136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðisþjónustu.

[10:56]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að óska nýjum heilbrigðisráðherra, Ögmundi Jónassyni, til hamingju með nýtt og ábyrgðarmikið hlutverk og verkefni, og ríkisstjórninni allri óska ég farsældar í störfum sínum.

Fyrirspurn mín snýr að stöðu á þróun greiðsluþátttökukerfis almennings vegna heilbrigðisþjónustu en þar undir eru móttökugjöld, lyf, tannlæknakostnaður jafnvel og hjálpartæki. Það hefur verið unnið að þessu verkefni frá byrjun þessa kjörtímabils undir stjórn hv. þm. Péturs H. Blöndals og er óhætt að segja að hann hafi lagt nótt við dag í vinnu við þetta vandasama og mikilvæga verkefni. Með honum hefur starfað hópur karla og kvenna en varaformaður nefndarinnar er Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, nýr félags- og tryggingamálaráðherra.

Óhætt er að segja að miklar vonir og væntingar séu bundnar við þetta nýja kerfi og niðurstöðu þessarar vinnu en samkvæmt áætlunum fyrri ríkisstjórnar átti hið nýja greiðsluþátttökukerfi að geta tekið gildi 1. apríl nk. Í þessari vinnu hefur komið í ljós að greiðsluþátttaka almennings vegna heilbrigðisþjónustu er afar misjöfn. Dæmi eru um einstaklinga og fjölskyldur sem hafa þurft að bera óheyrilega mikinn kostnað vegna veikinda sem getur numið hundruðum þúsunda króna á ári. Samkvæmt niðurstöðum nefndarinnar báru um 500 manns á árinu 2007 yfir 250.000 kr. í kostnað vegna heilbrigðisþjónustu. Aðrir einstaklingar og fjölskyldur, jafnvel með jafnþungbæran langvinnan sjúkdóm og þeir sem hafa þurft að bera mikinn kostnað, þurfa á hinn bóginn að bera lítinn kostnað þannig að það er mjög mikið ójafnræði í þessu kerfi.

Ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra um áform hans til að ljúka þessari mikilvægu vinnu og hvort dagsetningar sem settar hafa verið fram geti staðist.