136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[12:07]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er hræddur um að hv. þm. Björn Bjarnason hafi misskilið mál mitt. Ég spurði ekki um tæknilega aðkomu hans sem ráðherra að málinu á sínum tíma heldur afstöðu Sjálfstæðisflokksins í því þegar hann í stjórnarsamvinnu, fyrst við Alþýðuflokkinn, síðan Framsóknarflokkinn og svo við Samfylkinguna, stóð í vegi fyrir þessu máli, hindraði það og tafði og það var ekki fyrr en þrýst var á nú alveg á síðustu mánuðum þeirrar stjórnar sem nú er farin frá að málið hafðist nokkurn veginn í gegn. Það er þetta sem ég spyr um. Hvað olli hinum skyndilegu sinnaskiptum Sjálfstæðisflokksins og dómsmálaráðherra hans? Hafi Björn Bjarnason ekki komið nálægt málinu gerði a.m.k. forveri hans Þorsteinn Pálsson það, báðir hv. þingmenn á sínum tíma, því að Þorsteinn Pálsson, dómsmálaráðuneytið, átti fulltrúa í nefndum sem skoðuðu þetta mál eins og kemur fram í ræðu sem ég ætla að flytja um sögu málsins á eftir, hv. þm. Birni Bjarnasyni og öðrum hans líkum til ánægju og yndisauka.