136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[10:35]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. fjármálaráðherra alls hins besta í hans nýja starfi. Eins og hv. þingmenn vita var greinilegt fyrr í vetur á meðan hæstv. fjármálaráðherra var enn í stjórnarandstöðu að hann var mjög á móti því samkomulagi og samstarfi sem ríkisstjórnin hafði tekið upp við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Sú andstaða hæstv. ráðherra náði hámarki í Kastljóssþætti einum þar sem hann lýsti því yfir að réttast væri að endurgreiða lánið. Nú hefur flokkur hæstv. ráðherra sest í ríkisstjórn og ríkisstjórnin hefur gert með sér verkefnasamning. Í þeim verkefnasamningi er mjög skýrt kveðið á um að vinna eigi eftir samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Reyndar er það eina ákvæðið sem er skýrt í efnahagskafla þess verkefnalista. Ekki er um það að ræða að þarna sé einhver málamiðlun heldur er það mjög skýrt að eftir þessari áætlun eigi að vinna.

Ég held að það væri gagnlegt fyrir hv. þingheim ef hæstv. fjármálaráðherra gæti gert okkur grein fyrir því hvernig standi á þessum sinnaskiptum hans og hvað hafi valdið því að hann hefur nú skipt um skoðun í þessu efni.