er ekki í neinum takti við fiskverð upp úr sjó eða afurðaverð á unnum fiski. Að hluta til er því um að kenna að nú má geyma 33% af kvóta á milli ára. Því þarf að breyta strax. Fjöldi báta og skipa þarf nú að stoppa vegna hárrar leigu, sérstaklega á þorski, sem hefur skelfilegar afleiðingar fyrir fólk í sjávarútvegi og sjávarbyggðum.

Auðvitað þurfum við að veiða hval og við þurfum að virða mannréttindi íslenskra sjómanna. Kvótakerfið er ónýtt og óréttlátt og brýtur í bága við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og íslensku þjóðinni til skammar hvernig við stöndum að því. Skjótvirkasta aðgerðin til að vinna bug á því atvinnuleysi sem ógnar íslensku samfélagi er að auka sjávaraflann. Með því drögum við stórlega úr atvinnuleysi, eflum tekjumöguleika fólks og aukum bjartsýni. Það er engin áhætta tekin með því að auka veiðarnar enda þarf þjóðin núna á öllum möguleikum að halda til að efla útflutning sinn og gjaldeyristekjur.

Góðir landsmenn. Við þurfum að virkja fallvötn og orku í iðrum jarðar, við þurfum að nýta alla okkar möguleika til að skapa atvinnu og gjaldeyristekjur.

Það verður að skera niður bruðlið sem víða er í þjóðfélagi okkar, sérstaklega í opinbera geiranum, og víða þarf að taka til. Í utanríkisþjónustunni þarf að skera niður a.m.k. um helming. Það þarf að selja húseignir og fækka aðgerðalausum eða aðgerðalitlum sendiherrum víða um heim.

Uppsagnir blasa víða við í opinberum stofnunum og því þarf að gæta þess vel að rétt sé staðið að þeim og reyna eftir fremsta megni að minnka frekar starfshlutfall fólks á stórum sem smáum vinnustöðum en að beita uppsögnum.

Sums staðar hefur tekist mjög illa til við uppsagnir, eins og suður á Keflavíkurflugvelli, hjá KEF ohf. Lítill sem enginn fyrirvari var á uppsögnum, sem er brot á kjarasamningum og ekki síður siðlaust af íslenska ríkinu að standa að eins og gert var við öryggisverði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það eiga mjög margir um sárt að binda, stöndum saman og hjálpum hvert öðru. Við skulum hafa aðgát í nærveru sálar.

Mörg sveitarfélög standa illa og því legg ég til að Alþingi tryggi með lögum að öll börn í grunnskólum fái fría máltíð einu sinni á dag fimm daga vikunnar.

Við þurfum að kjósa stjórnlagaþing til að endurskoða stjórnarskrána. Við þurfum að gera landið að einu kjördæmi. Við þurfum að breyta kosningalögum, kjósa forsætisráðherra beinni kosningu og tryggja að kjósendur viti hvers lags ríkisstjórn eða stjórnarmunstur verður til eftir kosningar. Kjósendur eiga að fá að stilla upp á lista í kosningum og við eigum að innleiða þjóðaratkvæðagreiðslur í auknum mæli.

Ég vara nýja ríkisstjórn við því að mismuna fyrirtækjum og einstaklingum við uppgjör skulda. Allir skulu jafnir vera. Bankakerfið verður að fara að virka þannig að gömul og ný fyrirtæki fái eðlilega fyrirgreiðslu til starfsemi.

Góðir Íslendingar. Nú sem aldrei fyrr þurfum við að standa saman um velferðarkerfi okkar og tryggja þeim sem verst standa viðunandi lífsskilyrði næstu missiri. — Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.