136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[12:05]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta var nokkuð kostuleg ræða hjá hv. þingmanni, fyrrverandi dómsmálaráðherra, en niðurstaðan sýndist mér vera sú að hann er samþykkur frumvarpi hæstv. núverandi dómsmálaráðherra nema hann vill nota orðið skuldaaðlögun í staðinn fyrir orðið greiðsluaðlögun sem hefur verið notað um þetta fyrirbæri í 15 ár á Íslandi.

Sjálfstæðismenn tala um stolnar fjaðrir og einn um höfundarrétt. Hvað var á móti greiðsluaðlöguninni þegar fyrst var flutt tillaga um hana árið 1993? Hvað var á móti þegar fyrsta frumvarpið kom 1995? Hvað var á móti henni þegar Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri fluttu frumvörp sín 2001, 2002, 2003, 2004, 2005 og 2006? Sjálfstæðisflokkurinn, dómsmálaráðherrarnir Þorsteinn Pálsson og Björn Bjarnason og fjármálaráðherrarnir Friðrik Sophusson og Árni Mathiesen hafa staðið gegn heimildum um greiðsluaðlögun í 15 ár. Hverju reiddust goðin þessi 15 ár?