136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[11:16]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði sérstakt úrræði fyrir einstakling sem er ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð til að endurskipuleggja fjármál sín með aðstoð umsjónarmanns. Nánar tiltekið felst í þessu úrræði að skuldara sem er ógreiðslufær er gert auðveldara fyrir að leita nauðasamninga og er gert ráð fyrir ýmsum nýmælum því til stuðnings.

Einstaklingar hafa nú þegar heimild til að leita nauðasamninga að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þó hafa ekki verið mikil brögð að því hingað til að einstaklingar í verulegum greiðsluerfiðleikum hafi nýtt þetta úrræði. Til að greiða fyrir því voru árið 1996 sett lög um réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga. Þrátt fyrir þetta hefur árangurinn ekki verið í samræmi við væntingar og færri einstaklingar leita eftir réttaraðstoð en ætla mætti og í framhaldinu fengið nauðasamning við kröfuhafa staðfestan.

Vegna þess ástands sem nú ríkir í efnahagsmálum með tilheyrandi greiðsluvanda hjá stórum hópi manna þykir nauðsynlegt að tryggja þessum hópi virkara úrræði við að endurskipuleggja fjármál sín og ná sátt við kröfuhafa um endanlegt uppgjör skulda í samræmi við greiðslugetu þeirra og forðast þannig gjaldþrot.

Ákvæði frumvarpsins standa í nánum tengslum við reglur III. þáttar gjaldþrotaskiptalaga um nauðasamninga. Gert er ráð fyrir að um greiðsluaðlögun gildi almennar reglur laganna um nauðasamninga að því marki sem ekki er vikið frá þeim með ákvæðum frumvarpsins. Þau frávik hafa það meginmarkmið að greiða sem best fyrir að raunhæft úrræði standi til boða fyrir þann hóp einstaklinga sem á því þarf að halda. Greiðsluaðlögun nær fyrst og fremst til einstaklinga sem ekki hafa stundað atvinnurekstur. Þó getur úrræðið einnig náð til einstaklinga sem stundað hafa atvinnustarfsemi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þá er það nýmæli að greiðsluaðlögun geti náð til veðskulda í afmörkuðum tilvikum og verður nánar vikið að því á eftir. Að öðru leyti eru frávik frá hefðbundnum reglum um nauðasamningsumleitan þessi:

Í fyrsta lagi verði vikið frá þeim reglum sem gilda um undirbúning af hálfu skuldara áður en hann getur sett fram beiðni um að leita nauðasamnings. Þannig er ekki gert ráð fyrir því að skuldari þurfi að afla skriflegrar yfirlýsingar um meðmæli lánardrottna um nauðasamning. Með þessu er málsmeðferðin gerð mun auðveldari fyrir skuldara. Þá er lagt til að skuldari leggi fram greiðsluáætlun í stað frumvarps að nauðasamningi en með því móti er frekar unnt að taka mið af einstaklingsbundnum sjónarmiðum.

Í öðru lagi er ekki gert ráð fyrir því að það velti á afstöðu lánardrottna hvort greiðsluaðlögun komist á.

Í þriðja lagi er lagt til að kostnaður við að koma á greiðsluaðlögun greiðist úr ríkissjóði. Er þar fyrst og fremst um að ræða kostnað vegna vinnu umsjónarmanns með greiðsluaðlöguninni. Jafnframt hefur frumvarpið að geyma heimild fyrir dómsmálaráðherra til að ákveða með reglugerð að boðið verði upp á endurgjaldslausa aðstoð við að undirbúa beiðni um greiðsluaðlögun.

Þær meginreglur sem lagt er til að gildi fyrir greiðsluaðlögun eru eftirfarandi:

1. Greiðsluaðlögun er aðallega ætlað að vera úrræði fyrir almenna launþega og því er gerð sú krafa að viðkomandi skuldari hafi ekki undangengin þrjú ár borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi. Þó er sú undantekning að ef einstaklingur er hættur atvinnurekstri og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum sem hann stundaði eru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum hans, þá kemur það eitt og sér ekki í veg fyrir það að hann leiti eftir greiðsluaðlögun.

2. Greiðsluaðlögun nær til svonefndra samningskrafna en með því er átt við allar kröfur á hendur skuldara aðrar en þær sem eru undanþegnar áhrifum af nauðasamningi eða falla niður við staðfestingu hans og gerð er grein fyrir í 28. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Á meðal þeirra krafna sem þar eru taldar eru kröfur sem njóta tryggingar í eignum skuldara, svo sem kröfur sem tryggðar eru með veði í fasteign skuldara.

Vegna hins sérstaka ástands sem nú ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar og snertir fjárhag fjölmargra einstaklinga og heimila í landinu er í frumvarpi þessu lagt til í ákvæði til bráðabirgða að þrátt fyrir þetta verði unnt að gera breytingar á skilmálum krafna sem eru í eigu Íbúðalánasjóðs eða fjármálafyrirtækja í ríkiseigu. Það er þó gert að skilyrði að umræddar kröfur séu tryggðar með veði í íbúðarhúsnæði sem er ætlað til eigin nota skuldara. Þannig verði unnt að breyta skilmálum þess hluta skuldarinnar sem fellur innan verðmats fasteignarinnar en sá hluti sem út af stendur greiðist á sama hátt og samningskröfur. Þar sem um frávik frá meginreglu 28. gr. fyrrnefndra laga er að ræða og þess að einungis er um að ræða kröfur í eigu stofnana eða fyrirtækja í eigu ríkisins og að um tímabundið ástand í efnahagsmálum er vonandi að ræða, er eins og fram hefur komið lagt til að umrætt ákvæði sé til bráðabirgða sem ber að endurskoða fyrir 1. janúar 2011.

Til að skuldari geti leitað nauðasamnings um greiðsluaðlögun þarf hann að sýna fram á að hann sé ógreiðslufær. Því verður skuldari að gera beiðni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ásamt greiðsluáætlun og gögnum sem hún styðst við. Í greiðsluáætluninni eiga að koma fram sundurliðaðar upplýsingar um öll þau atriði sem hafa fjárhagslega þýðingu fyrir skuldarann og niðurstaða sem leidd er af þeim um hvaða fjárhæð hann hafi úr að spila við að greiða samningskröfur. Í 38. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er gerð grein fyrir atriðum sem komið geta í veg fyrir að skuldari fái heimild til að leita nauðasamnings. Þau atriði eiga einnig við um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Til viðbótar þessum skilyrðum er í frumvarpinu gerð grein fyrir nokkrum atriðum er helst varða það hvernig skuldari hefur hagað sínum fjármálum og leitt geta til þess að dómari hafni beiðni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Á það er þó lögð áhersla að nokkuð þarf að koma til svo skuldara verði synjað um heimild til greiðsluaðlögunar vegna þessara atriða.

Ef héraðsdómari fellst á beiðni skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar kveður hann upp úrskurð þess efnis og skipar umsjónarmann með greiðsluaðlöguninni. Hlutverk umsjónarmannsins er að halda utan um ferlið og aðstoða skuldara við að koma á sátt við kröfuhafa um uppgjör skulda hans. Hann tekur rökstudda afstöðu til þess hvort hann mælir með því að greiðsluaðlögun komist á og þarf því ekki að leita samþykkis kröfuhafa eins og í hefðbundnum nauðasamningsumleitunum. Mæli umsjónarmaður með greiðsluaðlögun leggur hann fyrir héraðsdóm kröfu um staðfestingu þar um. Verði sú krafa staðfest af dómara hefur það sömu réttaráhrif og réttarsátt milli skuldarans og lánardrottna hans.

Virðulegi forseti. Kjarni þessa máls er sá að einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum verði gert kleift að endurskipuleggja fjármál sín og komast þannig hjá gjaldþrotaskiptum. Markmið eða úrræði nýtist þeim einstaklingum sem mjög illa eru staddir. Aðalatriðið er að auðvelda þeim að sækja um greiðsluaðlögun og veltur því mikið á að framkvæmd laganna, ef samþykkt verða, verði með þeim hætti að skuldarar geti nýtt sér úrræði. Gert er ráð fyrir að Ráðgjafarstofa heimilanna komi að þessu þegar í byrjun þannig að einstaklingar í fjárhagsvanda leiti þangað og fái leiðbeiningar og aðstoð við að fylla út beiðni og fylgigögn. Af þessu hlýst viðbótarkostnaður fyrir ráðgjafarstofuna sem ræðst vitaskuld af þeim málafjölda sem upp kemur. Er nánar gerð grein fyrir þessum þætti málsins svo og öðrum kostnaðarauka ríkissjóðs í kostnaðarumsögn í fylgiskjali með frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði að lokinni umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.