136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[10:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Virðulegi forseti. Einhvern veginn er það þannig að ég tel mig hafa um svo miklu mikilvægari hluti að hugsa og brýnari verkefnum að sinna en því hvernig Sjálfstæðisflokknum líður inni í sér gagnvart hlutum af þessu tagi [Hlátrasköll í þingsal. ] að ég held að ég eyði ekki tíma í það. Það er ósköp einfaldlega þannig … (Gripið fram í.) Er þetta ekki ósköp einfalt? Það eru orðin stjórnarskipti í landinu og þau verkefni koma í hendur nýrra manna sem þar lágu fyrir og úr þeim þarf að vinna. Er ekki ætlast til þess af nýjum ráðherrum að gera það? (Gripið fram í: Jú.) Já. Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn eigi bara að taka sér nægan tíma í sína meðferð og jafna sig á þessum hlutum og hafa ekki áhyggjur að óþörfu af því að málin séu ekki í góðra höndum.