136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

handfæraveiðar.

[10:54]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Af því að hv. þingmaður nefndi útgerð mína og fiskveiðar á Lómafirði er rétt að taka fram til að forðast allan misskilning og hugmyndir um hagsmunaárekstur (Gripið fram í.) að hún er í ákaflega smáum stíl. Það er róið á litlu horni kannski nokkrum sinnum á sumri til að fá sér í soðið.

Ég tek áskorun hv. þingmanns vel og ég mun fara yfir þetta mál. Ég vil líka gjarnan eiga gott samstarf við sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd um það. Mér finnst sjálfsagt mál að hafa samráð við nefndina um t.d. það sem fram undan er og lýtur að úthlutun byggðakvótans á yfirstandandi fiskveiðiári. Slík úthlutun hefur verið mjög seint á ferðinni að undanförnu og það er bagalegt. Auðvitað væri miklu betra að skýrar reglur lægju fyrir í upphafi fiskveiðiárs um það m.a. hvernig með þennan hluta veiðiheimildanna er farið og talsverðar deilur hafa verið um þá framkvæmd þó að það hafi kannski færst í fastara form að undanförnu. Það svigrúm sem ég sé (Forseti hringir.) tengist þá fyrst og fremst þeim möguleikum sem þar gætu legið vegna þess að það er það eina sem er óákvarðað á yfirstandandi fiskveiðiári.