136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

starfsemi St. Jósefsspítala.

[10:42]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Fyrrum heilbrigðisráðherra, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, tók þá ákvörðun í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að loka St. Jósefsspítala og koma þar fyrir öldrunarþjónustu og flytja starfsemina sem þar var bæði á sjúkrahúsið í Reykjanesbæ og á Landspítalann. Þessi ákvörðun var tekin í mjög miklum flýti og án samráðs við hagsmunaaðila. Meðal annars var ekki haft samráð við Hafnarfjarðarbæ þótt hann eigi 15% í sjúkrahúsinu. Það er rétt sem hv. þm. Jón Gunnarsson benti á á mjög fjölmennum borgarafundi í Hafnarfirði að þingmenn fréttu af þessari ákvörðun í fjölmiðlum.

Fráfarandi ráðherra gat ekki gefið nein skýr svör við þessari ákvörðun og ekki hafa komið fram upplýsingar um að þetta leiði til neinnar hagræðingar. Það hafa því ekki komið fram skýringar á þessari ákvörðun en eins og við vitum þarf að hagræða alls staðar, líka í heilbrigðiskerfinu. Á St. Jósefsspítala fer fram mjög mikilvæg starfsemi á sviði meltingarfærasjúkdóma og þar er grindarbotnsteymi sem hefur verið starfandi í 13 ár og hefur hjálpað mjög mörgum konum. Þetta teymi er eina sinnar tegundar í landinu og ef starfsemi spítalans leggst af splundrast það og við vitum ekki hvernig þessari þjónustu verður fyrir komið í framhaldinu. Bandalag kvenna í Hafnarfirði hefur mótmælt þessari aðgerð og staðið fyrir undirskriftasöfnun og 75% íbúa í Hafnarfirði hafa skrifað undir. Það er þverpólitísk samstaða allra flokka í bænum gegn ákvörðuninni. Ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmund Jónasson sem sat samráðsfund ásamt þingmönnum Suðvesturkjördæmis og aðgerðahópnum stöndum vörð um St. Jósefsspítala út í hver næstu skref verða. Hvað nú, hæstv. heilbrigðisráðherra? Hvað verður um ákvörðunina að loka St. Jósefsspítala?