136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[12:02]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nokkuð undarleg framsöguræða hjá hv. þm. Birni Bjarnasyni og var honum tíðrætt um leikaraskap, leikrit og sýndarmennsku í tengslum við frumvarpið. Hv. þingmaður rakti þó ágætlega í máli sínu rökin fyrir því hvers vegna hér er lagt fram stjórnarfrumvarp um þetta efni. Hann rakti frumkvæði hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra Björgvins G. Sigurðssonar og hæstv. þáverandi félagsmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, hvernig þessi mál voru sett fram og lagðar fram tillögur og hvernig síðan hefur verið rekið á eftir því í dómsmálaráðuneytinu að fram komi frumvarp.

Ég hlýt að spyrja hv. þingmann hvort hann telji sig eiga einhvern höfundarrétt á því verki sem þannig er fram borið af hálfu margra ráðuneyta með aðkomu réttarfarsnefndar og bestu sérfræðinga. Það er stórkostlegt að hlusta á þann valdhroka sem felst í þeirri afstöðu hv. þingmanns að hann eigi með einhverjum hætti höfundarrétt á þeim stolnu fjöðrum sem hann reynir nú að skreyta sig með.