136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[11:30]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki annað en tekið undir orð hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar um að þessi frumvörp eru mjög samhljóða. Ég hef þó rekist á einhvern smámun. Í A-hlutanum í 63. gr. er annars vegar talað um að lög nái til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hafi borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hafi lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, og svo er bætt við: „nema [því aðeins að] atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum hans.“ Þetta er a.m.k. ekki í því frumvarpi sem mælt verður fyrir hér á eftir.

Mig langar bara til þess að vita: Hvað er það sem ríkisstjórnin og Sjálfstæðisflokkurinn hafa eiginlega gegn því fólki sem hefur staðið í atvinnurekstri? Á Íslandi hefur ríkt mjög jákvætt viðhorf gagnvart stofnun fyrirtækja og við erum með mikið stoðkerfi einmitt til þess að styðja við og hvetja fólk til þess að stofna fyrirtæki. Hins vegar þegar kemur að því að fyrirtæki lendi í þroti — sem er eiginlega sjálfkrafa afleiðing af því að stofna fyrirtæki, ákveðið hlutfall þeirra lendir í erfiðleikum og fer síðan í þrot — af hverju við viljum ekki hjálpa þeim einstaklingum sem leggja allt sitt undir til að byggja upp atvinnulífið?

Það komu fram tilmæli frá Evrópusambandinu 2002 — það eru komin ansi mörg ár síðan — þar sem þeir hvöttu aðildarlönd Evrópusambandsins til þess að aðstoða fólk við hinn endann að stofnun fyrirtækja. Ég hef upplýsingar um að bæði í Danmörku og í Svíþjóð eru frammi tillögur um breytingar í lögum á greiðslu- og skuldaaðlögunum. Þar er lagt til að komið verði til móts við einstaklinga sem hafa staðið í fyrirtækjarekstri og þá sérstaklega sem hafa verið með lítil fyrirtæki því oft hefur fólk (Forseti hringir.) neyðst til að taka á sig persónulegar skuldbindingar.