136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

starfsemi St. Jósefsspítala.

[10:47]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hæstv. heilbrigðisráðherra ætlar að hafa samráð um þessa ákvörðun. Það er þannig að sjúkrahúsið er staðsett í Hafnarfirði en þetta er ekki hafnfirsk þjónusta, þetta er þjónusta fyrir alla landsmenn, bæði á sviði meltingarfærasjúkdóma og eins og ég nefndi hér áðan grindarbotnsteymið er það eina sinnar tegundar í landinu. Þetta sjúkrahús þjónar öllum landsmönnum.

Ég skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að hafa hraðar hendur. Þrátt fyrir að hann ætli að hafa samráð er alveg ljóst að það þarf að kveða upp úr um framtíð St. Jósefsspítala fljótt og vel, það er vont að hafa þessa óvissu hangandi yfir. Hæstv. ráðherra gat tekið ákvörðun á fyrsta degi í starfi varðandi það að leggja af innritunargjöldin þannig að ég skora á hæstv. ráðherra að taka þessa ákvörðun fljótt og vel að gefnu samráði, ekki liggja lengi yfir þessu, og eyða óvissunni sem fyrst.