136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[10:40]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Það var ekki margt í ræðu hæstv. fjármálaráðherra sem skýrði sinnaskiptin en hins vegar er alveg ljóst af ræðu hans að það hafa orðið sinnaskipti hjá honum hvað þetta varðar, hann hefur hafið samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég get alveg staðfest að það eru viðræðugóðir aðilar sem starfa þar þó að þeir séu reyndar líka fastir á sínum meiningum. En það er gott að sinnaskiptin hafa orðið og það er gott að hæstv. ráðherra er kominn í samband við sjóðinn til að ræða við þá. Ég er sammála honum um að þeim mun minna sem við þurfum að nota af þessum lánum þeim mun betra. Og ég held að ég leyfi mér að draga þá ályktun, þrátt fyrir ýmis merki hjá ráðherrum í stórum útgjaldaráðuneytum um að draga til baka þá hluti sem gera þarf til að við stöndum við markmið samkomulagsins, að ekki sé ástæða til að ætla að hæstv. ráðherra eða aðrir ráðherrar reyni að brjóta samkomulagið á bak aftur innan frá, ef svo má að orði komast, með því að standa ekki við það.