136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[11:28]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil biðja hæstv. forseta að reyna að setja bönd á hæstv. utanríkisráðherra (Gripið fram í.) sem lætur hér eins og bestía og hefur uppi þannig orðalag að það er hvorki honum, ríkisstjórninni né þinginu sæmandi þegar verið er að spyrja málefnalegra spurninga.

(Forseti (GuðbH): Ég vil biðja hv. þingmenn að veita hv. þingmanni tækifæri til að svara.)

Herra forseti. Það er lítið eftir af þeim tíma sem ég hef til þess að (Gripið fram í.) svara vegna frammíkalla og stóryrða hæstv. utanríkisráðherra en ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra svörin svo langt sem þau náðu. Þeir sem fletta þessum tveimur málum í gegn sjá að þessi tvö mál eru ekki bara áþekk eins og hæstv. dómsmálaráðherra sagði, þau eru svo gott sem (Gripið fram í.) nákvæmlega eins, hæstv. utanríkisráðherra. Hæstv. utanríkisráðherra ætti að fara að lesa þessi mál sem hann sjálfur stendur fyrir. Það verður þá breyting frá því sem verið hefur á hans stjórnmálaferli. En ég hefði talið, hæstv. forseti, að það hefði verið skynsamlegra að frumvarp (Forseti hringir.) okkar sjálfstæðismanna hefði komið til efnislegrar umræðu og hæstv. dómsmálaráðherra hefði þá (Forseti hringir.) getað lagt til einfaldar breytingar á því frumvarpi sem þá lá fyrir en hv. þm. Lúðvík Bergvinsson stöðvaði sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar.