136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[12:13]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er brandari að hlusta á hv. þm. Björn Bjarnason tala um að hann hefði verið tilbúinn að leggja þetta mál fram mun fyrr. Þegar við horfum á staðreyndir málsins þá hafði Sjálfstæðisflokkurinn næg tækifæri á 18 árum, þeim tíma sem hann var í ríkisstjórn, til að leggja þetta mál fram. Það þurfti að sparka flokknum úr ríkisstjórn og landið var að verða gjaldþrota áður en flokkurinn var tilbúinn að samþykkja mál um greiðsluaðlögun. Ég vil þá ítreka spurninguna fyrst þetta eru nánast samhljóða mál hjá ríkisstjórninni og Sjálfstæðisflokknum og spyrja hv. þingmann: Hvað er það sem hinn svokallaði flokkur atvinnulífsins hefur gegn því að koma til móts við þá sem hafa lagt allt sitt undir til að byggja upp Ísland?